P*Aldís í Ítalska VOGUE
Aldís Pálsdóttir ljómyndari hefur sannarlega skipað sér sess meðal færustu ljósmyndara landsins. Hún er menntuð frá ljósmyndaskóla í Viborg í Danmörku þaðan sem hún útskrifaðist árið 2005 eftir fjögurra ára ljósmyndanám. Aldís starfaði í kjölfarið í nokkur ár hjá Steen Evald, ljósmyndara í Kaupmannahöfn. Hún flutti aftur heim árið 2009 og hefur verið sjálfstætt starfandi síðan. Kvennablaðið tók Aldísi tali og fékk að skyggnast inn í starfsheim hennar og afrek. Hægt er að skoða heimasíðu Aldísar HÉR
Hvaða verkefnum ertu að vinna að?
Þessa stundina er ég að ganga frá þeim brúðkaupum sem ég tók að mér í sumar. Setja þau upp í fallegar bækur og skila af mér. En til hliðar við þá handavinnu er ég að gera alls konar myndatökur, til dæmis fyrir íslenska skartgripa- og fatahönnuði. Og já, er líka að hanna plötuumslag fyrir íslenska söngkonu sem er búsett í Danmörku. Inn á milli er ég líka að vinna að auglýsingum fyrir íslensk fyrirtæki.
Að auki er ég nýorðin tengiliður Íslands fyrir norrænt fjölskyldu- og lífsstílsblogg. Þar ætla ég að gera mitt besta til að koma íslenskri hönnun, Íslendingum og Íslandi á framfæri. Ég er yfirleitt með fullt af minni verkefnum í gangi fyrir fjölskyldu og vini af því að ég er alltaf að gera allt í einu! Og já, svo er ég að vinna í bók um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Það verkefni er búið að vera í gangi hjá mér í mörg ár.
Hverju hefur þú afrekað?
Ég hef búið til, gengið með, fætt og alið upp tvö yndisleg börn!
Mér finnst líka vera afrek að geta staðið undir sér með sjálfstæðum rekstri. Ef ég ætti að rýna í starfsferilinn minn þá varð ég mjög stolt af sjálfri mér þegar ég fékk vinnu hjá ljósmyndaranum Steen Evald í Kaupmannahöfn, en með honum öðlaðist ég mikla kennslu og reynslu í tísku- og auglýsingaljósmyndun. Hann er einn sá virtasti í sínu fagi í Danmörku og tekur myndir til dæmis fyrir dönsku konungsfjölskylduna.
Ég er að vinna við það sem ég elska, að taka myndir og varðveita minningar fyrir fólk. Það finnst mér magnað og dýrmætt. Svo hef ég gengið á fjöll og hoppað út í kaldan saltan sjó!
Er ljósmyndaraheimurinn karllægur?
Ég veit það ekki. Já, eiginlega. Það þarf að vera með bein í nefinu þegar maður er sjálfstætt starfandi, eða slatta af kæruleysi og mikla trú á sjálfan sig. Karlar eru kannski kaldari með að taka svoleiðis áhættur? Þetta er græjuheimur, sem hefur oft verið tengdur við karlmenn. En annars finnst mér mjög margir stelpu-ljósmyndarar vera áberandi núna og ég er mjög stolt af því. Stundum er talað um kvenlega og karllæga nálgun í myndum en ég held að heimurinn virki bara betur, þegar við erum svolítið í bland.
Hvernig er að koma sér á framfæri sem ljósmyndari?
Það er ekki erfitt ef þú ert góður ljósmyndari. Með netvæðingunni erum við svo aðgengileg og það er auðvelt að vera sýnilegur, sem er frábært fyrir ljósmyndara. Ég held að lykilatriðið sé að trúa á sjálfan sig og kunna það sem maður er að gera. Sumir ná að skara fram úr án þess að hafa fyrir því. Sumir leggja sig fram við að koma sér á framfæri og það ætti að virka ef viðkomandi er að skila góðu efni frá sér.
Aldís hefur síðan árið 2008 unnið að gerð bókar um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Hún hefur myndað sviðsettan getnað og einnig þungaðar konur í fallegri íslenskri náttúru. Tvær af myndum hennar fyrir bókina voru valdar til birtingar í ítalska VOGUE á netinu en það þykir mikill heiður að komast þar að.
Hvernig hefur verið að vinna að gerð þessarar bókar?
Það hefur verið algjör rússíbani!
Mér fannst þessi hugmynd alveg frábær og ég skil ekki af hverju þetta hefur ekki verið gert á Íslandi mun fyrr. Bókin ætti að vera skyldueign fyrir alla foreldra og alla þá sem eru í barneignarhugleiðingum. Hún er líka skemmtileg fyrir þá sem hafa nú þegar gengið í gegnum þetta ferli, að eignast barn og gæti jafnvel svarað spurningum sem viðkomandi hefur haft á reiki í huganum. Jafnvel leyst einhverjar sálarflækjur.
Í bókinni er samansafn af reynslusögum íslenskra kvenna sem spannar yfir þrjár kynslóðir. Svo þetta er orðin ákveðin heimild líka, hvernig þessar athafnir hafi farið fram á Íslandi til dagsins í dag. Þarna eru bæði fyndnar frásagnir sem og mjög alvörugefnar. Bæði frá mömmum og pöbbum. Við fengum líka sendar alls konar spurningar sem við höfum svarað með faglegri hjálp frá ljósmóður.
Við leyfum okkur að tala um þá hluti sem fólk almennt þorir ekki að tala um. Eins og til dæmis kynlíf eftir meðgöngu. Ég sé um sjónræna upplifun bókarinnar og með myndatökunum fyrir hef ég farið yfir öll þau mörk sem ég hélt mig hafa, verið viðstödd fæðingar og tekið myndir af fólki í ástaratlotum.
Hvernig er að taka myndir af hálfnöktu fólki utandyra?
Já, fyrsta þemað sem við settum okkur fyrir bókina var að taka óléttumyndir í íslenskri náttúru. Þær myndir eru af óléttum konum í klæðum og án. Það að koma óléttri konu fyrir í íslenskri náttúru er bara dásamlega falleg samtvinna.
Svo tókum við seinna þá ákvörðun að taka myndir fyrir getnaðarkaflann líka úti í íslenskri náttúru, til að tengja kaflana saman. Þú ert kannski að ýja að þeirri reynslu? Það kom mér á óvart hvað það var eðlilegt og ekkert vandræðalegt fyrir neitt okkar. Og það held ég líka að komi vel til skila í myndunum. Þetta eru einfaldlega fallegar myndir af fallegu fólki, í fallegu umhverfi, sem elskar hvort annað.
Verðleggur þú þig í samræmi við vinnuframlag þitt?
Ég get sagt án þess að hugsa NEI!
Ég reyni að búa til verðskrá sem er í takt við aðra ljósmyndara og miða við mitt vinnuframlag. Ég er alltaf í vinnunni, ég vinn allan sólarhringinn og það fer ótrúlega mikill tími í ósýnilega vinnu. t.d. hugmyndavinnu og eftirvinnslu á myndum. Er ég ekki í vinnunni núna t.d. þegar ég svara þessum spurningum? Það getur tekið marga klukkutíma að velja úr myndir til vinnslu. Ég sé stundum eftir þeim tíma, því þá finnst mér ég ekki vera að „framleiða“ þó það sé partur af framleiðsluferlinu. Að svara tölvupóstum er annar tímaþjófur, sem ég kann ekki að meta, en er jú líka partur af framleiðsluferlinu. Ég sit við tölvuna nánast öll kvöld og fram á nætur. Fyrir utan þau kvöld sem ég sofna með börnunum mínum, þegar ég er orðin gersamlega úrvinda. Ég reyni að sannfæra mig um að ég sé að fjárfesta í sjálfri mér og þetta eigi eftir að skila sér í kassann einhvern tímann, vonandi í framtíðinni.
Ertu með góð laun sem ljósmyndari?
Það stendur hvergi að ljósmyndari eigi að vera með X-mikið í laun á mánuði. Reyndar er einhver ákveðin upphæð til á skattstofunni en ég hef aldrei náð að greiða mér þá upphæð í laun. Sú upphæð sem myndataka kostar er ekki bein laun til mín. Ég þarf að standa undir miklum kostnaði við tæki og tól og stúdíóleigu og ferðakostnað, svo eitthvað sé nefnt. Því stærri kostnaðarrekstur sem ég hef, því stærri verkefni verð ég að taka að mér. Ég hef yfirleitt bætt við mig búnaði og bætt aðstöðu mína og á aldrei neitt eftir aukalega.
Ég hef ekki hugmynd um hvað aðrir ljósmyndarar eru með í laun og ég er alls ekki í þessu peninganna vegna. Annars væri ég að gera eitthvað allt annað.
Finnur þú fyrir því á jákvæðan/neikvæðan hátt að vera sjálfstætt starfandi ljósmyndari?
Ég er algjör Pollýanna, og reyni að snúa öllu neikvæðu yfir í jákvætt.
Mér finnst óþægilegt að vera ekki með fjárhagslegt öryggi og vita hvað ég fái útborgað um mánaðamótin. Mér finnst hundleiðinlegt að rukka fólk um peninga en ég þarf samt líka að borga mína reikninga um hver mánaðamót. Svo væri auðvitað frábært ef ég gæti gefið mér nýjan sófa, eða tekið mér frí með fjölskyldunni.
Þegar ég verð neikvæð átta ég mig á hvað ég er heppin að vera sjálfstætt starfandi. Og geta ráðið tíma mínum. Mér finnst gaman að hafa nóg að gera, annars yrði ég eirðarlaus.
Kannski er oftar grjónagrautur einhvern mánuðinn en þá er bara að spýta í lófana og framleiða meira! Þetta er hellings skóli, að vera sjálfstætt starfandi. Ég er rík að eiga það að baki ef ég hætti og fer að gera eitthvað annað. Ég hugsa oft út í að hætta í þessu „harki“ en ég er svo heppin að ég hef alltaf of mikið að gera til þess að hætta.
Hver eru framtíðaráform þín?
Ég kann eiginlega ekki að gera framtíðarplön. Ég lifi alltaf í núinu og reyni að gera mitt besta til að komast af og njóta.
Draumurinn er að geta einhvern tímann orðið virt fyrirtæki, með flotta umgjörð og fólk í vinnu. Ég vildi geta tekið mér sumarfrí á launum og hætt að hafa áhyggjur af næstu mánaðamótum. Mig langar að hjálpa upprennandi ljósmyndurum að koma undir sig fótunum og leiðbeina þeim hvernig eigi að komast af, þegar ég er búin að finna út réttu uppskriftina af því. Mér hefur fundist þessi stétt svakalega illa vernduð hér á landi og mér finnst ég jafnvel enn þá vera í lausu lofti. En, ég elska það sem ég er að gera og er alltaf að læra.