Apríkósu- og möndlukjúklingur
8 kjúklingalæri
2 msk olía
1 tsk kanell
1 tsk kummin
1 tsk engifer
½ tsk paprikuduft
½ tsk túrmerik
pipar
salt
2 laukar, saxaðir
2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
200 ml vatn
80 g apríkósur, grófsaxaðar
50 g heilar möndlur
Ég byrjaði á að þerra lærin og hitaði olíuna á pönnu. Blandaði öllu kryddinu saman og núði því vel inn í lærin. Svo setti ég þau á pönnuna með haminn niður og snöggbrúnaði þau; sneri þeim svo, lækkaði hitann og dreifði lauk og hvítlauk í kring. Lét þetta krauma í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn var farinn að mýkjast og verða glær, og hrærði oft í honum á meðan.
Síðan hellti ég vatni á pönnuna, bætti við apríkósum og möndlum, lagði lok yfir og lét malla við vægan hita í um hálftíma, eða þar til lærin voru meyr og elduð í gegn.
Með þessu hafði ég kúskús.