Una Margrét Jónsdóttir skrifar um íslensk kventónskáld
Haustið 2013 gerði Una Margrét Jónsdóttir 6 útvarpsþætti sem fluttir voru á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu undir heitinu „Tónlist í straujárni“. Þeir fjölluðu um fyrstu íslensku kventónskáldin. Í Kvennablaðinu verða birtar greinar um nokkur af þessum tónskáldum, allt konur fæddar fyrir aldamótin 1900, en greinarnar eru byggðar á útvarpsþáttunum. Tónskáldin sem hér er fjallað um í þessum 1. pistli Unu Margrétar eru Kirstín Guðjohnsen og Valgerður L. Briem.
Kirstín Guðjohnsen og Valgerður L. Briem.
Venja er að líta á Jórunni Viðar sem okkar fyrsta kventónskáld og það er rétt að hún er fyrsta íslenska konan sem verður menntað tónskáld og hefur það að aðalstarfi. En íslenskar konur höfðu samt áður fengist við að semja lög. Hvert skyldi vera elsta lagið eftir íslenska konu? Og hvaða íslenska kona varð fyrst til þess að semja lög? Þessar spurningar fengu mig til að rannsaka tónlistarsögu landsins með tilliti til kvenna.
Ég hef ekki fundið öruggar heimildir um íslernskt kventónskáld fyrr á á 19. öld. Árni Heimir Ingólfsson hefur að vísu bent mér á það að sálmalagið „Einka réttlætið“ í handritinu „Hymnodia sacra“ frá 1743 geti hugsanlega verið eftir konu. Sálmurinn er í tveimur handritum frá 1775 sagður vera eftir „S.G.D.“, en D merkir að líkindum „dóttir“ og bendir það til þess að kona hafi ort sálminn. Og í öðru handritinu stendur að hann sé „með sínum eiginlegum tón“, þ.e.a.s. með sínu sérstaka lagi. Það gæti þýtt að S.G.D. hafi einnig samið lagið. En þetta er þó ekki hægt að fullyrða með vissu.
Ég hef fundið heimildir um tvær íslenskar konur, fæddar á 4. áratug 19. aldar, sem sömdu lög. Það eru Margrét Sveinbjarnardóttir (1833-1914, Borgarfirði) og Soffía Tómasdóttir (1838-1914, Eyjafirði). En allt bendir til þess að lög þeirra séu glötuð.
Sú elsta sem ég hef fundið lög eftir er hins vegar Kirstín Katrín Pétursdóttir Guðjohnsen sem fæddist 1850 og lést 1940, níræð að aldri. Svo skemmtilega vill til að Kirstín var einmitt dóttir elsta íslenska karlmannsins sem tónsmíðar hafa varðveist eftir svo öruggt sé. Það var Pétur Guðjohnsen, fyrsti organisti Dómkirkjunnar í Reykjavík, en hann var fæddur 1812 og lést 1877. Pétur og kona hans, Guðrún Sigríður Knudsen, eignuðust 15 börn og var Kirstín sjöunda barnið. 6 ára gömul var hún sett í fóstur til Péturs Péturssonar biskups og konu hans, Sigríðar Bogadóttur, hún ólst því upp við góð efni og lærði m.a. að leika á píanó því biskupshjónin áttu fortepíanó. Í bréfi sem Kirstín skrifaði löngu síðar, eftir að hún var orðin amma, kemur fram hvað tónlistaráhugi hennar var mikill þegar í bernsku. Hún er að tala um dótturdætur sínar og segir (stafsetning óbreytt):
Jeg er að halda þeim til að æfa sig á píanóið, en sjaldan þykir mér æfingin fullnægjandi. Jeg er að seigja þeim hvernig þurfti að reka mig frá píanóinu á þeirra aldri af því að jeg vildi helst vera við það allan daginn.
Kirstín hafði líka samband við hina raunverulegu foreldra sína á uppvaxtarárunum og þar var ekki síður mikil músík á heimilinu. Þóra fóstursystir hennar segir einu sinni í bréfi að hún öfundi Stínu sem fari svo oft heim til foreldra sinna, þar sé sungið og dansað allan liðlangan daginn.
Árið 1876 giftist Kirstín biskupsritaranum, Lárusi Halldórssyni sem tók prestvígslu árið eftir og varð prestur á Valþjófsstað. Lárus var leystur frá embætti 1883 vegna deilna um trúmál, hann varð skömmu síðar prestur fríkirkjusafnaðar í Reyðarfirði og 1899 prestur fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík.
Ég sagði að það væri merkileg tilviljun að Kirstín skyldi vera dóttir fyrsta nafngreinda íslenska tónskáldsins. En tilviljanirnar eru fleiri. Dóttir Kirstínar, Valgerður Lárusdóttir Briem, fædd 1885, mun hafa verið fyrsta íslenska konan sem fékk lag eftir sig birt á prenti. Og dóttir Valgerðar, Halldóra Briem, fædd 1913, samdi líka lög. Þarna eru komnir fjórir ættliðir: Pétur, Kirstín, Valgerður og Halldóra, allt tónsmiðir og þar af þrjár konur.
Valgerður og systkini hennar lærðu söng og hljóðfæraslátt hjá Kirstínu móður sinni og saman mynduðu þau kvartett þar sem hvert söng sína rödd. Sópranröddina söng Valgerður og ung var hún farin að syngja einsöng á skemmtunum í Reykjavík. Hún var ráðin söngkennari við Kvennaskólann 18 ára gömul og veturinn 1904-5, þegar hún var um tvítugt, stofnaði hún ásamt vinkonu sinni söngfélagið Gígjuna. 22. desember 1905 segir í Þjóðólfi frá kvöldskemmtun sem haldin var til styrktar minnisvarða um Jónas Hallgrímsson:
Söngfélagið Gígja söng nokkur lög. Stjórnaði frk. Valgerður Lárusdóttir því prýðilega.
Tónlistarhæfileikar Valgerðar þóttu það miklir að hún var send til tónlistarnáms í Kaupmannahöfn. Hún keppti um styrk til náms í Konunglega tónlistarháskólanum og hlaut styrkinn þótt hún væri að keppa við menntaðri stúlkur, Á prófinu söng hún og lék einnig á píanó úr etýðum Beethovens.
Námið gekk vel og árið 1907 stóð til að Valgerður syngi einsöng við heimsókn konungsins til Íslands. En þetta sama ár veiktist hún af berklum, sjúkdómi sem þegar hafði dregið bróður hennar til dauða. Söngnámið var á enda og Valgerður fór heim til Íslands.
Henni batnaði að nokkru leyti og þótt hún gæti ekki haldið náminu áfram gat hún enn sungið ef hún fór varlega. Árið 1910 giftist hún ungum presti, sr. Þorsteini Briem. Og það var þetta sama ár sem lag eftir Valgerði birtist á prenti. Það var lagið „Um kvöld“ sem birtist í lagasafninu Organtónum, en Brynjólfur Þorláksson organisti hafði tekið tónsmíðarnar saman.
Árið 1911 var eiginmanni Valgerðar, sr. Þorsteini Briem, veitt Grundarþing í Eyjafirði og þau hjónin fluttust að bænum Hrafnagili. Sama ár fæddist fyrsta barn þeirra, dóttirin Kirstín, 1913 fæddist önnur dóttir, Halldóra, 1914 Valgerður og 1918 Guðrún Lára. Sama ár og fjórða dóttirin fæddist var sr. Þorsteini veitt Mosfell í Grímsnesi og fjölskyldan flutti þangað.
Berklarnir voru ekki horfnir og hvað eftir annað þurfti Valgerður að fara á berklahælið á Vífilsstöðum. 1919 þurfti hún að fara til Danmerkur þar sem gerð var á henni aðgerð. Vegna veikinda Valgerðar var Kirstín móðir hennar mikið á heimilinu og hugsaði um dótturdæturnar. Tónlist var stór hluti af uppeldi þeirra, amma þeirra kenndi þeim að spila á orgel og þegar móðir þeirra var heima spilaði hún fyrir þær á gítar og æfði þær að syngja raddað. Á póstkorti sem Valgerður sendi Halldóru dóttur sinni frá heilsuhælinu í Danmörku kemur fram hvað tónlistin fjölskyldunni var mikilvæg. Þar segir:
Þegar þið eruð orðnar stærri þá sitjum við saman og saumum, prjónum, heklum, lesum, syngjum, spilum. Píanóið kemur vonandi með mér heim og þá farið þið strax að læra að spila hjá mér. Og þið skuluð allar læra mörg lög að syngja sóló og í kór! Gaman verður að kenna litlu stúlkunum sínum og gaman verður að læra hjá mömmu.
Kirstín orti ljóð um allar fjórar dótturdætur sínar og samdi við þau lög sem enn eru til. Auk þessara sönglaga hefur varðveist eitt píanólag eftir Kirstínu. Ekkert þessara laga hefur birst á prenti, en þau eru til í handriti hjá fjölskyldunni og öll voru hljóðrituð fyrir útvarpsþættina á liðnu ári.
Eftir Valgerði hafa varðveist þrjú sönglög (þar með talið lagið „Um kvöld“) og eitt stutt píanóverk, „Vornæturhéla“. Við nóturnar stendur skrifað að það sé samið á áratugnum 1910-20. Píanóverk Valgerðar og Kirstínar eru að líkindum elstu hljóðfæraverk íslenskra kvenna sem varðveist hafa.
Húsnæðið á Mosfelli, gamall torfbær, var ekki heppilegt fyrir berklasjúkling og 1921 var Þorsteini Briem veitt nýtt brauð: Garðar á Akranesi. Þar fæddist fimmta barn þeirra Valgerðar árið 1923, stúlka sem var skírð Ólöf Ingibjörg. En hún dó nokkurra mánaða gömul og var það mikið áfall. Sennilega hefur það veikt krafta Valgerðar og sjúkleiki hennar blossaði upp á ný. Hún dó 26. apríl 1924.
Það varð systrunum fjórum huggun í harmi að frænka þeirra, Emilía Guðjohnsen, fluttist á heimilið og gekk þeim í móður stað, en Valgerður hafði beðið hana um það í bréfi skömmu áður en hún dó. Systurnar uxu úr grasi og urðu allar mikilhæfar konur. Halldóra varð arkitekt fyrst íslenskra kvenna og árið 1994 kom út ævisaga hennar, Saga Halldóru Briem, sem Steinunn Jóhannesdóttir skráði. Hún fjallar ekki aðeins um Halldóru, heldur er líka mikilvæg heimild um líf og störf móður hennar og ömmu. Þar kemur fram að skömmu fyrir 1960 keypti Halldóra sér flygil og fór að semja lög, samdi líka stundum ljóð við þau, eins og mamma hennar og amma höfðu gert. Í þessum verkum kemur það vel fram að sorgin við dauða móður hennar hefur markað í hana djúp spor, nokkur lög og ljóð eru helguð henni og eitt fjallar einnig um lát litlu systurinnar. Halldóra lést árið 1993. Þess má að lokum geta að Jórunn Viðar er náskyld þeim Kirstínu og Valgerði, því hún er barnabarn Mörtu Maríu, systur Kirstínar.
Ljósmynd af Unu Margréti er höfundarverk Atla Más Hafsteinssonar