Pússaðu perlurnar
Það er komið kvöld, það skiptir mig máli að kvöldin mín séu falleg. Á skrifborðinu logar á litlum lampa og leiðin fram í eldhús er upplýst með kertaljósum, á borðinu stendur glas á fæti. Ég fór út að hlaupa, þjálfaði helstu vöðva og tók nokkrar heimatilbúnar jóga æfingar í bakgarðinum, við köllum það patio. Ég bý við Miðjarðarhafið. Ég er kölluð Steina og ég hugsa stundum of mikið. Kannastu við það?
Það er alls ekki neikvætt að hugsa, ég er orðin nokkuð sleip við stjórnina, stýri þeim af leikni þessum perlum. Ef ég beygi af leið og að mér læðist leiði, ég verð pínu neikvæð, þá sest ég niður. Sestu með mér. Leitaðu að síðustu jákvæðu perlunum og pússaðu þær upp; hvenær var síðast gott að vera til? Stýrðu sjálf í átt að ljósinu.
Ég hef stundum talað um musterið mitt og sálina sem í því býr, alla daga efst á lista, trúðu mér, þá kemstu langt. Prófaðu að hugsa fyrst um sjálfa þig, alla þig, alveg inn að kjarna; draumunum sem skreyta þig og heilsunni sem fylgir þér að takmarkinu. Hamingjan er ekki áfangastaður, hamingjan er ferðalag. Veldu gluggasæti og vittu til, allir sem þú elskar sitja brátt við hlið þér. Verða samferða. Þú ert svo jákvæð og glöð, ert að gera þitt besta. Erfitt? Nei, ekki svo, hættu þessu væli.
Sjáðu til. Það hefst allt á því að opna augun, fara fram úr og velja taktinn. Þekkja það sem lætur þér líða vel. Elskaðu sjálfa þig og allt sem þú unnir. Aldrei sleppa stund sem skiptir þig máli með lélegri afsökun. Þú ræður, mundu það. Svona tek ég sjálfa mig í gegn. Vertu með.
Ég varð pínu leið um daginn, fannst ég ekki hafa lagt mig fram við það sem mér finnst skemmtilegt, það sem ég held ég geri ágætlega. Ég hafði ekki sest niður við pistlaskrif svo vikum skiptir. Ég saknaði Kvennablaðsins. Þessi orð eru handa mér og fyrir ykkur, ég lofa að láta mér líða vel. Lofa að koma aftur og aftur … og í einu hendingskasti er ég búin að fyrirgefa sjálfri mér. Pússa perluna. Nú er ég sátt.
Mig langar að deila með þér litlum kafla úr afsökun sem ég notaði þarna um daginn; skáldsagan mín er í endurholdgun, ég er að gera mitt besta. Ekki ef heldur þegar, þá færðu að lesa hana alla. Hér er smotterí:
Er ástin uppistaðan? Er mér gert að skynja gegnum sögu að ástin sé geðveiki? Varla verður maður brjálaður. Eða er hún það sem allt hverfist endalaust um? Klikkaður og kolbrjálaður andskoti sem treður sér um allt? Hinn einni sanni andardráttur?
Ásta frænka átti dátann sinn. Það var á þeim tíma sem ekkert þótti eðlilegt, nema það sem var eðlilegt á íslensku. Hvað þá að láta glepjast alla leið til útlandanna. Hello, how are you? Good evening, my lady. Would you care to dance? Og kossar í sundi bakvið ballstað. Bílfar heim og séntíl sem opnuðu dyr. Við þröngan kost í hinu afvikna samfélagi sem landið okkar hlaut að vera, var innrás einkennisbúninga sem kunnu að skemmta sér efalítið talsvert rugg og ról. Með jórturgúmmí í silfruðum pappír, daður sem sást aðeins í kvikmyndum og sléttgreitt hárið í stað lubba sem lúrði undir sixpensara í besta falli. Kannski hafði Ástu fundist öll sund vera lokuð handan hurðarinnar á Ljósvallagötu. Eina leiðin út væru rauðar klær og uppsteyt við skapillan heimilisföður sem lítið kunni annað en að halda agann. Stjórna á sínu heimili. Honum fórst það stundum illa úr hendi, hrasaði um lætin í sjálfum sér. Ég sé Ástu fyrir mér þegar hún rauk á dyr og kvaddi það sem hún þekkti fyrir látúnshnappa. Með ástinni nam hún land fyrir vestan. Hvað var svo sem eftirsóknarvert við fjölskylduna sem hún skildi eftir? Á ullarbrók með slátur í súr? Nei, Ástu beið annað og öðruvísi. Að klippa á strenginn í naflann og kveðja eyna með manni og mús. Var hún harðjaxl, hún frænka mín? Eða gengur maður á svona gasi í hvað sem er? Elda og brennistein ef svo ber undir. Ameríka. Guð blessi þessa vísbendingu um að óeðli geti orðið eðlilegt í hjartanu. Við sláttinn svona háan og hvað sem aðrir kunnu að segja. Hún hefur elskað smjörgreidda tyggjóklessu í júníformi. Það er næsta víst. Og ég vil trúa því. Ég þekki líka sögu um aðra tyggjóklessu; bleika í sellófani í læstri skúffu.
Vagninn er kominn á leiðarenda, stöðina mína. Sminkið bíður mín baksviðs. Svo tek ég mér stöðu á sviðinu. Leik af fingrum fram eftir fyrirfram ákveðnum reglum, heyri hvísl ef ég beygi af leið. Á móti mér valinn maður í hverju rúmi.
Um miðnætti læðist ég úr fötunum og leggst við hlið Erics sem rumskar og teygir sig eftir mér. Ég legg lófa hans á brjóst mitt og stari upp í myrkrið, heyri hann anda og finn fingur hans vakna við snertinguna. Í svefninum gælir hann við þústina mjúku, ég sný andliti mínu að hans, farin að venjast dimmunni, sé hann opna augun og horfa í mín.
Hugur minn hrópar í þögn, en þú heyrir. Komdu nær, andaðu inn og gleyptu mig. Leggðu varirnar við mínar. Þegar mjaðmir þínar þrýsta sér milli læra minna, veit ég eftir hverju þú sækist. Og ég lyfti mér mót þér. Með skauti mínu segi ég þér allt. Tunga mín leitar sér leiðar um andlit sem ég kann orðið utan að, mitt anddyri. Ég fer inn og loka dyrunum, komin heim. Mér finnst ég heil þegar ég finn þig þrýsta þér djúpt og þú kemst ekki lengra. Þá ertu kominn alla leið, þar er himnaríki. Glórulaust brjálæðið sem grípur slag úr vöðvanum sem knýr mig áfram, alsælan með þig við hjartarætur. Ég skrifa þar hvert orð sem þú segir, marka mig þér með andardrætti. Svitanum. Það nærir mig svo ég nötra.
Svo græt ég í laumi. Taugarnar leita sér leiðar út um augun í söltu vatni sem ég leyfi að þorna og blandast húð minni. Eins og svita þínum, munnvatni og anda. Mér er ekki nóg að líta þig augum, horfa. Ég vil eiga, taka þig inn. Með fætur krækta um mitti þér, þér sem ert í mér. Ég vil ekki vakna, svæfðu mig í himnaríki. Verði þinn vilji sem minn. Að eilífu áður en ég dey. Kysstu mig, þú.
Ég kreisti úr túpunni í lófa mér, teygi mig upp hvítan vegginn og forma línu. Það leka rauðir taumar niður úlnliðina, inn fyrir ermarnar á skyrtunni sem hangir niður af öxl minni. Óstraujuð með öllu. Með rauðu mauki sem ilmar eins og tómatur kemur í ljós maður í stól. Eða er þetta kona? Reykingakona með rauðvín að lesa bók úr blómum. Sletturnar detta og lenda á berum fótum mínum. Sullast milli tánna og klessast undir ilina sem rennur til á trégólfinu þegar ég heyri bjöllu hringja. Með tómatsósu á tánum fer ég til dyra, ég á von á stúlku sem vill leigja herbergi. Þegar ég opna réttir hún mér loðna tösku. Spyr mig hvort ég hafi hugsanlega týnt þessu. Ég man þegar hún datt út um gluggann, henni þótti svo lítið vænt um sjálfa sig þá. Komdu inn fyrir, ég skal hita te.
Steina