Secret Solstice er vonandi komið til að vera
Jæja krakkar, þá er sólstöðuhátíðin liðin undir lok og í heildina litið myndi ég kalla þetta einstaklega vel heppnaða hátíð. Við Arthur byrjuðum hátíðina á ljúfum tónum frá Bloodgroup sem stóðu sig einstaklega vel þrátt fyrir hálf móðgandi tímasetningu fyrir svo vinsælt band. Maður fær það náttúrulega á tilfinninguna að Bloodgroup hafi verið sett á svið klukkan eitt á föstudagseftirmiðdegi svo vinnandi fólk sem og aðrir láti freistast til þess að mæta snemma. En nóg um það, við kíktum næst á Ewok á Emblusviðinu sem gladdi mig með því að spila skemmtilegt mix af PacMan laginu og færðum okkur svo yfir í Ask til þess að fylgjast með Lex Luca þeyta skífum. Hátíðin fór rólega af stað eins og við var að búast þar sem flestir voru enn í vinnunni en fólksfjöldinn var orðinn talsvert meiri um fimmleytið þegar við skelltum okkur á Gervisykur.
Gimli sviðið var alveg að gera sig föstudaginn var; strákarnir í Gervisykri voru frábærir, kornungir hæfileikadrengir. Eftir þeim mættu pæjurnar í Alva Islandia á svið með hörkushow og fengu hrós frá mér og fleirum fyrir að hafa myndarlegan dreng á sviðinu með stærðar sleikjó, sem svo innihélt marga litla sleikjóa sem hann gaf áhorfendum á einstaklega þokkafullan hátt. Þegar Alva Islandia höfðu lokið sér af tóku Shades of Reykjavík við og þó ég sé ekki mikil rapppía þá dáðist ég að sviðsframkomunni hjá strákunum. Þeir voru eitthvað svo svalir. Næst fórum við Arthur á stórbandið Woodkid, þeir eru með sérstaka sort af raftónlist sem þeir komu einstaklega vel frá sér með súper synkroníseruðum trommuleikurum, skringilega myndarlegum söngvara og eitursvölum sviðsjónlistum. Disclosure stóðu sig ágætlega líka, aðdáendur sveitarinnar voru að vonum ánægðir með frammistöðu hennar og ég var örugglega ekki sú eina sem sat eftir með „When a fire starts to burn“ í höfðinu það sem eftir lifði kvölds. Mikið stuð semsagt.
Plötusnúðarnir í Hel stálu þó senunni á föstudaginn var: Afrohead, Carl Craig og Damian Lazarus þeyttu hverri technósnilldinni eftir annarri fyrir dansþyrsta hátíðargesti uppljómaðir í dýrindis-ljósashowi. Hel bauð því upp á sælgæti fyrir augu og eyru í vel uppsettri skautahöllinni. Plastgólfið sem skipuleggjendur höfðu rúllað yfir svellið var ekki alveg stabílt en mér fannst það kostur frekar en galli því það var ný dansupplifun að hoppa um á hreyfanlegu gólfi.
Laugardagurinn; annar í sólstöðum
Það tók vel á að dansa í Hel fram að lokum og því dröttuðumst við Arthur ekki á hátíðarsvæðið á laugardaginn fyrr en upp úr fjögur. Okkur fannst erfitt að vera til í smástund en við bættum snögglega úr því með nokkrum köldum bjórum (þeir voru sko ekki alltaf kaldir, bjórarnir), góðum félagsskap og almennri afslöppun í hengirúmunum. Þegar okkur fór að líða aðeins betur kíktum við á Exos sem var samur við sig og gaf frá sér taktfasta og kræfa danstóna.
Að því loknu var okkur ekkert að vanbúnaði að rölta yfir til Valhallar til þess að berja aðalhljómsveitir kvöldsins augum. Múm stóðu sig prýðilega og frumfluttu uppáhalds lag höfundar þessa stundina: „When Girls Collide“ við mikinn fögnuð viðstaddra. Ég hafði aldrei heyrt af Jillian Banks áður en hún flutti fín lög sem súrnuðu aðeins þegar söngkonan ákvað að tjá sig við áhorfendur um ást sína á alheiminum og aðra ameríska vellu. Þetta hefðu verið voða falleg skilaboð ef þau hefðu ekki lyktað grunsamlega mikið af samsoðinni copy peistaðri væmni sem sniðin er að hverju landi fyrir sig. Mér fannst hún ekki ekta.
Massive Attack
Aðalstjörnur hátíðarinnar stóðu undir sínu og spiluðu fjölda gullkorna á borð við „Unfinished Symphony“, „Teardrop“, „Safe from Harm“ og „Paradise Circus“. Á bak við hljómsveitina blasti við áhorfendum ótal pólitískra skilaboða um neyslusamfélagið, stríðsrekstur og yfirborðsmennsku. Vinsælustu fyrirsagnir íslenskra fjölmiðla flutu yfir risavaxinn skjáinn og þar voru figúrur á borð við Kim Kardashian og Vala Grand áberandi en ég persónulega var hrifnust af fyrirsögninni „Íhugaði að borða fylgjuna“ sem birtist á skjá þeirra félaga nokkrum sinnum. Tónleikarnir voru mjög fínir og ég fór alsæl af Massive Attack yfir til Heljar til þess að dansa við technótóna frá Paul Woolford og technorisanum Jamie Jones.
Sá síðarnefndi var hressandi tilbreyting við raftónlistarsenuna á íslandi, eða eins og Vincent Briglia, einn hátíðargesta orðaði það:
„A much needed injection of cool pounding beats in a country primarily focused on house music “
Við dönsuðum semsagt fram á rauða nótt við harða technótóna og hættum ekki fyrr en okkur var vísað burt af svæðinu upp úr fimm að morgni sunnudags.
Sunnudagur – Þriðji í sólstöðum
Sólin lék við okkur í gær og hátíðargestir gengu um í fögrum klæðum og marglitum sólgleraugum. Sunnudagurinn var gleðidagur fyrir rappaðdáendur hátíðarinnar enda áttu rappsveitir Valhöll, stærsta svið hátíðarinnar, í gær. Við Arthur erum lítið fyrir slíka tónlist og sátum því í fjölmiðlaherberginu á meðan Gísli Pálmi, XXX Rottweiler Hundar og Emmsjé Gauti trylltu aðdáendur sína fyrir utan gluggann okkar. Við heyrðum semsagt vel í þeim og sáum hvað allir voru kátir þó ég hafi ekki notið þess sérstaklega fyrr en með nostalgíukastinu sem ég fékk þegar Rottweiler Hundar tóku „Þér er ekki boðið!“.
Schoolboy Q var bara með læti.
Það var bara eitt atriði sem varpaði skugga á sólríkan sunnudaginn og það var að hátíðarhöldurum hafði láðst að láta gesti sína vita að þeir myndu hætta áfengissölu klukkan tólf, jafnvel í Hel þar sem áfengissala stóð öllu jafna lengur en á útisvæðinu. Það varð til þess að barstarfsfólk Heljar þurfti að vísa burt mjög svo frústreruðum og bjórþyrstum viðskiptavinum sem voru nýbúnir að skipta góðum pening yfir í svokölluð token, gjaldmiðil hátíðarinnar. Peningana fékk maður nota bene ekki aftur þó manni tækist ekki að eyða öllum tokenunum. Nett klúður.
Stemmningin var frábær – Umgjörðin ágæt
Flestir gestir voru í ljómandi fínu skapi yfir hátíðina og það glitti í bros í allar áttir enda langt síðan splæst hefur verið í jafn veglega hátíð fyrir okkur Íslendinga. Stemmningin var semsagt frábær, hvort sem það var í villtum dansinum í Hel eða afslappaðri stemmningunni í kringum hengirúmin og önnur setusvæði. Sviðsmyndirnar, ljósin og umhverfið allt var ofboðslega vandað og fallegt og í raun lítið út á umgjörðina að setja fyrir utan eitt atriði: Vatn. Hátíðarhaldarar seldu hálfslítra vatnsflöskur á 250 krónur stykkið en hvergi var aðstæða til þess að fylla á flöskurnar og tónlistargestir því tilneyddir til þess að kaupa aðra flösku ef þorstinn lét aftur á sér kræla eða sleppa því bara að drekka vatn yfirhöfuð.
Nú var mikið af ungu fólki á hátíðinni sem hefur ekki endilega það mikinn pening á milli handanna að það tími að eyða þúsundkalli í vatn á einu kvöldi. Enda voru mörg ungmennin strax orðin alvarlega ölvuð eftir hádegi á föstudaginn ásamt reyndar eldri gestum. Ég mótmæli því náttúrulega ekki að gestir þurfi að kaupa fyrstu flöskuna en mér finnst stórundarlegt og úr takti við umhverfisvænt yfirskyn hátíðarinnar að neyða gesti til þess að kaupa hverja plastflöskuna á fætur annarri til þess að svala þorsta sínum. Ég vona að skipuleggendur bæti úr þessu næst.
Löggimann var áberandi
Lögreglan gekk um svæðið í stórum hópum en virtist ekki skipta sér mikið af hátíðargestum almennt. Þó berast Kvennablaðinu fregnir af því að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi gengið um svæðið, stoppað grunlausa hátíðargesti og leitað á þeim án þess að hafa endilega fyrir því að upplýsa fólk um réttindi sín, nú eða að spá sérstaklega í því hvort þeir hefðu virkilega rökstuddan grun um glæpsamlegt athæfi þeirra óheppnu gesta sem urðu fyrir líkamsleit dulbúnu lögganna eins og lög segja fyrir um. Við ætlum að sjálfsögðu að grennslast fyrir um þetta og munum á næstunni ræða við hátíðarhaldara, lögregluna og mannréttindafélagið Snarrótina í þessu samhengi, en Snarrótin fylgdist með vinnubrögðum lögreglunnar á hátíðinni.
Við Arthur urðum þó ekki fyrir barðinu á löggunni og skemmtum okkur konung- og drottningarlega í dansveislu sumarsins. Hér fyrir neðan getið þið skoðað myndagallerý frá hátíðinni en Arthur tók fullt af fínum myndum yfir hátíðina af fríðum hátíðargestum sem og hinum ýmsu tónlistamönnum sem spiluðu fyrir okkur. Hann náði meira að segja góðri mynd af mér sem er ekki algengt!
Þar til næst lesendur góðir bið ég ykkur vel að lifa.