Stofnaði Feministafélag Vestfjarða
Hver er konan?
Ég heiti Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, og er móðir, femínisti, eiginkona og myndlistarmaður. Ég er að auki verkefnastjóri í menningarmiðstöðinni Edinborg og sé um ýmsa viðburði hér í húsinu og svo er ég rekstrarstjóri rekstrarfélagsins Edinborgarhúsið ehf.
Hvernig er að búa og starfa á Ísafirði?
Það er náttúrulega bara yndislegt að starfa í svona litlu samfélagi þar sem allar boðleiðir eru stuttar. Okkur fjölskyldunni hefur verið tekið opnum örmum hérna fyrir vestan en við áttum svo sem bæði vini hérna áður en við fluttum. Besta vinkona mín býr í Súgandafirði og Atli maðurinn minn á marga góða félaga hér. Það kom mér samt á óvart hvað fordómar eru meira áberandi hérna en í stærri samfélögum. Það sem sló mig mest af öllu var sú staðreynd að það tíðkast ekki að bjóða öllum í barnaafmæli. Það var hálfgert menningarsjokk fyrir mig sem móður og fyrir dóttur mína sem var vön því úr skólanum sínum í Reykjavík að öllum bekknum væri undartekningarlaust boðið. Við höfum rætt þessar áhyggjur okkar við skólastjórnendur og þeir hafa lagt áherslu á að vinna gegn útilokun, sem er jú ein af elstu eineltisaðferðunum.
Hvað varð til þess að þú stofnaðir Femínistafélag Vestfjarða?
Við vinkonurnar erum allar yfirlýstir femínistar og höfum unnið fyrir Skotturnar. Fyrir rúmu ári síðan sátum við saman á kaffihúsi og ræddum hvað það væri fúlt að missa af jafnréttisumræðunni bara af því að við byggjum langt frá höfuðborginni. Ég kastaði þá fram hugmynd um að stofna femínistafélag og gera eitthvað í málunum. Snillingarnir Harpa og Lísbet, sem eru sannar Skottur, fóru á fullt í skipulagningu og félagið var stofnað á Ísafirði, 24.10.2012.„Skotturnar eru opinn samstarfsvettvangur kvenna, sprottinn upp úr grasrót íslensku kvennahreyfingarinnar. Honum er ætlað að virkja allar konur til aðgerða í þágu jafnréttisbaráttu kvenna, með kvennafrídaginn sem útgangspunkt“. Á stofnfundinn mættu bæði karlar og konur en við vorum ótrúlega stoltar af hópi ungra ísfirskra menntaskólastúlkna sem mættu. Okkur finnst frekar kúl að hafa þessar ungu flottu konur með okkur. Nú er bara að fá flotta unga karlmenn með okkur á næsta starfsári.
Hvernig gengur starfsemin fyrir sig?
Félagið er ungt og er rétt að byrja uppbyggingu sína. Við höfum verið með virka facebooksíðu sem er frábær vettvangur til að deila efni og senda út yfirlýsingar í nafni félagsins. Við stefnum á að halda reglulega fræðslufundi og aðra viðburði á okkar öðru starfsári. Ég hvet alla femínista sem vilja vinna að jafnrétti kynjanna á Vestfjörðum til að taka þátt, hvort sem þeir eru með loðna leggi eða ekki, rökuð kynfæri eða loðin, sítt eða stutt hár, karla sem konur.
Hvers vegna telur þú starfsemina mikilvæga?
Mér finnst femínistafélag mikilvægt á Vestfjörðum vegna fjarlægðar frá Reykjavík. Vestfirðir eru með lægsta menntunarstig kvenna í landinu og samkvæmt launakönnun BRSB 2012 var launamunur kynjana mestur á Vesturlandi og Vestfjörðum. Svo er mikilvægt að hafa grasrótarsamtök eins og þessi sem fylgjast með og setja fram gagnlegar ábendingar þegar kemur að jafnréttismálum.
Þú ákvaðst á dögunum að selja síða fallega hárið þitt, hvers vegna?
Mig hafði lengi langað til að vinna verk þar sem hárið á mér kæmi við sögu. Ég lét verða af því síðasta vetur að klippa það til að selja það og fjármagna næsta myndlistaverk. Ég tímdi síðan ekki að selja hárið svo ég á það enn upp í hillu og ætla að taka hluta af því til að búa til hárkollu og selja svo restina. Ég sakna ennþá ótrúlega síða hársins. Ég var að ögra sjálfri mér, fara út fyrir þægindarammann, ég mæli með því við alla að prófa.
Hverju viltu koma á framfæri til kvenna sem langar að koma hugmyndum sínum í framkvæmd?
Ef mér dettur eitthvað í hug þá framkvæmi ég það! Sumum finnst það klikkað en ég hef alltaf verið svona. Skilaboðin til kvenna sem eru með hugmyndir og langar að koma þeim í framkvæmd er einföld, DO IT!! Framkvæmdu það!!! Látið fullkomnunaráráttuna EKKI stöðva ykkur í að gera hlutina, gerið ykkar besta, vitið af hverju þið eruð að gera hlutina, fáið fólk með ykkur í lið, nýtið tengslanetið ykkar, og framkvæmið! Athugið að það þurfti 39 tilraunir til að finna upp WD40.