Vigdísi Grímsdóttur liggur mikið á hjarta
Hlustið á Vigdísi lesa pistilinn hér að ofan í hljóðskrá.
Ágætu lesendur Kvennablaðsins.
Mig langar ekki að tala um veðrið núna, ekki um færðina hingað norður á Strandir, ekki um flugið, ekki um veginn, mig langar ekki heldur til að tala um lygi stjórnarherranna sem vita hvorki mun á brúnu né rauðu, ekki um fólkið sem stendur í öllum veðrum fyrir utan Alþingið okkar og mótmælir gerræðislegum vinnubrögðum, ekki um hina lúmsku kló fasismans. Mig langar ekki til að tala um neitt af þessu sem skiptir þó svo ótrúlega miklu máli og mun alltaf gera og við ættum öll bæði að skrifa um og tala um. Mig langar bara til að tala um einn lítinn og löngu horfinn atburð frá New York borg, um dálítið sem átti sé stað fyrir voðalega mörgum árum og svo annan atburð héðan frá Íslandi sem gerðist rétt alveg nýlega.
Og nú hefst sem sé pistillinn og það er ekki svo tárum taki hvað mér finnst aumt að skrifa hann og tala hann inn á bandið mitt góða, en ég þykist alls ekkert of góð til þess, hjálpi mér allir guðir í hvaða kyni sem þeir þykjast nú vera, blessaðir.
Einu sinni var kona sem var á leiðinni upp á 19. hæð í háhýsi í New York, en þangað átti hún erindi vegna vinnu sinnar. Hún tekur lyftuna enda skynsöm kona og í góðri líkamlegri þjálfun. Inn í lyftuna gengur hávaxinn maður, hún á sem sé von á samfylgd og hvað með það. Lyftan leggur af stað en hávaxni maðurinn stöðvar hana á 17 hæð, hann ræðst á konuna, dregur hana inn á ófrágengna og hálfkaraða hæðina, misþyrmir henni hrottalega og nauðgar henni hvar sem hann kemur því við, skilur hana svo eftir í blóði sínu og hverfur. Konunni tekst að komast á götuna og í mannþröngina og að lokum undir læknis hendur – og þótt langt sé um liðið hverfur minningin henni aldrei, er alltaf einsog draugur í sálinni á henni og brýst fram hvenær sem er og án þess að gera boð á undan sér. Nema hvað, sagan verður ekki tíunduð í smátriðum, en lögfróður maður ráðleggur konunni að fara í mál við byggingarverktaka hússins, ofbeldismaðurinn er nefnilega sloppinn fyrir horn og finnst aldrei þrátt fyrir víðtæka leit, en honum hafði þó í millitíðinni tekist að misþyrma annarri konu svo illa að barnið sem hún bar undir beltinu deyr, en hún hafði það af.
Okkar kona fer svo í mál og það þarf ekki að orðlengja það að hún vinnur. Snemma í ferlinu, sem var langt og strangt, gerði lögfræðingurinn henni grein fyrir að hann vonaði að í kviðdómi sætu sem flestir karlar, hann þyrfti á karlasjónarhorninu að halda. Konan kváði við og spurði hvað hann meinti eiginlega og það stóð ekki á svarinu. Hann ætlaði að höfða til karlanna í lokaræðunni sem hann og gerði: Hvað ef þessi kona sem hér stendur, segir hann og bendir á konuna, hefði verið mamma ykkar, konan ykkar eða dóttir ykkar, hugsiði um það stundarkorn, setjið konurnar sem þið elskið mest í lífinu í hennar spor á 17. hæðinni, sjáið hana engjast um og kveljast og kveðið svo upp dóminn.
Þettta er auðvitað langur aðdragandi að því sem mig langar að nefna og tala um hérna í örygginu og góða veðrinu á Ströndum þar sem gleðin leikur við hvern sinn fingur eftir mikið og langt hvassviðri. Langur aðdragandi en mér nauðsynlegur og ykkur líka. Mig langar nefnilega að tala um aðra nauðgun og það er nauðgun mannréttinda sem við tökum öll þátt í ef við þegjum og látum ekki í okkur heyra. Því hvað er það annað en nauðgun þegar kona sem átt hefur heima í landinu okkar góða, á eyjunni ljúfu, er gerð brottræk og fær ekki að búa hér hjá dóttur sinni, barnabarninu sínu, fólkinu sínu.
Það er alls ekki í lagi með kerfi sem meiðir fólk.
Það er alls ekki í lagi með kerfi sem brýtur á fólki.
Það er alls ekki í lagi með kerfi sem upphefur einn og niðurlægir annan.
Það er heldur ekki í lagi með kerfi sem hvetur til misréttis.
Það er nauðungarkefi.
Það er nauðgunarkerfi.
Hvað ef dæmendur í málinu, þeir sem kerfinu stjórna og viðhalda því, spyrðu sjálfa sig sömu spurninga og karlarnir voru spurðir að í New York forðum daga, hvað ef menn settu nú upp karlasjónarhornið sem enginn skilur betur en karlar sem elska konur: Hvað ef þetta væri mamma þín, konan þín, dóttir þín, hvað ef þetta væri manneskja sem þú elskaðir, myndirðu samt nauðga henni til brottfarar, myndirðu samt segja henni að hypja sig burt, mundirðu samt láta einsog hún væri einskis virði.
Kerfi er bara kerfi og því er stjórnað af fólki sem við höfum valið.
Ef kerfið er rangt og ómannúðlegt þá verður að breyta því og það verður að gæta þess alveg inn að beini að kerfinu stjórni manneskjur sem geta sett sig í spor annarra.
Allt annað er siðblinda og gjörsamlega óverjandi.
Útlendingastofnun á ekki að vera skrímsli.
Útlendingastofnun á að verja rétt þess fólks sem sækir hingað á flótta sínum, fólks sem á rétt á góðu lífi einsog við hin á eyjunni.
Útlendingastofnun er ekki og á ekki að vera ríki í ríkinu.
Útlendingastofnun á ekki að gæta þess að Ísland sé bara fyrir Íslandinga.
Það er svarnætti og hvaða heilsteypt þjóð vill myrkur og heimsku.
Og að lokum bara ein lauflétt spurning sem hver svarar fyrir sig sem les eða hlustar. Hvort halda menn að sé verra að vera nauðgað af einum manni á 17. hæð í New York borg eða að vera vera nauðgað í nafni heillrar þjóðar sem í andvaraleysi og aumingjaskap segir ekki múkk?