Kerling inn við beinið
Það er upplagt á köldum Sumardegi fyrsta að gangast við því að vera orðin kerling. Ég viðurkenndi þetta fyrir sjálfri mér fyrir rúmu ári en ég hef svosem ekkert verið að úttala mig um þetta fyrr en nú enda fullviss um að enginn tæki eftir þessu, að enginn í hverfinu hefði heyrt skaðræðisópin sem ég rek upp þegar ég mæti systur Diddu úr Föngum sem kjagar út úr sturtunni í speglinum á morgnana.
Stefán, maðurinn minn hefur ekkert voðalega góða sjón og ég hef ekkert verið að hvetja hann til að fá sér gleraugu. Hann slær mér oft gullhamra þegar ég er upp á mitt versta sem veitir mér fullvissu um að hann sé nánast blindur og að skjallið renni af vörum hans af skyldurækninni einni saman. Hann veit ekkert hvernig ég lít út.
En það eru ekki bara breytingarnar ytra sem koma upp um kerlinguna í mér.
Alltaf versnar það, sagði Stefán upp úr eins manns hljóði seint að kvöldi páskadags. Hann sat upp við dogg í rúminu að horfa á stórtækar vinnuvélar mylja járnstólpa mélinu smærra á Youtube. Nú, hvað er, svaraði ég. Ertu að verða eitthvað þreyttur á mulningsvélunum? Eru þær ekkert að gera fyrir þig lengur?
„Nei ég var bara að spá í það að þú ert búin að vera að elda mat í allan dag ofan í gesti og núna eru börnin komin í ró og þú situr og saumar út eins og þú eigir lífið að leysa?“
Ég er að sauma út krosssaumsmynd, töluvert ljóta en allt um það og þótt þetta sé afskaplega seinlegt og javinn óþjáll og leiðinlegur þá finnst mér þetta ótrúlega skemmtilegt. Ég get reyndar ekki þrætt nálina nema að setja upp Tiger gleraugun og helst þyrfti ég að hafa heitan bakstur á öxlunum því ég sit eitthvað svo álappalega við þessa iðju að ég er eiginlega kartæk eftir örfá spor.
„Já, Stefán minn, þetta hafðirðu upp úr krafsinu að giftast konu sem er sex árum eldri en þú. Aldursmunurinn var svo sem ekki til vansa þegar við vorum bæði yngri, en nú mun aldeilis fara að sverfa að. Heldurðu að það verði ekki gaman fyrir þig þegar þú ert sjötugur að vera með nær áttræða heilabilaða kerlingu í eftirdragi? Viltu ekki bara taka mynd af mér og setja mig á Bland strax!“
Nei, ég hugsa að ég myndi setja þig heldur á „Gefins, allt gefins“ á Facebook.
Þögn.
„Slakaðu á Steinunn mín, nei ég var bara að spá í að þú hefur verið að þróa með þér æ meiri áhuga á gardínum og já, álnavöru almennt upp á síðkastið og ég var bara að velta þessu fyrir mér. Þú talar mikið um gardínur og ég hef sjaldan séð þig jafn glaða og þegar þú fannst stórisa eins og hún amma þín var með í stofunni sinni að ógleymdum ómældum áhuga þínum á servéttum. Þetta er frekar nýtilkomið og alveg ný hlið á þér, Veistu af hverju þetta stafar?“
„Nei, ekki hugmynd, en þetta er örugglega eitthvað tengt því að ég er komast á breytingaskeiðið og ég veit að konur hafa bókstaflega breyst í útsaumandi ófreskjur meðan það gengur yfir!
„Hvenær áttu aftur tíma hjá Arnari, elskan mín?“
„Þó Arnar sé frábær læknir þá getur hann ekkert hamið mig við handavinnuna, þú skalt átta þig á því að ég er ekki enn komin á breytingaskeiðið þannig að kannski erum við að tala um stigmagnandi ástand sem gæti varað næstu 7-8 ár“, hálf-æpti ég á hann.
„Viltu ekki leggja nálina frá þér, taka út úr þér tennurnar, brjóta saman göngugrindina og staulast hérna upp í til mín, Steinunn mín?“
Þetta er alveg rétt hjá honum, ég finn hvernig ég kerlast upp innra með mér með hverjum deginum sem líður, ég hef upp á síðkastið fengið mikinn áhuga á desertum, kremum og púðum, mjög mikinn áhuga á gardínum – þótt ég hafni því að það sé eitthvað sjúklegt – töluverðan áhuga á blómstrandi jurtum og svo náttúrlega bað ég um kettling í jólagjöf og er auðvitað löngu búin að sálgreina mig á þá leið að þetta sé einhver meðgöngueftirsjá, ég veit að ég mun ekki eiga fleiri börn og þá er lítill kettlingur eitthvað sem kemst nálægt því að annast ungviði. Sorglegt.
Sumarið er samkvæmt dagatalinu á næsta leiti, þó erfitt sé að ímynda sér það meðan ískalt Grænlandsloftið lemur á okkur. Ég má þakka fyrir að hafa ekki rifið af öllum beðum daginn sem ég hélt að sumarið væri komið og ég tók leigubíl í Blómaval til að skoða sumarblómin.
Stefán var fastur við rúmið, bölvuð geislameðferðin! – og ég gat bara ekki beðið. Ég varð að komast í Blómaval. Bílstjórinn á Hreyfli hafði samúð með mér, greinilega kerlingavanur og bauðst til að stoppa mælinn á meðan ég færi inn í búðina.
Þú verður fljót, er það ekki? Ég get ekkert lofað því, sagði ég, ég þarf nú að sjá hvað er til og svona …
Það voru auðvitað engin sumarblóm komin í Blómaval, og glatað úrval af garðhönskum! Ég ráfaði bara um búðina eins og afglapi. Til að réttlæta ferðina og svo að bílstjórinn héldi ekki að ég væri galin, keypti ég tvær friðarliljur til að koma á sáttum innra með mér.
Gleðilegt sumar!