Horfinn grundvöllur
Þennan dag fyrir tveimur árum síðan var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi, þar sem um 50% kjósenda tóku þátt og 2/3 þeirra kusu með tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá landsins.
Fyrir og eftir kosninguna var deilt um túlkun á fyrstu spurningunni, hvað það þýddi að Alþingi ætti að samþykkja nýja stjórnarskrá „á grundvelli frumvarps Stjórnlagaráðs“. Fyrir mér hefur alltaf verið augljóst að það þýddi nýja stjórnarskrá sem er eins og það frumvarp í meginatriðum en gæti tekið einhverjum lagfæringum í meðförum þingsins. Tilraunir til að toga þá merkingu lýstu fyrst og fremst örvæntingu.
Hversu vítt sem maður vill túlka það að leggja eitthvað til grundvallar, er hins vegar ljóst að þjóðin valdi að Alþingi skyldi samþykkja nýja stjórnarskrá með þeim hætti. Þau sem deildu á þýðinguna hafa hins vegar ekkert gert. Ein áfangaskýrsla stjórnlaganefndar, formaður hennar hefur sagt sig frá nefndinni og ekkert bólar á nýju stjórnarskránni sem þjóðin kaus.
Það er því alveg ljóst að þau hafa ekkert gert til að fylgja eftir niðurstöðu kosninganna. Þeim er skítsama um vilja kjósenda, hvernig sem þau túlka hann í eigin hugarheimi.
Þau eru okkar stjórnvöld – og þessi dagur minnir okkur á að þeim er sama um lýðræðið.
Til hamingju með afmælið, Íslendingar.