25 þúsund neita sér um tannlæknaþjónustu – Bjarni Ben segir Íslendinga aldrei haft það eins gott
Fjórar af hverjum hundrað konum og tveir af hverjum hundrað körlum neituðu sér um þjónustu læknis eða sérfræðings árið 2015 vegna kostnaðar, eða samtals tæplega 8 þúsund manns. Kostnaður er meiri fyrirstaða fyrir tekjulægri hópana en þá tekjuhærri, en 6% fólks í tekjulægsta fimmtungnum fór ekki til læknis vegna kostnaðar á móti rúmlega 1% fólks í efsta tekjufimmtungi. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.
Hlutfallslega margir á Íslandi neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar miðað við önnur Evrópuríki sé tekið mið af nýjustu samanburðartölum sem eru frá árinu 2014 en þá fóru ríflega 3% Íslendinga ekki til læknis vegna kostnaðar sem var sjötta hæsta hlutfallið í Evrópu.
Tölur hagstofunnar birtast nokkrum dögum eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og starfandi fjármálaráðherra, hneykslaðist á þeim sem ósátt eru við sífellt meiri ójöfnuð, veikari stoðir og hækkandi skattbyrði á láglaunafólk. „Ef maður skoðar stöðuna heilt yfir þá er í raun og veru hægt að segja að við höfum aldrei haft það jafn gott eins og í dag,“ sagði Bjarni í þættinum Kastljós snemma í desember. Um leið varaði hann við því að óróleiki á vinnumarkaði, kröfur fólks um kjarabætur, gæti ógnað stöðugleika.
Þá vakti það athygli rétt fyrir kosningar þegar Bjarni gerði að því skóna að 70% tekjuskattsgreiðenda væru í raun baggi á ríkinu. Ummælin lét fjármálaráðherra falla á Facebook í vörn vegna gagnrýni á skattastefnu hans. Í tíð Bjarna hefur skattbyrði hækkað á alla tekjuhópa nema tekjuhæsta fimmtunginn.
Á heildina litið er hlutfall þeirra á Íslandi, sem ekki fóru til tannlæknis þrátt fyrir að þurfa þess, hátt í evrópskum samanburði. Hlutfall kvenna sem ekki fór til tannlæknis vegna kostnaðar reyndist vera það fjórða hæsta í Evrópu og hlutfallið meðal karla það fimmta hæsta.
Einn af hverjum fjórum atvinnulausum á Íslandi fór ekki til tannlæknis vegna kostnaðar árið 2014, 23% kvenna og 26% karla, sem er fjórða hæsta hlutfallið í Evrópu hjá báðum kynjum. Næst á eftir atvinnulausum eru hæstu hlutföll þeirra sem neita sér um tannlæknaþjónustu að finna hjá fólki sem er á vinnualdri en ekki á vinnumarkaði, til dæmis námsmenn, öryrkjar eða heimavinnandi. Um 17% kvenna utan vinnumarkaðar á Íslandi fór ekki til tannlæknis sökum efna árið 2014 og deilir Ísland þar hæsta hlutfallinu með Portúgal og Lettlandi. Meðal karla var hlutfallið á Íslandi um 13%, sem er annað efsta hlutfallið á listanum á eftir Lettlandi (18%).