Kolbrún grasalæknir skrifar um streitu
Vitið þið að streita hefur mjög mikil áhrif í þjóðfélagi okkar í dag? Fólk ætlar sér of mikið, gerir of miklar kröfur til sín og gefur sér lítinn tíma til að stoppa og slaka á. Umhverfi okkar setur svolítið þessar kröfur á okkur.
Mér finnst ég oft vera eins og biluð plata þegar ég er að reyna að útskýra fyrir fólki hvað er að gerast í líkamanum í streituástandi. Streituviðbrögðum líkamans er hægt að líkja við það að þú sért að undirbúa flótta undan ljóninu, nema það að ljónið fer ekkert.
Slíkt streituviðbrögð eru ekki hönnuð til að vera í gangi stanslaust. Nýrnahetturnar eru á fullu og sprauta kortisóli, sem oft er nefnt stresshormón, og adrenalíni sem gegnir því hlutverki í líkamanum að undirbúa líkamann fyrir baráttu upp á líf eða dauða. Ef það er stöðug keyrsla á þessum hormónum þá getur það að sjálfsögðu ruglað allt hormónakerfið. Þú hefur sennilega heyrt um hversu algeng vanvirkni í skjaldkirtli er. Það er mjög algengt vandamál í dag.
Streita getur orsakast af huglægu, líkamlegu eða andlegu stressi. Annað sem gerist þegar líkaminn er í streituviðbrögðum er að blóðflæði til meltingarvegar skerðist því líkaminn er að undirbúa sig til að flýja ljónið (blóðflæðið er þá mest til höfuðs, handa og fótleggja). Þetta er ástand sem ég sé hjá fjölda fólks sem leitar til mín í dag.
Við verðum að fara að breyta þessu, finna frið og anda til að vera til staðar í núinu en ekki anda til að tóra. Það er svo miklu skemmtilegra að vera bara staddur í núinu og lifa lífinu hvort sem verkefnin eru stór eða smá. Oft vill það líka verða þannig að stóru málin verða oft minni þegar við erum bara á staðnum og leysum verkefnin hægt og bítandi.
Einkenni á streitu
Lélegur svefn
Minni hormón í líkamanum – hægur skjaldkirtill, minni kynorka og ótímabær byrjun á breytingarskeiði
Minni vaxtarhormón – sem hefur áhrif á ónæmiskerfið
Þreyta – alveg búin á því – batteríið tómt – erfitt að slaka á
Þurrkur í húð, hári, nöglum og viðkvæmni í meltingarvegi vegna þurrks í slímhúð
Minnisleysi
Depurð
Þyngdaraukning – sérstaklega á kviðnum
Hár blóðsykur
Hverjar eru þá lausnirnar gegn streitu?
Taktu út eftirfarandi:
Kaffi (þreytir fólk), svart gos, svart te, grænt te, sykur, hvítt hveiti og mat sem hefur engar innihaldsupplýsingar og nærir okkur ekkert.
Breyttu ofurhlaðinni dagskrá í meðaldagskrá.
Settu inn eftirfarandi:
Fara fyrr að sofa ( fyrir 23.00)
Taktu róandi jurtir (Heiðrún fæst í Jurtaapótekinu) eða kamillute.
Farðu í nudd eða höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð.
Lærðu að hugleiða ef þú kannt það ekki.
Lærðu að anda rétt (öndunaræfingar, bara draga djúpt andann gerir mikið og meðvituð öndun).
Vertu úti í náttúrunni, það gefur mjög mikið og róar. Það er svo mikill friður í náttúrunni, þar er aldrei neitt stress, hún bara er þarna. Svo færðu í aukabónus súrefni sem er svo miklu meira af úti en inni.
Styrkjandi jurtir gegn streitu eru: Magni (fæst í Jurtaapótekinu), lakkrísrót, kínversk hvönn, Síberíu ginseng og ýmislegt annað.
Komdu reglu á hreyfingu/svefn og matmálstíma.
Kæri lesandi, byrjaðu að breyta strax í dag, litlu fyrst, bættu svo smám saman fleiru við þangað til þú áttar þig allt í einu á því að þér er farið að líða betur og lífið rúllar áfram eftir beinum gangstíg. Það verða samt alltaf uppákomur, en það eru bara verkefni sem þarf að leysa, ýmist stór eða smá.
Gangi ykkur vel í lífsins öldugangi.
Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir
Kolbrún Björnsdóttir er eigandi Jurtaapóteksins. Heimasíða Jurtaapóteksins er hér.