Frumkvöðullinn Ágústa Margrét Arnardóttir
Kvennablaðið stefnir að því að gera frumkvöðlum á Íslandi góð skil. Ágústa Margrét Skúladóttir ríður á vaðið og segir okkur sína sögu.
Ég er fædd og uppalin á Hornafirði, gekk þar í skóla og byrjaði að vinna í humri á fjórtánda ári. Tveimur árum seinna, árið 1994 fannst mér algjört rugl að vinna í fiski inni í frystihúsinu fyrir venjuleg laun ef ég gæti farið og veitt fiskinn úti á sjó fyrir miklu, miklu hærri laun. Í einni pásunni gekk ég til næsta skipstjóra og óskaði eftir að fá að fara með skipinu sem gestur. Það var byrjunin á sjómannsferli mínum sem varði í rúmlega 12 ár eða þar til ég varð ólétt að fyrsta barninu mínu.
Í september 2006 fæddist frumburðurinn og þá settist ég að á Djúpavogi. Ég kom þangað í fyrsta sinn árið 1998 til að starfa um borð í frystitogaranum Sunnutindi og ætlaði mér að vera í svona ár en hef verið hér meira eða minna síðan. Ég kynntist sambýlismanni mínum um borð í Sunnutindi, en það var ekki fyrr en seint árið 2000 sem ástin kviknaði. Á þessu tímabili hef ég þó einnig búið í Barcelona, Danmörku og á Ítalíu þar sem ég lærði skó- og fylgihlutahönnun. Ég bjó líka í Hafnarfirði meðan ég nam hönnun í Iðnskólanum í Hafnarfirði og útskrifaðist þaðan sem stúdent af listnámsbraut – hönnunarsviði árið 2005.
Það sem kom mér til að stofna fyrirtækið mitt Arfleifð – heritage from Iceland, er löngunin til að skapa, áhuginn á því að búa til og framkvæma hugmyndirnar sem ég fæ og metnaðurinn fyrir því að byggja eitthvað upp frá grunni. Mig langaði að starfa við það sem ég menntaði mig í og hef mestan áhuga á og mig langaði að búa í mínum heimabæ, Hornafirði, eða heimabæ mannsins míns, Djúpavogi. Það voru engin fyrirtæki á Hornafirði og Djúpavogi sem hentuðu mér… þannig að ég ákvað að búa fyrirtæki til sjálf.
Í febrúar 2007 leitaði vinkona mín hér á Djúpavogi til mín, hún var að fara að opna verslun hér í bæ og spurði hvort ég vildi vera með sér, búa til vörur og selja þar. Mig langaði virkilega mikið að fara að búa eitthvað til og ákvað að slá til.
Ég ætlaði mér bara að hafa þetta lítið og þægilegt, dunda við að gera nokkrar töskur og selja og hafa það gott með litla barninu en um leið og ein taska var komin á markað var komin krafa frá kaupendum (og mest frá mér sjálfri) um aðra tösku og svo aðra og svo enn fleiri. Svo kom krafan/þörfin fyrir heimasíðu, ljósmyndir, bæklinga og nafnspjöld, sölustaði, sýningar og fleira sem er mjög kostnaðarsamt og þar með þurfti ég að framleiða miklu meira en ég hafði tíma og getu til, þannig að fljótlega varð þetta miklu, miklu meira og stærra en ég ætlaði mér akkúrat á þessum tíma.
Þess vegna var ég illa búin undir svo margt sem snýr að svona rekstri, hafði enga ákveðna stefnu, gerði aldrei raunhæfa kostnaðar-, viðskipta- eða verkáætlun. Ég gerði mér hvorki grein fyrir kostnaðinum og vinnunni sem ég yrði að leggja í þetta, svo að þetta myndi ganga upp, né ótal mörgu öðru sem gerði það að verkum að þetta var hörkupúl og mjög erfitt.
Árið 2009, tveimur árum eftir að ég byrjaði aftur eftir námið á Ítalíu varð ég ólett í þriðja sinn, með 2 lítil börn heima, þreytt og óákveðin um framtíð rekstursins sem þá hét „Gusta design“ þannig að ég ákvað að taka mér pásu um óákveðinn tíma. Ég eignaðist 3 börn á þremur árum og þrem vikum, þannig að frá því að ég varð ólétt í fyrsta sinn og þar til þriðja barnið hætti á brjósti liðu 6 mánuðir á fjórum og hálfu ári sem ég var ekki með barn í maganum eða á brjósti. Pásan varði í cirka 2-3 mánuði en þá var þriðja barnið 2 vikna og ég fór að spá, spekúlera og skipuleggja betrumbættan rekstur.
Í lok desember 2009 setti ég upp dagatal með verklýsingu sem miðaðist við að ég myndi frumsýna nýtt og breytt fyrirtæki 24. apríl 2010. Ég vann allan sólahringinn, ef ekki við fyrirtækið þá var ég að sinna börnunum. Hugmyndavinna, hönnun, sníðagerð, markaðssetning, vörumerki, logo, bæklingar, umbúðir, auglýsingar, sýningar, sölustaðir og annað átti hug minn allan sem og framleiðslan á vörunum. Þetta var algjör geðveiki en þetta tókst.
24. apríl 2010 frumsýndi ég Arfleifð hér á Djúpavogi, fatnað og fylgihluti úr íslenskum hráefnum, svo sem hreindýra-, sel- og lambaleðri, þorsk-, karfa-, hlýra- og laxaroði, hornum, beinum, hrosshárum, landnámshanafjöðrum og fleiru sem náttúran gefur. Allt eru þetta aukaafurðir frá íslenskri matvælaframleiðslu og við notum engin dýr sem alin eru í búrum til þess eins að verða tískuvara. Sumt fáum við meira að segja frá dýrunum á meðan þau eru á lífi án þess að þau viti, t.d. fellihorn af hreindýrum, lokka úr tagli hrossa, fjaðrir af landnámshönum og fleira.
Ég hef selt vörur mínar í ýmsum verslunum um land allt, sett upp einka- og samsýningar og tekið þátt í samsýningum annarra. Ég hef fengið alþjóðlega viðurkenningu fyrir nýtingu á hráefnum sem annars færu til spillis, sótt málþing og fyrirlestra og haldið fyrirlestra sjálf. Arfleifð er á yfir 13 myndum á Ítalska Vogue blogginu og við höfum fengið ágætis fjölmiðlaumfjöllun hérlendis. Í Arfleifð á Djúpavogi starfa nú 3 konur og sú fjórða var að taka til starfa í verslun sem ég rek í samvinnu við fleiri á Hornafirði. Ég hef farið á sýningar erlendis og í áhugaverða ferð til Brussel með konum í fyrirtækjarekstri á jaðarsvæðum og gert ótal margt fleira skemmtilegt og uppbyggilegt.
En ég hef líka grátið, öskrað, titrað og ælt af þreytu, stressi og vonleysi. Ég hef verið nánast launalaus í sex ár sem og árin þrjú sem ég var í námi. Ég hef haft ólýsanlega áhyggjur af því hvernig ég borga reikninga, næstu hráefni, auglýsingar, viðgerðir á vélum og tækjum og laun starfsmanna minna. Ég hef komið hrikalega illa andlega, líkamlega og fjárhagslega út úr sýningum sem ég hef sett upp og samstarfi sem ég hef verið í. Ég hef verið stefnulaus og ráðvillt og margoft velt því fyrir mér hvort þetta sé að ganga, hvort allt þetta erfiði sé þess virði og fleira þess háttar.
Ég hef alltaf komist að þeirri niðurstöðu að ég verði að halda áfram, ég hef óendanlega trú á og von um að Arfleifð geti haldið áfram að rúlla í rétta átt og að það komi að því að ég komist yfir mesta púlið og skemmtilegu stundirnar verði fleiri en þær erfiðu og leiðinlegu. Ég hef breyst og þroskast mikið síðasta árið, lært að vera þolinmóð og taka öllu með hóflegu jafnaðargeði. Ég hef meiri skilning á viðskiptahlið rekstursins núna en í byrjun hafði ég engan skilning eða áhuga á því. Nú þekki ég betur takmörk mín, hvað ég get gert og hvað ég get ekki gert. Reynsla síðustu ára eru bestu forsendurnar fyrir því sem gæti verið framundan og ég er svakalega spennt fyrir öllu, þó ég hafi ekki hugmynd um hvernig ég ætla að gera allt sem ég ætla mér… það á bara eftir að koma í ljós.
Eitt af því ánægjulegasta sem ég hef komist að, er að það er möguleiki að halda úti hönnunar- og framleiðslufyrirtæki og sérvöruverslun á litlum stað eins og Djúpavogi. Sumarið hér var mjög gott, sölulega séð, en á móti kemur að vetrarmánuðirnir eru svakalega erfiðir. Þess vegna vil ég líka reka sölustað á Hornafirði, þetta tvennt vinnur vel saman og mér finnst æðislegt að geta byggt upp eitthvað á Hornafirði líka, því þar er fjölskylda mín, æskuvinir, æskuminningar og fleira. Oft á tíðum var ég einhvernveginn reið eða pirruð út í Djúpavog fyrir að ég gæti ekki verið meira á Hornafirði en svo fattaði ég að ég vildi ekki fara frá Djúpavogi, mig langaði bara að vera á tveim stöðum í einu. Um leið og ég gerði mér grein fyrir að það væri ekki hægt þá leið mér betur.
Lífið á Djúpavogi er oftast rólegt, öruggt, þægilegt og gott en sumrin eru svakalega fjörug og líða hratt. Þá er svo mikið um að vera allsstaðar, ferðamenn úti um allt og ferðaþjónustuaðilar hamast við að ná ársinnkomunni á 2-3 mánuðum. Það er hasar og við bætist að skólarnir loka og púslið um hver á að vinna, hver á að sjá um börnin og annað er óstjórnlega erfitt, þannig að það er kærkomið þegar skólarnir byrja aftur og allt fer að róast.
Við eru með mjög skemmtilegt og spennandi framleiðsluplan framundan og mikið af nýjum skemmtilegum vörum í vinnslu en það er alltaf einhver rödd í huganum sem spyr hvort við munum selja nóg, hvort ég geti borgað alla reikninga, hvort ég geti haldið áfram eftir jól, hvort ég geti bætt við mig starfsfólki og fleira þess háttar. En maður verður bara að vera klár í tækla það sem fyrir mann er lagt.
Ég el börnin mín upp í þeirri trú að þau geti gert allt sem þau vilja og orðið allt sem þau vilja, ég er hrædd um að ef ég gefist upp í hjakkinu sendi ég þau skilaboð til komandi kynslóða, sérstaklega stúlknanna, að þær geti ekki orðið hvað sem er, ef þær ákveða að eignast fjölskyldu og búa á landsbyggðinni. Ég get ekki hugsað mér það, minn draumur er að sitja 70 ára gömul í þægilegum stól að prjóna töskur úr hreindýraleðri og hrosshárum á vinnustofu Arfleifðar og heilsa nokkrum af 70 starfsmönnum fyrirtækisins með bros á vör vitandi það að ég lagði mitt af mörkum til að byggja upp samfélagið og skapa atvinnu.