Ertu of sæt/ur? Prófaðu að sleppa sykrinum í tvær vikur!
Júlía Magnúsdóttir er heilsumarkþjálfi, markþjálfi og næringar- og lífsstílsráðgjafi og stofnandi Lifðu til fulls heilsumarkþjálfunnar. Lifðu til fulls hjálpar að sögn Júlíu konum og körlum að öðlast skýrleika í fæðuvali og að komast yfir orkuleysið svo að þau geti tileinkað sér lífsstíl í jafnvægi með lífsstílsbreytingum í stað megrunarkúra eða skyndilausna.
Við spurðum Júlíu hvað varð til þess að hún ákvað að leggja fyrir sig að leiðbeina öðrum til að ná betri heilsu.
„Heilsan fór að skipta mig miklu máli þegar ég fór að nálgast tvítugt en fram að því hafði ég glímt við ýmiskonar heilsukvilla, þar á meðal lært að lifa með iðraólgu og stöðuga liðverki. Þrátt fyrir að ég hreyfði mig svo 6 sinnum í viku var ég í stöðugri baráttu við aukakílóin og yfirleitt orkulaus. Ég reyndi hvað ég gat að borða fæðu sem ég taldi vera holla, en var oft ringluð með hvað ég ætti að vera borða og hvað ekki og glímdi mikið við sykurlöngun.“
Var það þín eigin reynsla sem varð til þess að þú ákvaðst að mennta þig á þessu sviði?
Já, það má segja það því ég fór að lesa mér til um heilsu og mismunandi fæðu og prófaði allt sem ég lærði á mér sjálfri. Ég fékk fljótt eftir brennandi áhuga á flestum málefnum tengt heilsu og ákvað því að mennta mig á þessu sviði. Í dag hef ég djúpa löngun til að segja öllum frá og láta gott af mér leiða. Vert er að minnast á að í dag glími ég ekki við neina af þeim kvillum sem hrjáðu mig á yngri árum.
Þú og samstarfsfólk þitt standið fyrir áskorun sem er að hefjast. Út á hvað gengur hún?
Við erum að bjóða uppá ókeypis “sykurlaus í 14 daga” áskorun sem hefst mánudaginn 27.október þar sem þáttakendur fá 5 sykurlausar uppskriftir sendar fyrir hvora viku fyrir sig ásamt innkaupalista fyrir þá viku, hollráð að sykurleysinu. Einnig er mikið um góða hvatningu á facebook síðu okkar.
Það er greinilegur hernaður gegn sykuráti þessa dagana enda allt best í hófi en áttu ráð handa þeim sem eru miklir sælkerar og geta ekki hugsað sér að lifa án sætinda?
Margir halda að fátt bragðist vel án sykurs en ég er sjálf mikill sælkeri og veit að við sækjumst öll í bragðgóðan mat og það er lykilatriði í uppskriftunum hjá mér að þær séu bragðgóðar og ljúffengar! Þess vegna finnst mér mikilvægt að hjálpa fólki að sjá að sykurleysi þýðir alls ekki við getum ekki borðað góðan mat og notið lífsins.
En hvernig slær maður á sykurlöngun?
Þegar ég skoðaði raunverulegu ástæðuna bakvið sykurlöngunina hjá mér gat ég loks sleppt sykri án þess að það væri mikið mál fyrir mig. Ég fann m.a. að rétt fitusamsetning, og vítamín eins og magnesíum og zink sem dæmi, vera lykilatriði þegar þurfti að slá á mína sykurlöngun og því eru uppskriftirnar í sykurlausu áskoruninni með lykilvítamínum og steinefnum sem hjálpa þér að komast af stað í sykurleysinu og finnast það lítið mál.
Hvers vegna að sleppa sykri?
Þegar ég fór að skoða hvað ég ásamt langflestum þeirra kvenna sem komu til mín í þjálfun glímdu við þegar fyrstu fótsporin í átt að betri heilsu voru tekin sá ég augljósan sökudólg í veginum en það var einmitt sykurinn! Yfirgreiningsrannsókn birt í British Medical Journal sýna að aukin neysla sykurs er beintengd við þyngdaraukningu. Þyngdin er oft það sem fólk hefur áhyggjur af en með minni sykurneyslu og því að sniðganga hann alveg fá margir bót annara meina.
Hefur sykurinn áhrif á fleira en þyngdina?
Ég komst að því með sjálfa mig að sykurinn hefur verið leiðandi orsök í liðverkjum mínum og hormónaójafnvægi og rannsóknir sýna fram á það sama. Margar rannsóknir og kannanir hafa einnig sýnt fram á að aukin neysla í sykri í aðeins litlu magni getur stórlega aukið líkur á sykursýki.
Sykur hefur einnig áhrif á prótín í líkamanum sem leiðir til fjöldann allann af heilsutengdum vandamálum.
Þið hafið áður staðið fyrir svona áskorun, hvernig heppnaðist það?
Við settum upp svona 14 daga sykurlausa áskorun í júní s.l. Sú áskorun fór framúr væntingum okkar og fengum við meiriháttar vitnisburð frá fólki sem var að léttast, losna við síþreytu og bara líða almennt miklu betur í daglega lífi.
Við ætlum að hefjum leikinn á ný og skora á Íslendinga að vera sykurlaus í 14 daga með okkur frá 27.okt n.k. með skráningu á www.lifdutilfulls.is/14-daga-sykurlaus. það er einfaldlega miklu skemmtilegra að sleppa sykri þegar þú ert með fólk í kringum þig til að hvetja þig áfram – þess vegna hafa margir verið á skora á vini, vinkonur og fjölskyldumeðlimi að taka áskoruninni með sér.