Hæstiréttur í Undralandi
Ásthildur Þórsdóttir skrifar:
Á dögunum kom út kom út bókin „Með lognið í fangið – um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ eftir Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðing og fyrrverandi Hæstaréttardómara.
Í frétt um bókina á visir.is skrifar Jakob Bjarnar:
Bókin er hrollvekja. Eða ætti í það minnsta að vera það fyrir alla sem telja einhvers um vert að búa í réttarríki.
Í bókinni setur höfundur fram grjótharða gagnrýni á nafngreinda Hæstaréttardómara, segir þá stunda lýðskrum með dómum sínum og að þeir dæmi ekki lögum samkvæmt.
Þarna eru notuð stór orð en þau eru því miður sönn. Fórnarlömb Hæstaréttar eru mörg. Þau skipta þúsundum og mörg þeirra hafa reynt að vekja athygli á brotum Hæstaréttar með vægast sagt litlum árangri.
Í frægri sögu Lewis Carroll lendir stúlkan Lísa í Undralandi. Í Undralandi hittir hún spiladrottningu eina sem útdeilir refsingum af miklum móð án þess að færa nokkur rök fyrir ákvörðunum sínum. „Off with his head!“ hrópar drottningin í gríð og erg og spilin sem eru svo óheppin að verða fyrir „réttlæti“ hennar eru dregin á höggstokkinn án þess að geta nokkra björg sér veitt.
Þó sagan um Lísu í Undralandi sé skemmtileg aflestrar er ekkert gamanmál að búa í landi þar sem öllu er snúið á hvolf, þar sem réttlæti er fótum troðið og fórnarlömb eru látin taka á sig refsingu þeirra seku.
En þannig er það einmitt á Íslandi.
Undralandið Ísland
Við hljótum að vera í Undralandi þegar dómarar Hæstaréttar dæma ekki samkvæmt lögum ef þau henta ekki hagsmunaðilum, þúsundum til skaða – og komast upp með það.
Við hljótum að vera í Undralandi þegar Hæstiréttur ákveður að brjóta lög- og Stjórnarskrárvarin réttindi þúsunda, bara af því það hentar þeim eða vinum þeirra.
Við hljótum að vera í Undralandi þegar skrifuð eru lögfræðiálit að fyrirmælum ráðherra sem svipta fólk lögvörðum neytenda og samningsrétti.
Við hljótum að vera í Undralandi þegar dómarar Hæstaréttar dæma eftir forskrift og fyrirmælum lögfræðiplaggs úr ráðuneyti.
Við hljótum að vera í Undralandi þegar höfundur laga situr í réttinum og dæmir eftir eigin lögum, sem þar að auki eru samin með hagsmunaaðila í huga.
Jú það er rétt, Alþingi setur lög. En í Undralandi fá embættismenn starfandi dómara til að semja fyrir sig lög og Markús Sigurbjörnsson sneið þau svo vel að þörfum fjármálafyrirtækja og banka að almenningur á aldrei sjens eða von um réttlæti í baráttu sinni við þau.
Við hljótum að vera í Undralandi þegar starfandi Hæstaréttardómari, Benedikt Bogason, kemur í veg fyrir lagasetningu sem Alþingi var búið að samþykkja í 1. og 2. umræðu.
Á milli 2. og 3. umræðu mætti dómarinn á fund Alsherjar og menntanefndar Alþingis og krafðist þess að breytingatillögur við lög sem sem Alþingi var búið að samþykkja í tvemur umræðum og fólu í sér miklar réttabætur fyrir almenning, yrðu teknar úr lagafrumvarpin og rökin? Rökin voru að réttarbæturnar yllu óvissu. Meira þurfti ekki og Alþingi hlýddi og breytingatillögurnar voru teknar út í 3. umræðu.
Það getur bara gerst í Undralandi að maður sem brýtur með þessum hætti gegn stjórnarskrárbundnum aðskilnaði löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, sé svo blindur á eigin gjörðir að hann „snúi sér svo við“ og kæri mann fyrir nákvæmlega sömu gjörð: það að hafa beitt áhrifum sínum eða tengslum til að hafa „óeðlileg áhrif“.
Nema í því tilfelli sem Benedikt Bogason sér ástæðu til að kæra, voru það þó „bara“ dómarar sem (hugsanlega) urðu fyrir áhrifum og „áhrifin“ höfðu bara afleiðingar fyrir einn mann en ekki þúsundir, eins og þegar Benedikt sjálfur Bogason beitti áhrifum sínum með vafasömum hætti.
Annars hefur mantran í Undralandinu einmitt verið sú að dómarar séu ávalt hafnir yfir allan vafa og að utanaðakomandi þrýstingur hafi aldrei áhrif á dóma þeirra.
Við hljótum að gera ráð fyrir að innanbúðarmaður hjá Hæstarétti viti hver raunveruleikinn er og ég kann Benedikt hinar bestu þakkir fyrir að sýna fram á hversu auðvelt það er að beita Hæstaréttardómara þrýstingi og hafa áhrif á niðurstöðu þeirra. Jón Steinar sendi nokkrum dómurum bréf og gott ef hann bauð þeim ekki hreinlega í kaffi líka. Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef verulegir fjárhagslegir hagsmunir hefðu verið í húfi, hvaða áhrif ætli það hefði haft á niðurstöðu Hæstaréttar?
Að búa í Undralandi
Það hafa margir bent á afglöp dómara Hæstaréttar á árunum eftir hrun, bæði einstaklingar og félagasamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna, og alltaf talað fyrir daufum eyrum.
Í tilvitnun Jakobs Bjarnar sem vitnað er í hér að ofan stendur „Bókin er hrollvekja. Eða ætti í það minnsta að vera það fyrir alla sem telja einhvers um vert að búa í réttarríki.“
Við erum allt of mörg sem höfum lifað í þeim hrollvekjandi veruleika að við búum ekki í réttarríki. Við höfum verið svipt heilögum réttindum og látin taka á okkur refsingu fyrir brot annarra.
Það er ekki nóg með að okkur hafi verið refsað, heldur höfum við hreinlega þurft að borga gerendunum, þeim sem brutu á okkur, bætur fyrir glæpinn sem á okkur var framin.
Þetta heitir að snúa hlutunum á hvolf og slíkt er bara mögulegt í Undralandi.
Þann 6. október, á 9 ára afmæli hrunsins, birtu Hagsmunsamtök heimilanna heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu, undir fyrirsögninni „Við ákærum!“
Í auglýsingunni voru settar fram alvarlegar ásakanir á dómara Hæstaréttar en þar stóð:
Hagsmunasamtök heimilanna ákæra Hæstarétt Íslands
- fyrir að dæma ítrekað gegn skýrum lögum um neytendavernd og samningsrétt
- fyrir að brjóta lög- og stjórnarskrárvarin réttindi almennings í dómum sínum
- fyrir að ganga augljóslega erinda sterkra hagsmunaaðila í dómum sínum
Það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin við auglýsingunni voru mikil eins og við er að búast í vestrænu réttarríki. Því hvers konar þjóðfélag væri það eiginlega sem myndi láta svona ásakanir á hendur hæstaréttardómurum landsins sem vind um eyru þjóta og héldi bara áfram að kóa með þeim?
Það land er nú varla til!!
En jú það land er því miður til: Undralandið Ísland.
Þar vakti auglýsing þessi enga athygli hvorki hjá ráðamönnum eða fjölmiðlum.
Hagmunasamtök heimilanna og aðrir sem hingað til hafa reynt með litlum árangri að vekja athygli á brotum Hæstaréttar, kunna Jóni Steinari bestu þakkir fyrir hjálpina. Því þó hann hafi ekki séð ástæðu til að fjalla um þau brot Hæstaréttar sem hafa haft skelfilegar afleiðingar fyrir þúsundir, þá er hann að tala um nákvæmlega sömu hlutina og við, nefnilega að Hæstaréttardómarar stundi „lýðskrum með dómum sínum og að þeir dæmi ekki lögum samkvæmt“ svo aftur sé vitnað í orð Jakobs Bjarnar.
Off with his head!
Í Undralandinu Íslandi er öllu snúið á hvolf, alveg eins og hjá Lísu:
- það þurfa að vera skotheld lagaleg rök fyrir því að stöðva óréttlætið, í stað þess að réttlætið njóti vafans.
- Það er hægt að setja vægast sagt vafasöm lög til „verndar“ bönkunum með hraði en ómögulegt að endurskoða þau, hvað þá afnema.
- Sé vafi til staðar njóta lánþegar hans aldrei, en bankarnir alltaf.
- Óréttlæti er varið með og kallað „jafnræði“ á meðan það heitir að réttlætið feli í sér „ójöfnuð“.
- Stjórnsýslan þarf að skoða vel og vandlega lagaleg rök með því að stöðva óréttlætið en virðist sátt við að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan réttlætið er fótum troðið.
- Dómarar dæma ekki að lögum, eða a.m.k. líta fram hjá þeim sem koma sér illa fyrir fjármálakerfið,
- Lögfræðingar eru upp til hópa hagsmunaðilar því þeir vinna svo mikið fyrir bankana þannig að nánast ómögulegt er að fá lögfræðilega ráðgjöf sem hægt er að treysta – hafi maður yfirleitt efni á henni!
Við, sem finnum okkur í þessum kafkaíska veruleika, erum ekki einu sinni saklaus uns sekt er sönnuð. Við búum bara í einhvers konar Undralandi þar sem drottningin öskrar að geðþótta „Off with his head“ og „dómnum“ er svo bara framfylgt af embættismönnum án spurninga og án þess að lagastoð eða sekt sé fyrir hendi.
Samkvæmt stjórnskipan á Hæstiréttur alltaf að hafa síðasta orðið sem er bæði rétt og gott, en þá verða dómarar réttarins líka að rísa undir þeirri ábyrgð. Geri þeir það ekki hlýtur annað hvort löggjafarvaldið og/eða framkvæmdavaldið að þurfa að stíga þar inn og vernda almenning bregðist Hæstiréttur skyldum sínum jafn hrapallega og raun ber vitni. Til þess höfum við þrískiptingu valds.
En í stað þess að gera það hafa ráðherrar, alþingismenn og embættismenn falið sig á bakvið Hæstarétt, líkt og hann sé guðleg og óskeikul vera sem geri aldrei mistök, eins og fjallað er um hér. Enda óþægilegt að fara að sópa upp skítnum í kerfinu, hann er bara svo hræðilega mikill.
Þannig er Undralandið Ísland í dag!
Er ekki kominn tími til að breyta þessu og láta dómara Hæstaréttar taka ábyrgð á brotum sínum þó ekki væri nema með því að svipta þá embætti?
Er ekki komin tími til að dómarar dæmi samkvæmt gildandi lögum?
Er ekki kominn tími til að allir séu jafnir fyrir lögum?
Er ekki kominn tími til að stöðva óréttlætið á Íslandi?
Lengi lifi réttlætið!