Af hverju tíminn er það dýrmætasta sem ég á
Það eru flestir vissir um að við höfum flutt til Noregs vegna þess að við vildum meiri peninga. Það er auðvitað að hluta til rétt en ekki að öllu leyti. Við fluttum fyrst og fremst vegna þess að við vildum meiri tíma. Tíma fyrir okkur.
Einhver sagði: „Tíminn er peningar“ en ég myndi frekar segja: „Tíminn er allt.“ Að eiga nægan tíma er það dýrmætasta sem ég á. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu hversu ljúft það er, að eiga nægan tíma.
Ég ólst ekki upp við ríkidæmi og óska ekki eftir því. Ég þarf ekki að eiga milljónir inni á banka en ég vil eiga mat í ísskápnum. Þeir sem þekktu vel til okkar vissu, að Óli, maðurinn minn vann yfirleitt aldrei undir 16 tímum á dag og stundum sáum við hann ekki dögum saman þegar hann þurfti að keyra útá land og svaf svo í bílnum. Hann fór stundum á mánudagsmorgnum og kom svo heim aðfararnótt laugardags.
Það var ekki að eiga fjölskyldulíf.
Mér hefði verið sama þótt við hefðum átt milljónir inná banka, ég hefði samt ekki viljað búa áfram á Íslandi.
Ég vil ekki búa í landi sem krefst þess að maður þurfi að vinna myrkranna á milli til að sjá fyrir sér. Ég vil heldur ekki búa í landi sem krefst þess að maður mennti sig til að geta séð fyrir sér. Maðurinn minn elskar að keyra, það er í raun ótrúlegt að fylgjast með því, ég hef aldrei hitt neinn sem hefur jafn mikla ástríðu fyrir vinnunni sinni og það er alveg frábært. En það er ekki eðlilegt að geta ekki unnið eðlilegan vinnutíma og fengið mannsæmandi laun í staðinn. Nú höfum við búið hérna í að verða hálft ár og maðurinn minn hefur aldrei misst úr kvöldmat, aldrei. Það finnst mér ótrúleg staðreynd! Þar sem ég gat yfirleitt talið það á fingrum annarrar handar hversu oft hann náði að vera í kvöldmat yfir mánuðinn meðan við bjuggum á Íslandi.
Þegar maður er að stofna fjölskyldu og koma börnunum upp, þá er ofsalega erfitt að standa einn, en samt ekki einn. Ég var alltaf ein, en auðvitað var ég ekki ein, ég var gift, ég átti mann, hann bara gat aldrei verið heima því einhvern veginn þurftum við að borða.
Í mesta einmanaleikanum keypti ég mér hund, bestu tík í heimi og stytti hún mér stundir þegar ég sat heima og lét mér leiðast á kvöldin. Það er rosalega lýjandi að vinna og vinna og vinna og sjá aldrei fram á það að hlutirnir geti breyst. Að komast aldrei uppúr bévítans hjólfarinu.
Núna erum við alltaf að upplifa einhver ævintýri sem við gátum ekki upplifað á Íslandi vegna tímaskorts. Í fyrsta sinn þá förum við fjölskyldan í skógarferðir um helgar, við kveikjum varðeld inni í skógi og grillum okkur pylsur. Við höfum nægan tíma til að lifa fjölskyldulífi.
Þess vegna elska ég Noreg. Ég eignaðist engar milljónir, enda var það ekki planið með flutningnum, en ég eignaðist tíma, ég eignaðist ótrúlega mikinn tíma og ég vissi ekki hversu ótrúlega verðmætt það var fyrr en ég eignaðist hann. Tíminn er það sem ég mun aldrei láta frá mér aftur.
Það ótrúlega við þetta allt saman er það að það breyttist ekkert, þannig lagað, við að flytja. Maðurinn minn vinnur enn við keyrslu, ég er enn í fullu háskólanámi, börnin ganga í skóla, Mikael í grunnskóla og Kristín og Óliver í leikskóla. En hér eru allir komnir heim milli þrjú og fimm á daginn og álagið á fjölskylduna hefur minnkað lygilega mikið.
Það sem mér finnst kannski mest sorglegt er að sjá hvernig álagið hafði farið með krakkana mína og þá sérstaklega Mikael sem er með ADHD. Álag fer ekki vel í ADHD einstaklinga og sérstaklega ekki börn. Hans líðan hefur tekið ótrúlegum framförum hérna enda er samfélagið ekki á 150 km hraða.
Ef ég ætti að lýsa þessu á einhvern hátt þá líður mér svolítið hér í Noregi eins og ég hafi farið 15 ár aftur í tímann á Íslandi. Þar sem verslanir voru ekki opnar alltaf, alla daga vikunnar og jafnvel allan sólarhringinn. Það er mjög ljúft að hér sé allt sé lokað á sunnudögum, mér þykir það ótrúlega gott bara, enda sér maður það að fjölskyldur nýta sunnudaga í fjölskyldutíma, fara út og gera eitthvað skemmtilegt saman.
Ég get heilshugar sagt að fyrir fjölskyldur er Noregur stórkostlegt land.