Danmörk: Ráðherra útilokar ekki að vista flóttafólk á eyðieyjum
Inger Støjberg, innflytjenda- og húsnæðismálaráðherra Danmerkur, sagðist í síðustu viku ekki andsnúin hugmyndum Þjóðarflokksins (Dansk Folkeparti) um að vista þá sem synjað hefur verið um hæli í landinu á annars óbyggðum eyjum. Tillagan var lögð fram í umræðum um fjárlög næsta árs en ummæli ráðherrans bárust í svörum hennar við spurningum blaðsins Berlingske tidende.
„Ásýnd frelsisskerðingar“ galli á hugmyndinni
„Ég er alltaf til í að skoða nánar góðar hugmyndir um hvernig má bæta stjórnun hælisumsækjenda sem hefur verið synjað,“ skrifaði ráðherrann, og sagði það „vitaskuld“ einnig eiga við um tillögur Þjóðarflokksins. Þó geti verið að „praktískar og réttarlegar áskoranir“ felist í að opna „brottvísunarstöðvar“ á mjög einangruðum stöðum, og það þurfi að meta. Hún sagði brottvísanir oft eiga sér stað með miklum hraði, sem gæti reynst erfitt séu þeir sem brottvísa skal hýstir á eyðieyju.
Þess utan, sagði ráðherrann, gæti reynst dýrt að reisa slíka miðstöð á óbyggðri eyju, það gæti haft „ásýnd frelsisskerðingar“ og þar með orðið erfitt að samræma mannréttindasáttmálanum.
Í frétt Berlingske tidende kemur fram að í byrjun september hafi 921 manneskja dvalið í Danmörku eftir að vera synjað um hæli. Af þeim sé ekki ljóst hvert 434 skuli fara. Nokkur hópur þeirra sé vistaður í Kærshovedgård, sem áður var ríkisfangelsi.
Kærshovedgård „verra en fangelsi“
Brottvísanamiðstöðin Kærshovedgård liggur 300 km. frá Kaupmannahöfn, og í 7 kílómetra fjarlægð frá næsta bæ. Þar var, sem fyrr greinir, áður fangelsi. Starfsfólk miðstöðvarinnar er menntað og þjálfað til fangavörslu.
Ráðherrann Inger Støjberg hefur lýst yfir þeim ásetningi stjórnvalda að gera íbúum miðstöðvarinnar dvölina jafn „óþolandi og hægt er“. Nokkur hluti íbúanna sæta því sem nú heitir „umborin dvöl“ í Danmörku: það eru þeir sem dönsk yfirvöld synja um hæli vegna brota á sakaskrá, eru þó ekki refsifangar og er óheimilt að brottvísa vegna ógnar í heimalandi, sem myndi annars veita viðkomandi rétt á vernd.
Íbúum miðstöðvarinnar hefur frá upphafi verið gert að dvelja þar hverja nótt, fjarri fjölskyldum sínum. Fyrir ári síðan voru reglurnar þrengdar enn, og þeim aðeins gert heimilt að fara úr herbergjum sínum þrisvar á dag, klukkustund í senn, í tengslum við máltíðir. Þeim er bannað að notast við almenningssamgöngur sveitarfélagsins, og fá ekki greiðslur til framfærslu.
Amnesty International hefur ítrekað lýst áhyggjum af regluverkinu og hugsanlegum mannréttindabrotum í rekstri miðstöðvarinnar. Samtökin segja dvöl þar meira íþyngjandi en hefðbundinn fangelsisdóm. 28 íbúar miðstöðvarinnar fóru í hungurverkfall nú í haust. Aðgerðahópar hafa haldið áfram baráttu fyrir því að miðstöðinni verði lokað.
Minnihlutastjórn háð hægri-popúlistum
Støjberg er ráðherra á vegum íhaldsflokksins Venstre. Hún vakti athygli á alþjóðavísu síðasta vor þegar myndir birtust af henni með skreytta köku í höndunum, til að fagna því að hafa hert innflytjendalöggjöf Danmerkur með 50 lagabreytingum.
Þjóðarflokkurinn er hægri-popúlískur flokkur danskra þjóðernissinna. Núverandi minnihlutastjórn Venstre, Bandalags frjálslynda og Íhaldsflokksins er háð stuðningi Þjóðarflokksins, sem ver hana falli.
Berlingske tidende greindi frá, þann 7. desember.