Meingallað kerfi
Kvennablaðið óskaði eftir því við Sigrúnu Theodóru að hún myndi skrifa framhaldspistil eftir að við birtum pistil hennar Ég vil ekki þegja lengur þann 9. desember 2013. Pistillinn hefur vakið sterk viðbrögð almennings og margir hafa haft samband við okkur og óskað eftir frekari skrifum frá Sigrúnu. Sigrún Theodóra tók bón okkar afar vel og við birtum nýja pistilinn hennar hér nú. Við kunnum henni bestu þakkir fyrir.
Sigrún Theodóra skrifar.
Hinn 6. desember síðastliðinn skrifaði ég pistil um samskipti mín við umboðsmann skuldara og birti á facebook-síðu Hagsmunasamtaka heimilanna. Þessi pistill bar heitið, Ég vil ekki þegja lengur, og birtist síðan hér og þar um netheima og viðbrögð fólks við þessum orðum mínum voru óvenju mikil.
Fjöldinn allur af fólki hafði samband við mig og sagði frá svipuðum aðstæðum og ég er stödd í en þakkaði mér jafnframt fyrir að vekja athygli á þessu máli og opna umræðuna. Ég er þakklát fyrir allt þetta fólk því það sýndi mér að ég er ekki ein í þessum sporum hér á landi og það er ómetanlegt að finna svona mikinn stuðning í baráttu minni við kerfið.
Eftir að umboðsmaður skuldara neitaði mér um aðstoð í mínum málum þá varð ég fyrst hrædd en síðan reið. Ég var búin að treysta á þessa stofnun í tvö ár og vonaðist eftir hjálp sem ég fékk síðan ekki.
Ég hafði sent einlæga ósk um aðstoð til velferðarráðuneytisins, UMS og umsjónarmannsins míns hjá þeim en fékk engin viðbrögð. En sem betur fer hef ég alltaf átt erfitt með að gefast upp og þótt ég hafi oft bognað hef ég ekki enn náð að brotna.
Ég hafði samband við Hagsmunasamtök heimilanna og talaði við Vilhjálm Bjarnason sem er formaður þeirra og algjört gull af manni. Hann hvatti mig til að kæra úrskurð UMS til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og ég gerði það. Ég get ekki þakkað þessum samtökum nóg þar sem allt þeirra góða og óeigingjarna starf er unnið í sjálfboðavinnu og í þágu okkar allra.
Núna bíð ég bara í helgreipum þessa meingallaða kerfis og vonast eftir einhverju svari. Ég hef ekki hugmynd um hvenær þetta svar kemur eða hvort það verði mér og börnum mínum í hag en ég er því miður ekki bjartsýn. Ég er farin að halda að þessi stofnun hafi aldrei verið sett á laggirnar til að hjálpa aumingjum eins og mér heldur styðja frekar við bakið á kröfuhöfum og bankakerfinu.
Eins hef ég heyrt af mörgum sem fengu hjálp með sín mál en það fólk átti pening. En fólk eins og ég getum bara étið það sem úti frýs. Ég er víst ekki nógu efnamikil til að fá sanngjarna meðferð og verð því að berjast á annan hátt.
Ég hef misst alla trú á hugtakið réttlæti því það virðist ekki fyrirfinnast í íslensku þjóðfélagi. Það er mín tilfinning að íslenskt þjóðfélag sé sniðið að þörfum stjórnvalda, embættismanna og auðvalds en almenningur settur út í kuldann.
Eins og allir vita hefur fátækt á Íslandi aukist mikið eftir hrunið en hún er afskaplega vel falin þar sem fólk skammast sín fyrir að eiga ekki pening. Samkvæmt viðmiðum velferðarráðuneytisins er ég ein af þessum fátæklingum en ég skammast mín ekki fyrir að segja frá því eða tala um það. Þetta er landlægur fjandi sem þarf að breytast, því allir geta lent í fátækragildrunni. Veikindi, skilnaður, atvinnumissir, launalækkun, slys og fleira getur komið ójafnvægi á líf fólks og aðstæður þess breyst á augnabliki. Í mínu tilviki var það skilnaður og efnahagshrunið sem gerði mér erfiðara að lifa af þeirri mánaðarlegri upphæð sem ég hef á milli handanna.
Ég hef ekki efni á að reka bíl, það kemur fyrir að strákarnir mínir gangi í of litlum eða slitnum fötum, ég hef sjaldan efni á að gera eitthvað skemmtilegt með börnum mínum, við förum ekki í útilegur, sumarbústaði eða utanlandsferðir og ég hef oftar en einu sinni þurft að leita á náðir hjálparstofnana. Skólamötuneytið er mér þungur baggi og eins fótbolti yngri stráksins míns. Þvottavélin mín er 15 ára gömul og búin að leka í tvö ár og sófann inn í stofu sá ég gefins akkúrat sama dag og gamli sófinn minn brotnaði í tvennt.
Margir Íslendingar hafa löngum litið niður á þá sem eiga ekki peninga og ég hef oft orðið vör við vanvirðingu og skilningsleysi í minn garð og barna minna.
Margir kjósa að líta undan og tala ekki um þessi mál en aðrir verða reiðir og spyrja mig af hverju ég geti ekki bara þagað eins og allir aðrir. Flestir sýna þó aðstæðum mínum skilning þótt þeir eigi erfitt með það því enginn getur upplifað annarra manna reynslu nema að stíga í þeirra skó og ganga nokkur spor.
Ég les í fréttamiðlum landsins að 25% einstæðir foreldrar hér á landi eiga ekki fyrir grunnþörfum sínum eða barna sinna. Það er slegist um hverja þá íbúð sem kemur á leigumarkaðinn og fólk er tilbúið til að borga himinháa upphæð fyrir það eitt að hafa þak yfir höfuðið. Það er margra ára biðtími eftir félagslegri íbúð fyrir þá sem þurfa og félagsleg einangrun og útskúfun barna á Íslandi hefur aukist mikið í kjölfar hrunsins.
Nýleg rannsókn sýnir að allt um 12.000 börn á Íslandi búa við fátæktarmörk.
Ég er hugsjónamanneskja og vil láta gott af mér leiða og stundum þarf að kasta sér fyrir ljónin til þess að knýja fram breytingar eða opna umræðu. Það gerist ekki þegar allir þegja eða þora ekki að segja frá. Það má ekki gefast upp fyrir þessu kerfi og við eigum aldrei að láta buga okkur. Það kemur bara niður á þeim sem okkur þykir vænst um.
Ég ætla að berjast fyrir börnin mín og þótt niðurstaðan verði ekki nógu góð að lokum mun ég þó geta sagt með góðri samvisku að ég gerði allt sem í mínu valdi stóð og gengið stolt í burtu.