Nýtt ár býður upp á nýtt upphaf
Nýtt ár, nýtt upphaf….
Er það ekki alltaf svoleiðis? Gamla árið búið, kvatt með át-hátíðinni miklu og sprengt í loft upp á nýársnótt með fögrum fyrirheitum og glæstum vonum.
Áramót eru ekkert endileg betri tími en annar til að setja sér markmið en margir nota þó þessi tímamót til þess. Áramótaheitin eru síðan eins misjöfn og þau eru mörg en ófá fjalla þau um að brenna bumbunni, hreyfa sig meira, stóraukið grænfóðursát á kostnað skyndibita og súkkulaðis, drekka minna o.s.frv.
Slík heit eru góðra gjalda verð og gleymum ekki að fyrsta skrefið er ávallt að viðurkenna vandann, að það sé eitthvað sem betur má fara eða eitthvað sem við sækjumst eftir og vitum að krefst breytinga til að ná fram.
Það sem margir gleyma þó að gera er að skrifa markmiðin niður, virkilega íhuga þau og forgangsraða. Ef þú rennir blint í sjóinn með 10 markmið, án þess hafa hugsað út í hvernig þú ætlar að ná þeim, á hve löngum tíma eða með hvaða ráðum eru því miður hverfandi líkur á að það takist eins og þú sást fyrir.
Ég mæli eindregið með að fólk setji sér markmið reglulega, það er góð leið til að ná framförum en nokkur atriði er gott að hafa í huga:
Skrifaðu markmiðin niður; í sérstakt skjal eða minnisbók og vertu nákvæm.
Dæmi: Ég ætla að borða meira grænmeti 2014
Hafðu tímaramma; hvertu langan tíma gefurðu þér til að ná markmiðinu eða ákveðnum áfanga í átt til þess.
Dæmi: Eftir 6 mánuði vil ég að grænmetisneysla mín sé komin upp í 6 skammta á dag (1 skammtur=u.þ.b. einn tebolli)
Hvernig ætlarðu að ná þeim?; hvaða ráðum ætlarðu að beita til að ná markmiðinu.
Dæmi: Ég ætla að prófa nýjar tegundir af grænmeti, stækka hlut grænmetis á disknum, bæta grænmeti inn í millimál, drekka ferskan grænmetissafa reglulega o.s.frv.
Hafðu þau mælanleg; ef markmiðið er t.d. að léttast er gott að setja markið á ákveðinn kílóafjölda á ákveðnum tíma s.s. 5 kíló á 5 mánuðum, eins ef markmiðin tengast líkamsrækt er gott að stefna að því að mæta t.d. 3. í viku í ræktina, út að hlaupa eða annað eða að ná ákveðnum hlaupatíma eða lyftingaþyngd fyrir ákveðna dagsetningu.
Dæmi: Í hverjum mánuði ætla ég að bæta við einum skammti daglega af grænmeti þar til markmiði er náð og viðhalda því svo.
Hafðu þau raunhæf; mjög mikilvægt, ekki reyna að ná risastórum markmiðum á mettíma, mundu að góðir hlutir gerast hægt og oft er auðveldara að viðhalda árangri ef ekki er of geyst farið.
Dæmi: Að fara úr einum skammti í 6 á einni nóttu væri frábært ef þú viðheldur því en líklega er raunhæfara að auka neysluna smátt og smátt eins og fyrr var getið. Ekki of mörg í einu; jafn mikilvægt og að hafa þau raunhæf, ef þú ætlar að kippa öllu í liðinn á augabragði eru miklu meiri líkur á að þú gefist upp á öllu saman vegna álagsins. Forgangsraðaðu markmiðunum, byrjaðu á því sem þér finnst mikilvægast núna og geymdu hin þangað til þú ert tilbúinn að bæta við.
Taktu stöðuna reglulega og uppfærðu; skráðu hjá þér árangur reglulega, hvað gengur vel og hvað illa og aðlagaðu markmiðin þín út frá því. Maður lærir af mistökunum og það virkilega gaman að líta yfir farinn veg og sjá svart á hvítu hvað maður hefur afrekað.
Dæmi: haltu matardagbók, það veitir aðhald og það er góð aðferð til að verða meðvitaðri um mataræðið og hvernig það hefur áhrif á heilsuna.
Svo má alls detta ekki í sjálfsniðurrif þó allt gangi ekki fullkomlega upp. Gleymdu ekki að vera góð við sjálfa þig og hrósa þér fyrir það sem vel gengur. Mundu að vinna í sálartetrinu og ekki gleyma að slaka á því ef hausinn er ekki með þér í verkefninu ertu litlar líkur á því að ná á toppinn.
Gleðilegt ár, ég hef virkilega góða tilfinningu fyrir 2014 og hlakka til að vinna að öllum markmiðunum mínum!
Gangi ykkur vel með ykkar ☺
Ösp