Eiríkur Bergmann bendir á sáttaleið í Evrópumálunum
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur bendir á málamiðlunarleið í Evrópumálunum á Facebook síðu sinni. Við gefum Eiríki orðið:
„Evrópumálin eru við það rífa þessa þjóð í sundur. Og mátti hún nú varla við meiri misklíð. En það er til málamiðlun sem ætti að sætta alla aðila — hafi menn áhuga á því.
Miðað við ástandið nú sýnist mér hyggilegast að fara svissnesku leiðina. Sviss hafði sótt um aðild að ESB eins og hin EFTA ríkin (utan Íslands) en þegar kjósendur þar höfnuðu EES -samningnum árið 1993 var umsókn þeirra að ESB sett á ís. Á þeim ís liggur sú umsókn enn. Formlega er Sviss umsóknarríki að ESB en pólitískt ekki á leiðinni þangað inn.
Færum við svissnesku leiðina þá ná stjórnarflokkarnir fram því markmiði sínu að ekki verði haldið áfram á þeirra vakt en stjórnarandstæðingar því að umsóknin verður ekki afturkölluð með öllum þeim óþægilegum afleiðingum sem sú leið hefði í för með sér. Um leið losnar Sjálfstæðisflokkurinn undir þjóðaratkvæðagreiðslukröfunni nú sem er um það bil að kjúfa flokkinn.
Svissneska leiðin virðist því blasa við miðað við ástandið hér nú.
Nú er bara spurning hvort menn hafi meiri áhuga á stríði heldur en friði.“