Aðalbjörg er 100 ára og í fullu fjöri – blæs til handverkasýningar
Aðalbjörg Jónsdóttir, sem mun fagna 100 ára afmæli í desember næstkomandi, opnar sýningu á prjónuðu listahandverki kl. 17 þriðjudaginn 11. október í Kirsuberjatrénu við Vesturgötu.
Aðalbjörg er kunn fyrir prjónaða blúndukjóla úr eingirni sem eru einstakir í sinni röð og hafa vakið athygli langt út fyrir landsteinanna. Á sýningunni mun Aðalbjörg sýna prjónað listhandverk sem hún hefur unnið að á síðustu árum og óhætt er að segja að komi skemmtilega á óvart.
Ævisaga Aðalbjargar, „Líf og list Aðalbjargar Jónsdóttur: Prjónað af fingrum fram“, skráð af Kristínu Schmidhauser, kom nýlega út í Bókaútgáfu Sæmundar. Þá er væntanleg á næsta ári bók um prjónaða kjóla Aðalbjargar, ásamt uppskriftum, eftir Hélène Magnússon. Sýningin, sem er sölusýning, mun standa yfir fram til sunnudagsins 16. október.