Sif í jóga, það er eitthvað…
Ég hef aldrei verið mikil jógamanneskja. Prófaði óléttujóga á sínum tíma og átti svo bágt með mig að ég varð frá að hverfa. Ég er hreinlega of sjálfmeðvituð manneskja til að geta setið með fólki og kyrjað. Í óléttujóganu áttum við að hafa eina hendi á hjarta og aðra á bumbunni og kyrja eitthvað fagurt um það að við værum alheimsmæður. Og eftir þá æfingu mætti ég aldrei aftur. Er þetta ekki vandræðalegt? Hvernig á maður að geta gert þetta án þess að springa úr hlátri?
Hér í Santa Monica eru fleiri jógastúdíó en matvörubúðir. Í alvöru. Önnur hver manneskja sem labbar framhjá mér er með jógamottu í hendinni og ef maður ætlar að vera maður með mönnum þá er maður í jóga. Þannig að ég skellti mér í gær. Byrjendajóga í ræktinni minni hér í borg. Góð og slakandi lykt í salnum, kennarinn virkaði fyndinn og hress og þetta leit bærilega út. En svo kom í ljós að 70% bekkjarins voru reynsluboltar sem stóðu á haus milli æfinga og beygðu sig og teygðu í allskonar áttir sem getur bara ekki verið náttúrulegt fyrir líkamann.
Og svo var það hann Horatias vinur minn. Hann gerði alltaf umfram æfingar. Alltaf einu stigi lengra en kennarinn lagði til. Svo bað kennarinn um uppástungu að jafnvægisæfingu. Og hvað gerði hann? Jú hann stakk upp á að við gerðum æfingu sem ég komst að því að heitir Bird of Paradise. Það er ekki byrjenda jafnvægisæfing get ég sagt ykkur – sjá mynd. Skemmst frá því að segja að hann gerði þessa æfingu á báðum fótum og skellti sér svo í eina höfuðstöðu og eitthvað fleira meðan við aumingjarnir lágum í köðli á gólfinu.

Maður byrjar niðri á jörðinni og lyftir sér svo upp í þessa stöðu á einum fæti. Eruð þið að grínast?
En svo fattaði ég hvað Horatias var að gera. Munið þið eftir Friends þættinum þar sem Monica, sem var kokkur á frábærum veitingastað, skellti sér á námskeið sem var „Eldað fyrir byrjendur“? Og Joey henti sér í „Acting for beginners“. Þetta var til að efla sjálfstraustið hjá þeim, vera bestur í bekknum. Ég hef sumsé Horatius grunaðan um þetta. Hann er örugglega búin að æfa jóga frá því hann fæddist en fer reglulega í byrjendatímana til að upplifa sig miklu betri en alla, nefnir svo einhverjar fáránlegar æfingar og hlær innan í sér meðan við nýgræðlingarnir nánast drepum okkur við að reyna.
En þetta var ekki það sem reyndi mest á mig í þessum tíma. Ég skemmti mér bærilega þar til að æfingunni var að ljúka. Þá tóku þau upp á að kyrja. Og ég áttaði mig enn og aftur á að þrátt fyrir að vera sú alversta í bekknum og mása og blása tímann í gegn þá er það þar sem ég dreg mörkin. Ég bara get ekki setið og kyrjað með fólki. Ég fæ kjánahroll niður eftir öllu bakinu og verð eins og vandræðalegur unglingur, flissa innan í mér og hef mig alla við að flissið berist ekki upp á yfirborðið.
En það þýðir ekkert að gefast upp, ég verð að komast yfir sjálfa mig. Það er nefninlega sjúklega mikið af frægu fólki í jóga. Ef ég ætla að uppgötvast í Hollywood þá hlýt ég að verða að gera þetta. Ég ætla því að bíta á jaxlinn og henda mér í jóga aftur í næstu viku. Vona bara að Horatias sé að pirra einhverja aðra en mig þá.
Namaste!