Hverjir taka kaupákvörðun og hverjir eru notendur?
Duglegu, fallegu og kláru kollegar mínir úr Skipholtinu báðu mig um að skrifa fyrir sig smá pistla um markaðsmál í Kvennablaðið. Það fyrsta sem ég hugsaði var “æi, ég er svo lítið fyrir það að skrifa“ … ég held ekki úti bloggi, ég hef ekki samið ljóð, ég hef ekki skrifað sögur og vanalega finnst mér bara ekkert gaman að skrifa.
Samt vinn ég við það að skrifa. Ég skrifa tölvupósta.
Ég bóka fundi, ég fer á fundi, ég skrifa niður punkta, ég melti punktana, ég finn út aðalatriðin, ég forgangsraða, ég skipulegg, ég búta verkin niður, ég passa að allir boltar séu á lofti, ég fæ fólk til að vinna verkin og fer svo yfir útkomuna með þeim sem málið varðar. Öllu þessu næ ég að halda gangandi með því að skrifa tölvupósta.
Svo að í þessum skrifuðu orðum er ég að skrifa þessar hugrenningar mínar í gmailinu mínu.
En til að byrja á einhverju ætla ég að byrja á því að fjalla um konur og markaðsmál. Ég er kona og ég er markaðsfræðingur. Mig langar að benda ykkur á af hverju konur eru svo mikilvægar í markaðsfræðinni.
Markaðsfræðin gengur út á að þekkja markhópinn sinn, vita eftir hverju hann sækist og mæta þessari þörf. En sá sem notar vöruna eða þjónustuna er stundum allt annar en sá sem kaupir vöruna og þjónustuna.
Þá kemur að mikilvægi kvenna því að samkvæmt mörgum rannsóknum taka konur í 80% tilvikum endanlega ákvörðun þegar kemur að kaupum. Flestar okkar elska að versla, tala nú ekki um skó, töskur, fatnað eða eitthvað fallegt fyrir heimilið eða börnin okkar. Þetta vitum við og þið hefðuð eflaust getað sagt mér. Það sem er svo áhugavert er að þegar kemur að karllægum hlutum, svo sem bílum, tækjum og fjármálum þá eru konur enn í miklum meirihluta þegar kemur að kaupákvörðun.
Samkvæmt heimildum þá eru húsnæðiskaup okkar stærsti gjaldaliður og í 92% tilvika eru það konur sem taka þá ákvörðun. Annar stærsti gjaldaliður eru matarinnkaupin og þar er talið að í 90% tilvika séu það konur sem kaupi inn. Þið sjáið að með þessum stóru gjaldaliðum þá skýrir það af hverju konur stjórna svona miklu.
En hvað þá með þá hluti sem karlarnir okkar nota og elska? Samkvæmt rannsóknum taka konur í 60% tilvika ákvörðun þegar kemur að bílakaupum og 66% tilvika þegar kemur að tölvukaupum og yfirhöfuð er 2/3 kaupákvarðana er varða öll tæki teknar af konum.
Til að toppa þetta hafa sérrannsóknir verið gerðar á fyrirtækjamarkaði (B2B) og þá kemur í ljós að konur standa að baki kaupákvarðana í meira en helmingi tilfella.
Sem markaðsfræðingur mátti ég til með að benda ykkur á þetta og ég hvet ykkur sem þurfið að markaðssetja vöru eða þjónustu til annarra að velta þessum staðreyndum fyrir ykkur. Það er, hver er notandinn og hver tekur ákvörðun um kaup?