Ísland 8. júlí 2020

Kynjaspegill fjölmiðla

Frétt

Á dögunum birtust eina ferðina enn tölur um þátt kvenna í ljósvakafjölmiðlum og ekki gátu þær nú talist uppörvandi fyrir þau okkar, sem viljum hlut kynjanna sem jafnastan á öllum sviðum þjóðlífsins. Það var Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA), sem fékk Fjölmiðlavakt Creditinfo til þess að telja og kyngreina fyrir sig alla viðmælendur í ljósvakaþáttum og í fréttum undanfarin tæp fimm ár. Á daginn kom að af öllum þeim malandi skara — meira en 100.000 viðmælendur — voru aðeins 30% konur.

Það er eitthvað bogið við þetta, það sér hver maður. Að ekki sé minnst á konurnar. Verra er þó kannski að þetta er ekkert nýtt og að þessar tölur komu engum á óvart.

Engum dylst að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í samfélaginu, þeir hafa dagskrárvald og þjóðmálaumræðan getur mótast mjög eftir þeim söguþræði, persónum og leikendum, sem þar eru kynnt til sögunnar. Þessi tölfræði sýnir ótvírætt að í þjóðmálaumræðunni eru konur ekki jafningar karlanna, þær eru ekki einu sinni hálfdrættingar á þá, þegar þessari mælistiku er brugðið á ljósvakamiðlana: Samkomuhús þjóðarinnar, kirkjur almannarómsins. Páll postuli skipaði konum að þegja í kirkjunni. Hvað segir Páll Magnússon?

Hvernig stendur á þessu? Urðarköttur trúir því ekki eitt augnablik að hér sé á ferðinni stórfenglegt samsæri karlrembusvína ljósvakamiðla. Þau eru hvorki nógu klár né dugleg til þess. Nei, hér koma einhverjir aðrir kraftar til.

Sunna Stefánsdóttir skrifaði fyrr á árinu meistararitgerð sína í blaða- og fréttamennsku við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um þessi efni, þó að hún beindi að vísu kastljósinu frekar að dagblöðunum en ljósvakanum. Þar kom fram að vandinn er síður en svo séríslenskur og að þessi hlutföll, 70/30, kæmu fram aftur og aftur um allar trissur. Sunnu grunaði að það kynni að vera ómaksins virði að kanna einnig hverjir skrifuðu hvaða fréttir, hvort einhver fylgni væri með kynferði blaðamannanna og viðmælenda þeirra.

Það er ekki út í bláinn að láta sér detta það í hug. Þegar félagatöl blaða- og fréttamanna eru skoðuð sést að þar virðast kynjahlutföllin meitluð í stein, þriðjungurinn konur ár eftir ár. Ef fjölmiðlun væri bara stækkuð útgáfa af stelpum á móti strákum væri skýringin sennilega fundin, en það er ekki alveg svo gott, málið er flóknara. Kannanir hafa sýnt að blaðakonur séu líklegri en blaðamenn til þess að ræða við konur, en það er ekkert einhlítt í því. Sunna dró líka fram hvernig konur og karlar á fjölmiðlum sinntu ólíkum fréttum, karlarnir voru miklu líklegri til þess að segja „hörðu“ fréttirnar, meðan „mjúku“ málin voru frekar afgreidd af konunum, meira bæri á fréttum karla en kvenna að jafnaði og þegar horft er til þess hverjir voru merktir fyrir fréttum (sem á oftar við um helstu fréttir en uppfyllingarefnið) þá var hlutur karla enn meiri.

En af hverju er það þannig og af hverju eru kynjahlutföll viðmælenda svona svakalega beygluð? Urðarkött grunar að skýringin sé einfaldari en ætla mætti. Árum saman höfum við séð vinnumarkaðstölur um hlutföll kynjanna í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera, í bönkunum og á almennum vinnumarkaði, þar sem karlarnir eru í miklum meirihluta, jafnvel á hreinræktuðum kvennavinnustöðum. Á því hafa verið nefndar alls konar skýringar um menntun, starfsaldur og fleira, mistrúverðugar eins og gengur. En það segir sig sjálft að þegar eitthvað fréttnæmt gerist á þessum vinnustöðum, sem er þess valdandi að fréttamaður eða fréttakona hringir, þá er það kona sem svarar í símann, en karl sem beðið er um. Af því það er að öllu jöfnu eðlilegra að forstjórahlunkurinn staðfesti fréttina en móttökubeibið.

Þá erum við kannski að nálgast hinn hræðilega sannleika. Skandallinn er ekki sá að fjölmiðlarnir birti skakka kynjamynd af samfélaginu, heldur hitt að þeir sýna hin raunverulegu valdahlutföll þess, alveg upp á gramm.

Urdarkötturinn
Urdarkötturinn

Urðarköttur er ekki sú skaðræðisskepna, að allt liggi steindautt eftir augnaráð hans, en hann er gjarn á að líta menn og málefni hornauga, jafnvel gefa þeim illt auga. Svo hvæsir hann og klórar stundum, fer sinna eigin ferða. Undir úfnum feldinum er Urðarköttur samt værðarlegur kisi, sem lygnir augunum og malar, sleikir sólina og sjálfan sig, ef hann aðeins er látinn í friði, með mjólk á disk og lítinn fisk.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa. Kvennablaðið hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu og áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir.