Vil frekar vera frábær en fúl eftir fertugt!
Sem ungar konur hugsum við ekkert sérstaklega út í það að einn daginn munum við fara á breytingaskeiðið. Þetta skeið er okkur eitthvað svo óviðkomandi og flestar okkar tengja sjálfar sig ekkert sérstaklega við það enda er það svo að margar konur vilja trúa því að þetta tímabil muni einfaldlega ekkert koma hjá þeim. En tíminn líður (eða réttara sagt; hann flýgur) og einn daginn áttum við okkur á því að við erum ekki bara orðnar miðaldra heldur líklega komnar á breytingaskeiðið líka. Já, einmitt! Og hvernig í ósköpunum gerðist það eiginlega?
Ég er ein af þeim sem kveið því að verða fertug. Mér fannst nákvæmlega ekkert heillandi við það að detta á fimmtugsaldurinn. Fljótlega náði ég þó áttum og sá að vissulega væru það forréttindi að fá að fagna afmælinu sínu ár eftir ár. Og ég áttaði mig líka á því að ekki þýddi að ætla að þráast við og halda að engar breytingar yrðu hjá mér því allar konur, og þá meina ég ALLAR konur, ganga í gegnum þessar breytingar. Á breytingaskeiðinu, og eftir að því lýkur, tekur líkaminn miklum breytingum sem geta ruglað okkur konur í ríminu og gert okkur óöruggar. Ef við hins vegar erum meðvitaðar um öll þau einkenni sem fylgja þessu og vitum hvers megi vænta verður þetta tímabil svo miklu auðveldara. Við vinnslu bókar minnar kom berlega í ljós hve misjafnlega konur taka því að fara á breytingaskeiðið og eldast. Margar taka því af stökustu ró á meðan aðrar eru í afneitun. Auðvitað getur það tekið á að eldast og breytast. Og það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að sjá að konan sem horfir tilbaka í speglinum nú er ekki sú sama og áður. En þó okkur finnist erfitt að viðurkenna að við séum ekki sömu skutlurnar og áður þá hefur þetta ferli líka vissulega ákveðna kosti í för með sér. Það er nefnilega allt útlit fyrir að lífið verði bara betra með aldrinum. Ef við náum að sætta okkur við að líkami okkar hafi breyst og eigi eftir að breytast meira getum við svo sannarlega átt bestu árin fram undan. En til þess að svo sé er nauðsynlegt að vera sáttur í eigin skinni.
Sjálf hef ég hingað til komist nokkuð vel frá breytingaskeiðinu. Vissulega er fjölmargt sem fylgir þessu tímabili og ég hef ekki farið varhluta af því. En þar sem ég á þessa fínu bók um breytingaskeiðið, og er meðvituð um breytingarnar, þá verður þetta allt svo miklu auðveldara. Að ræða málin, bæði við makann og vinkonurnar, er einnig til mikilla bóta. Hjá mér er nú farið að styttast í fimmtugsafmælið og ég get fullvissað alla um að ég kvíði því engan veginn. Ég er svo miklu meira tilbúin að verða fimmtug en þegar ég varð fertug, enda er ég hokin af reynslu og visku líkt og allar konur sem ganga í gegnum breytingaskeið. Á þessum aldri fer maður líka að líta lífið og allt í kringum sig örlítið öðrum augum. Svei mér þá ef maður er ekki bara orðinn nokkuð sáttur með sjálfan sig!