Hring eftir Hring.. eftir hring
Sum kvöld, þegar ég lít yfir daginn, undrast ég yfir öllu því sem ég hef gert á einum degi. Mér finnst eins og hann gæti hafa verið þrír dagar. Ég veit það eru margir aðrir Íslendingar og samferðamenn okkar sem þekkja þessa tilfinningu.
segir Steinunn Vala Sigfúsdóttir en hún er menntaður verkfræðingur og rekur skartgripafyrirtækið sitt Hring eftir Hring í Skipholti. Steinunn selur vörur sínar í Mýrinni, Kraum, Epal, Sveitabúðinni Sóley, Kistu á Akureyri, Gullabúð á Seyðisfirði og herjar nú á erlendan markað. Kvennablaðið fékk að heyra sögu Steinunnar um hvernig hún lætur drauma sína rætast. Vefsíða Hring eftir Hring og Facebook.
Hver er aðdragandinn að Hring eftir hring?
Í rauninni hefur allt líf mitt verið aðdragandi að Hring eftir hring því uppsprettan að fyrirtækinu er ástríða mín fyrir sköpun og listum og hana fékk ég í vöggugjöf. Verkfræðinámið hefur skilað sér vel þegar kemur að rekstrinum, hagræðingu og ferlum innan fyrirtækisins því þeir eru fjölmargir. Áhugi minn á öðru fólki og reynsla af félagsmálum hefur hjálpað mér að mynda dýrmæt tengsl og halda þeim.
Það hafði reyndar, í mörg ár, verið að brjótast um í mér hvort ég ætti að velja „praktíkina, verkfræðinginn“ eða það „óáreiðanlega, listina“, en það gerðist svo einn daginn að ég ákvað að skipta um vettvang. Ég fékk hugljómun og þá varð ekki aftur snúið.
Það var bara eins og rofið hafi til í huga mínum á örskotsstundu og allt það sem ég hafði áður séð sem eftirsóknarvert markmið breyttist. Mig langaði ekki lengur að vinna við það sem ég hafði áður gert eða eltast við önnur mikilsmetin störf. Ég vissi svo sem ekki nákvæmlega hvað tæki við en fyrsta hugmyndin að nýju starfi var að prjóna fallegar lopapeysur eftir eigin uppskriftum fyrir Álafoss þar til ég kæmist að í málun á listnámsbraut við Listaháskóla Íslands. Ég hringdi í Álafoss og var svo heppin að það vantaði einmitt eina prjónakonu. Það varð reyndar ekki úr því að ég skilaði inn peysu því ég komst að í frábæru diploma-námi hjá Listaháskóla Íslands sem ég ákvað að nýta mér sem grunn að umsókn um áframhaldandi nám þar. Svo varð reyndar heldur ekki úr því að ég skilaði inn umsókn og möppunni góðu sem ég hafði unnið því meðan á náminu stóð gerði ég hring handa sjálfri mér og síðan hring eftir hring eftir hring eftir hring …
Hvað markar upphafið að Hring eftir hring?
Hringurinn sem ég bjó til handa sjálfri mér og kalla Laufahringinn. Ég gekk um með hringinn og frá fyrsta degi var ég stoppuð af fólki sem á vegi mínum varð og vildi vita hvar ég hefði fengið hann. Þegar fyrirspurnirnar héldu áfram sá ég að þarna lægi tækifæri sem ég gæti gripið og það gerði ég. Ég ákvað að segja þeim sem spurðu mig að þeim stæði sams konar hringur til boða og eftir það fóru hjólin að snúast. En mér þótti það ekki auðvelt skref að taka! Síðan þá hef ég margsinnis hert sjálfa mig upp í að fara á eftir því sem mér hefur þótt eftirsóknarvert, beðið um hluti, sagt já við verkefnum sem ég hef óttast og ekki haft hugmynd um hvernig ég ætti að leysa, tekist á við veikleika mína og erfið viðfangsefni.
Ég held að þessi dirfska, að takast á við ný verkefni, koma sér í óþægilega stöðu og reyna að læra sé eitt af lykilatriðunum í vegferð minni með Hring eftir hring.
Hvernig er að stofna fyrirtæki utan um eigin hönnun?
Það þótti mér lítið mál. Ég stofnaði einkahlutafélag utan um reksturinn sem þá var orðinn of mikill fyrir sjálfstætt starfandi manneskju í minni grein. Reksturinn byggist á minni hönnun og von bráðar hönnun annarra líka sem og á vörum sem við framleiðum. Við rekum lítið verkstæði á vinnustofunni okkar í Skipholti, Reykjavík og þar starfa fjórar manneskjur í mismiklu starfshlutfalli. Svo vinna tvær úr starfsteymi Hring eftir hring heiman frá sér á landsbyggðinni. Ég mætti gera betur í því að vernda hönnunina mína en það stendur til bóta því ég er meðvituð um að skráning hennar er mikilvæg, alveg eins og skráning vörumerkis, varðveisla frumgerða og skissa, samningar um afnot af hönnun minni og margt fleira. Allt eru þetta atriði sem auka verðmæti fyrirtækisins. Það er ekki ósvipað því að standa í eigin fyrirtækjarekstri og að sjá fyrir barni. Maður er tilbúinn að gera meira og ganga lengra en áður.
Nú ert þú að hefja útflutning, getur þú gefið öðrum í svipuðum sporum ráð hvað það varðar?
Ég gæti sagt; undirbúið ykkur vel og lærið af mistökum annarra. En ég hef alltaf þurft að finna út úr hlutunum sjálf, læra af eigin reynslu og þrjóskast við að prufa það sem búið var að segja að gengi ekki upp. Þannig að ég er líka hlynnt því að fólki reyni sjálft. En nokkrir góðir punktar: ef reikningur og sendingargögn eru ekki rétt útfyllt mun sendingin þín að öllum líkindum tefjast við tollafgreiðslu úti. Lærðu því hvernig reikningur á að líta út og hvaða upplýsingar er nauðsynlegt að hafa á honum. Þyngd og rúmmál vöru auka flutningskostnað verulega og það er mikilvægt að hafa hugfast svo varan verði söluvænleg. Svo gæti ég skrifað heilan kafla um stærri mál er varða útflutning þegar umsvifin eru orðin meiri en ein og ein sending.
Hvernig er að vera kona í atvinnurekstri?
Ég veit hvernig er að vera ég sjálf í atvinnurekstri. Ég er kona svo ég ætti að geta lýst því, en ég held það hljóti að vera afar mismunandi hvernig konur upplifa það að vera í atvinnurekstri.
Ég vona að okkur muni fjölga svo mikið í framtíðinni að það verði ekki lengur spurt hvernig sé að vera kona í atvinnurekstri. Svörin okkar muni vera jafn ólík og fjölbreytileg og svör karla um það hvernig sé að vera karl í atvinnurekstri.
En spurningin á rétt á sér í dag því það þykir enn þá eftirtektarvert. Ég myndi segja það einstakt að vera kona í atvinnurekstri. Það hefur gefið mér mikla lífshamingju og lífsfyllingu að sinna daglegum verkefnum sem snúa að ástríðu minni, helstu áhugamálum og gildum mínum sem snúa til dæmis að því að búa til góð störf handa fleira fólki og skapa tækifæri fyrir fleiri íslenska hönnuði sem eru að feta sín fyrstu spor. Það hefur líka veitt mér ólýsanlega mikið sjálfstraust að byggja upp fyrirtækið mitt. Í sífellu hef ég staðið frammi fyrir nýjum verkefnum sem ég hef leyst og tekist á við eitt af öðru. Við hverja afgreiðslu eykst sjálfstraust mitt og hamingjan streymir um mig alla! Ég óska öllu fólki þess sama.
Á móti kemur að heimilið mitt lítur illa út, alla daga, nema á forsíðu Húsa og híbýla og korteri fyrir matarboð. Stundum gleymist nesti handa strákunum mínum eða ég mæti of seint í fiðlutíma. Ég hitti vinkonur mínar sjaldnar en ég óska mér en strákarnir mínir þrír blómstra og þeim gengur vel í skóla og tómstundum. Þeir þekkja vel til fyrirtækisins og hafa tekið virkan þátt með því að brjóta saman öskjur, haldið vídeó- og pítsukvöld á vinnustofunni þegar ég hef þurft að vinna og fleira. Þeir hafa mikinn áhuga á vinnunni minni og ævintýrum vinnustofunnar en vissulega sakna þeir mín þegar ég fer til útlanda og tek tarnir og þá finnst mér gott að sinna þeim vel á eftir.
Hverju hefur þú afrekað?
Ég er 33 ára metnaðarfull, áhugasöm, listræn og nokkuð klár kona sem hef átt gott líf, fengið góða menntun, haft gott fólk í kringum mig og hef síðustu fjögur ár unnið að uppbyggingu eigin fyrirtækis í sannkölluðu frumkvöðlahlutverki. Ég er líka eiginkona og móðir þriggja drengja og á með þeim viðburðaríkt líf.
Synir mínir eru 4-8 ára og þeir eru allir að læra á hljóðfæri og æfa íþróttir. Fjölskyldan okkar, vinir og félagar eru fyrsta flokks og félagslífið sem stendur okkur til boða og er alltaf svo freistandi, það gæti fyllt heila ævi án nokkurrar viðbótar. Eins og gefur að skilja eru dagar mínir mjög viðburðaríkir og þeir líða hratt. Sum kvöld, þegar ég lít yfir daginn, undrast ég yfir öllu því sem ég hef gert á einum degi. Mér finnst eins og hann gæti hafa verið þrír dagar. Ég veit það eru margir aðrir Íslendingar og samferðamenn okkar sem þekkja þessa tilfinningu.
Hvernig samtvinnar þú hlutverk þín sem móðir, eiginkona, hönnuður og viðskiptakona?
Hver dagur er púsluspil. Morgnarnir eru mikilvægir mér því þeir eru sannkölluð fjölskyldustund. Það er mikilvægt að vakna snemma svo allt gangi upp. Allir fá morgunmat sem vilja, fá að fara í bað og sturtu sem vilja, hlustað er á tónlist, lesið heima fyrir skólann og æft á hljóðfærin. Stefán, maðurinn minn, hleypur með Flosa yfir götuna í leikskólann og Snorri og Trausti taka skólabílinn sem stoppar fyrir utan eldhúsgluggann. Við Stebbi erum samferða í vinnuna og ég greiði mér og punta í bílnum á leiðinni. Okkar dýrmæta stund. Deginum er varið í vinnunni. Seinni parturinn fer í tónlistartíma, íþróttir og akstur fram og til baka.
Þetta er ótrúlega flókið skipulag sem gengur upp, þökk sé íþróttabílnum, skólanum, og öllum öðrum sem hjálpa til. „Úlfatíminn“ frá því strákarnir koma heim til háttatíma inniheldur samverustund þar sem við leikum saman, veitum hvert öðru athygli, borðum og sinnum uppeldi fjölskyldunnar allrar. Ég reyni að henda í vél af og til og ganga aðeins frá. Eftir kl. 21, þegar drengirnir mínir eru sofnaðir, tekur vinnan mín aftur við. Tölvupóstar, viðtöl, heimasíðan, skipulag og allt þar í kring. Ótrúlegt en satt þá gengur þetta flesta daga glimrandi vel.
Hver eru framtíðaráform þín?
Nú seljum við ekki einungis vörur hannaðar af mér sjálfri, heldur höfum við fengið að njóta verka fleiri hönnuða sem líta munu dagsins ljós á næstu mánuðum. Það er draumur okkar og framtíðarsýn að verða vettvangur fyrir fleiri íslenska hönnuði svo þeir hafi á stað að leita eftir nám.
Við erum núna að vinna verkefni með vöruhönnuði þar sem við keyptum af honum hugmynd og höfum svo kostað frumgerðarferlið (prototype). Við erum að taka fyrstu skrefin í sams konar ferli með tveimur arkitektum sem hafa teiknað upp fallegt skart sem okkur langar að koma í framleiðslu og sölu undir regnhlíf Hrings eftir hring. Það er margt virkilega spennandi fram undan og ég hlakka til! Hér má sjá nýjustu myndir Aldísar Pálsdóttur ljósmyndara af skarti Hrings eftir hring.