Skil fyrrum fjármálaráðherra á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum
Birt 27 jan 2017
Ég var að senda inn beiðni um sérstakar umræður á Alþingi. Fyrirspurn beint til forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar.
Helstu spurningar til ráðherra:
- Hvaða lög, reglur, réttarákvæði og/eða siðareglur ákvarða hæfi ráðherra?
- Með tilliti til fyrri viðskipta sinna í gegnum félag á aflandssvæði, var þáverandi fjármálaráðherra hæfur til þess að meta það hvort efni skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum varði almannahag og hvenær sé við hæfi að birta hana?
- Fram hefur komið að þáverandi fjármálaráðherra fékk kynningu á skýrslunni um eignir Íslendinga á aflandssvæðum þann 5. október 2016. Hvenær telur ráðherra að skýrslan hafi verið tilbúin til birtingar?
- Í ljósi þess að skýrslan var birt á heimasíðu ráðuneytisins þann 6. janúar síðastliðinn, þegar Alþingi var ekki starfandi, hvaða rök voru fyrir því að birta hana þá sem ekki áttu líka við fyrir kosningar, jafnvel á meðan þing var ekki að störfum?
- Varðar efni skýrslunnar almannahag?
- Braut ráðherra gegn 6. grein, lið c) í siðareglum ráðherra með því að taka ákvörðun um að skýrslan skyldi ekki birt þingi eða þjóð um leið og ráðherra fékk kynningu á henni, 5. október 2016, heldur þremur mánuðum síðar, eftir að kosningar höfðu gengið í garð?
Ráðherra sagði þegar hann neitaði að mæta á nefndarfund um skýrsluna að hann væri til í að ræða málið á þingi. Nú reynir á hvort hann vilji tala sérstaklega um það hvenær og hvernig hann skilaði skýrslunni frá sér.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa. Kvennablaðið hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu og áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir.