Óttalaus börn
Gott er að velta því fyrir sér hvað sé mikilvægt í uppeldi barna sem ýtir undir að þau verði hamingjusöm og örugg.
Ást
Við þurfum að veita börnunum okkar skilyrðislausa ást. Elska þau 100% án þess að krefjast neins af þeim í staðinn og sama hvernig þau eru. Elskum þau 100% og látum þau vita af því oft á dag. Þannig öðlast börn öryggi. Þá vita þau að mamma og pabbi elska þau, þó svo þeim verði á mistök og eru óhrædd við að reyna nýja hluti.
Börn fæðast í þennan heim algjörlega óttalaus. Þau eru ekki hrædd við neitt, aðeins há og snögg hljóð og þau eru hrædd við að detta. Þau óttast ekkert fyrr en foreldrar þeirra eða aðrir hafa komið inn hjá þeim ótta. Þau eru einnig fullkomlega óheft. Þau segja og gera nákvæmlega það sem þau langar til án tillits til álits annarra.
Börn fæðast án sjálfsmyndar. Hugmyndir þeirra um sjálf sig eru lærðar. Þau læra að meta mikilvægi sitt og verðleika út frá því hvernig þau eru alin upp. Ung börn hafa gífurlega þörf fyrir ást og snertingu. Það er ekki hægt að gefa þeim of mikla ást og umhyggju meðan þau vaxa úr grasi.
Undirstaða skapgerðarinnar er mótuð á fyrstu þremur til fimm árum ævinnar. Barn sem elst upp við óþreytandi ást, umhyggju og uppörvun þroskar með sér jákvæðni og staðfestu strax á fyrstu árum ævinnar. Ef foreldri neitar barninu um ást sína í því skyni að aga, stjórna eða hegna barninu finnur barnið til vanlíðunar og fyllist óöryggi. Vilt þú eiga öryggislaust barn? Nei, ég held ekki.
Gildi
Enginn, hvorki börn né fullorðnir, geta breytt því sem tilheyrir fortíðinni. Ef barn brýtur af sér, þá getur það ekki breytt því. Það er búið og gert. Ekki skamma eða gagnrýna barnið. Einfaldlega segðu, „næst þegar þú lendir í sömu eða svipuðum aðstæðum, þá skalt þú gera svona“. Beindu barninu að framtíðinni. Eitt það versta sem við gerum sem foreldri er að gagnrýna börn okkar á neikvæðan hátt því þá öðlast þau lélegt sjálfsmat og sjálfsálit þeirra verður lágt.
Mikilvægasta hlutverk okkar sem foreldri er að kenna börnunum okkar góð gildi. Kennum börnunum okkar að vera heiðarleg. Gefum þeim tækifæri og hvetjum þau til að segja ávallt sannleikann. Láttu barnið finna að það geti alltaf sagt þér satt og rétt frá og aldrei að skamma barn sem segir sannleikann.
Kennum þeim að taka ábyrgð. Bera fullkomna ábyrgð á gjörðum sínum. Kennum börnunum okkar einnig að læra af mistökunum. Ef barnið þitt gerir mistök skaltu segja, „hvað lærðir þú af þessu og hvernig getur þú nýtt þér það í framtíðinni?“
Og hvernig kennum við þeim svo þessi gildi? Jú, með því að iðka þau sjálf. Börn læra af foreldrum sínum. Það erum við sem erum fyrirmyndir barna okkar fyrstu árin þeirra og þau herma eftir okkur. Ef við lifum samkvæmt þessum gildum, munu þau gera það líka.