Ævintýraferð um mannlegar tilfinningar – í höndum Fyrirgefðu.ehf
Haldið var á kynningu hjá fyrirtækinu Fyrirgefðu.ehf. Sú kynning fór fram í Tjarnarbíói og var í höndum Málamyndahópsins. Kaldhæðnin sem felst í fyrirtækjastimplinum kom skýrt fram, fljótt og örugglega. Málamyndahópurinn, með Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur í ökumannssætinu, setur á svið veröld þar sem fyrirgefningin verður söluvara. Verkið er sett saman úr sönnum sögum um fyrirgefninguna, í íslensku samfélagi, smáa sem stóra, lítilvæga sem stórbrotna, mögulega sem ómögulega. Þessar sönnu sögur sveifla áhorfandanum inn í heim mannlegra tilfinninga, breyskleika, flótta, firringar og sorgar, svo fátt eitt sé nefnt. Og þetta tekur á. En mikið var þetta góð áreynsla, fyrir sálina.
Fólk fer í leikhús af misjöfnum ástæðum. Hlutverk leikhússins er oft á tíðum vanmetið. Verkið sem hér um ræðir opinberar veruleikann. Og það er gott leikhús að mínu mati. Áhorfandinn fær innsýn í það sem sameinar okkur sem manneskjur. Þar að segja sammannlegar tilfinningarnar. Tilfinningarnar eru hreinlega rifnar á hol og opnað inn í heim fyrirgefningarinnar, sem er ekkert einfalt fyrirbæri, persónulegt og átakanlegt oft á tíðum. Til þess að slík átök verði skiljanleg þarf að fara með þau af auðmýkt og virðingu. Og það tekst leikhópnum. Senurnar eru margar og misjafnar, og birtast sem umsóknir sem inn koma hjá starfsmönnum fyrirtækisins Fyrirgefðu.ehf. En þeir eru svo líka mannlegir eftir allt saman, þessir fagmenn fyrirgefningarinnar og því ekki yfir viðskiptavinina hafnir, þeirra sögur skipta líka máli.
Leikarar sýningarinnar eru magnaðir, í öllum þeim hlutverkum sem þeir ljá líf og sannleika. Persónur birtast og munu lifa í hjartanu, lengi. Árni Pétur, Þóra Karítas, Ragnheiður og Víðir, TAKK!
Umgjörð verksins er steril og beinskeytt, ekkert dúllerí, enda er lífið ekki þannig í heimi fyrirgefningarinnar. Einfaldleikinn blífur og þannig er ekki hægt að drekkja sorginni og sannleikanum í sögunum sem fara fram á sviðinu, það er einfaldlega ekkert sem truflar. Fyrir það var ég þakklát, því oft finnst mér leikmyndir of gleypandi. Tónlist og ljós og búningar virka vel til þess að undirstrika stemninguna sem þeytir áhorfandunum milli sorgar og gleði, hræðslu og vanmáttar, ofmats og ógnar. Texti verksins ljómar í meðförum leikenda, þéttur og fullur merkingar. Skilar sér í heilabrotum áhorfandans og barsmíðum sálarinnar við sannleika sem allir hræðast. Get ég fyrirgefið? Þarf ég þess? Að fyrirgefa er nefnilega ekki guðlegt, heldur mannlegt eins og fram kemur í verkinu.
En er þetta í alvöru svona einfalt mál? Að fyrirgefa? Hefur fyrirtækið Fyrirgefðu.ehf svörin á reiðum höndum? Orsakirnar að baki atferlinu sem þarf að fyrirgefa skipta máli. Og skilningurinn á þessum orsökum er mikilvægur í fyrirgefningarferlinu, skilningur á því af hverju sáttmáli tilfinninganna er svo oft þverbrotinn í mannlegu samfélagi, á sviði þjóðmála sem og persónulega. Fyrirgefðu.ehf er komið með þetta á hreint í lögmálunum sem liggja starfi þess til grundvallar. Það eru lögmálin að baki þessum orsökum. Og þessi lögmál sem fram koma í verkinu eru hrein snilld, algerlega tær snilld. Þyrfti að blasta þeim upp með flugeldasýningu á gamlárskvöld, gera að skyldulesningu í grunnskóla, fylgja með ungbarnastartpökkum … Bara hvað sem er! Því í þeim eygir mannskepnan möguleika á því að skilja sjálfa sig, fá beint í andlitið hversu einföld, dýrsleg og lítilfjörleg við erum í raun og veru í þessari meintu drottnun okkar yfir tilfinningalífinu. Misskilin er mannskepnan, en þó mest í blindni sinni á sitt meinta vald.
Og hver er svo afleiðingin af fyrirgefningunni? Eru þá bara allir voða happy saman? Nei, þetta er ekki svo einfalt mál, heldur einstakt ferli fyrir hvern og einn. Það er svo dýrmætt og mikilvægt hvað koma fram margbreytilegar fyrirgefningaraðferðir í verkinu. Fyrirgefningin, í heilun sinni og nausyn, er nefnilega ekkert heilagt ferli sem hægt er að setja punkt fyrir aftan. Þetta er viðhorfsbreyting, sátt í sálinni, lausn til líknar þeim sem situr á sprengju ósættis, reiði, sorgar, vonbirgða. Aldrei eins en alltaf mikilvæg, sama hversu stór hún er, sama hvaða aðferð er möguleg eða kannski ekki möguleg. Allt hvílir þetta á spurningunni um valið. Þetta val um leiðir í lífinu, sem við hvert og eitt höfum, meðfætt en þó mismeðvitað og alltaf vandmeðfarið. Og valið er opinberað og uppblásið í Tjarnarbíói þessa dagana. Sett í hendur áhorfandans. Hvatningarverðlaun mannsandans falla tvímælalaust Málamyndahópnum í skaut. Húrra, húrra, húrra, húrra!
Ekki missa af þessari upplifun, kæri lesandi!! Næsta sýning á Fyrirgefðu.ehf er föstudaginn 21. febrúar. Sjá nánari upplýsingar hér.