„Menningartengd“ ferðaþjónusta
Hvað er það fyrsta sem þú segir foreldrum, börnum, vinum eða ættingjum frá þegar þú kemur frá Íslandi? Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér og er forvitinn um hvernig mínir samferðamenn bregðast við.
Ég var með par frá Suður-Afríku í nokkra daga fyrir um það bil þremur árum. Við heimsóttum sveitabýli í Álftaverinu. Þetta var í miðjum sauðburði og bóndinn og maður hennar voru í önnum. (Sjáið bara hvað ég er orðinn jafnréttissinnaður eftir að hafa skrifað örlítið fyrir Kvennablaðið upp á síðkastið!).
Ég barði að dyrum og gekk inn, eða gekk ég inn og barði á hurð? ég man ekki í hvorri röðinni ég gerði þetta, er askvaðandi inn á gólf hjá fólki allan tímann hvort eð er. Húsið var mannlaust, óvaskað upp, föt á víð og dreif, snakkumbúðir og pizzupakkningar hingað og þangað, í raun óþrifið og óhirt húsnæði. Þá áttaði ég mig á að hjónin væru náttúrulega úti í fjárhúsum og lítill tími gæfist fyrir heimilisstörf meðan á sauðburði stæði.
Ég fór út og sá að bílar voru heimavið en eitthvað um að vera niður í fjárhúsum. Við fórum þangað og þar var hamagangur í öskjunni, lamb á stundarfórðungs fresti og bændur uppteknir við hjálp, skráningar og umhirðu.
Við þrjú tókum strax til starfa, veittum hjálp og drógum lömb inn í lífið. Staður og stund gleymdust. (Sumir kalla þetta menningartengda ferðaþjónustu).
Tíminn flaug í önnum dagsins og þar kemur að bóndi býður okkur að þiggja kvöldverð hjá sér. Allar afsakanir eins og „það er nú allt í drasli inni“, „við eigum bara afganga“, „þetta verður bara kalt borð“, svona „minnstu mín ef þér liggur lítið við“ heimboð.
Ég kom þessu áleiðis til minna gesta og þau þekktust þetta rausnarlega boð að sjálfsögðu. Við gengum heim í bæ og var vísað til sætis í illa útlítandi eldhúsinu, settumst á rekaviðardrumba með ánegldum púðum, við snarfullt eldhúsborð af óhreinum mataráhöldum.
En innan skamms var komið fullt af mat á borðið, hangikjöt og kaldar kótilettur, silungur grafinn og reyktur, heimagerð sulta og rabbabaragrautur, heimarjómi og ógerilsneydd mjólk, flatkökur og rúgbrauð, lifrarkæfa og blóðmör, nóg af öllu.
Við tókum rösklega til matarins, spjölluðum og heyrðum af striti bænda nú til dags, áburðarverði, olíuverði, af markaðsmálum og tölu búpenings. Svo var boðið upp á kaffi á eftir.
Ég man að frúin stóð við efri skápana og leit á tómar hillur, eða nánast, innst inni voru gamlir laskaðir bollar, skörðóttir og eyrnalausir. Hún kom með þetta og kaffið var fínt. Eitthvað var um afsakanir en allt var þetta skiljanlegt, nóg við að vera í bústörfunum. Stuttu síðar keyrðum við heim á þetta líka fína hótel og gistum þar.
Í ferð okkar sýndi ég þessu fólki auðvitað fjöll og vötn, sanda og hraun, jökla og ár, fólk og fossa, eins og gengur.
Á leið okkar út á Keflavíkurflugvöll við lok ferðar spurði ég saklausrar spurningar:
„Hvað stendur svo upp úr hjá ykkur eftir þessa ferð? Var það Bláa lónið, Gullfoss eða Fjaðrárgljúfur?“
„Nei, alls ekki, það var þegar við fengum kaffið í brotnu bollunum“!
„Hefðuð þið ráðið mig til að fara með ykkur um Ísland ef ég hefði sagt ykkur að í ferðinni væri ykkur boðið upp á sæti í óhreinu eldhúsi á litlum óþekktum sveitabæ og kaffi í brotnum bollum?“
Og maðurinn svaraði að bragði: „Ef þú hefðir minnst á þetta hefði ég kært þig fyrir Ferðamálaráði“!