Ari Matthíasson tekinn á teppið!
Til hamingju með þjóðleikhússtjórastöðuna! Þú hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra um nokkurt skeið en tekur við embætti þjóðleikhússtjóra 1. janúar. Finnst þér nægilegur tími til stefnu eða hefði verið betra að hafa lengri tíma til að aðlagast nýju embætti?
Það er að sjálfsögðu alltaf best að hafa rúman tíma til undirbúnings enda er á þessum tíma yfirleitt búið að skipuleggja næsta leikár að miklu leyti. Þá má nefna að framleiðslutími í nýju íslensku verki, hvort sem um er að ræða nýtt frumsamið verk eða leikgerð, er gjarnan 18–24 mánuðir. Hitt er svo annað mál að nýr þjóðleikhússtjóri tekur ekki til starfa fyrr en 1. janúar og hefur því ekki heimild til að skuldbinda leikhúsið fyrr en þá og þarf jafnframt að skipuleggja sig innan fjárheimilda og rekstraráætlunar sem verið var að leggja lokahönd á. Vinna þessi mál með reyndu og frábæru starfsfólki Þjóðleikhússins.
Töluvert hefur verið kvartað yfir fjárskorti til reksturs þjóðleikhúss, hvar í reksturinn vantar helst fjármagn?
Þjóðleikhúsið er í sömu stöðu og flestar stofnanir ríkisins hvað varðar skertar fjárheimildir á undanförnum árum. Þannig hefur verið skorið niður um þriðjung á föstu verðlagi á örfáum árum. Þessi niðurskurður hefur gert leikhúsið viðkvæmara fyrir sveiflum í aðsókn. Á sama tíma hefur lítið verið gert í endurnýjun tækjabúnaðar og er Þjóðleikhúsið í því tilliti engan veginn sú höfuðstofnun íslensks leikhúss sem lög gera ráð fyrir. Við höfum samt gert okkar besta til þess að reka leikhúsið innan fjárheimilda og vera til fyrirmyndar um rekstur ríkisstofnunar. Áhorfendur hafa sjaldan verið fleiri og hlutfall sjálfaflafjár er hátt. Ég hef fulla trú á því að mennta- og menningarmálaráðherra muni standa þétt við bak Þjóðleikhússins og hann lét þannig það vera eitt sitt fyrsta embættisverk að heimsækja Þjóðleikhúsið og kynna sér starfsemina.
Við erum líka í mikilli samkeppni við mitt gamla leikhús, Borgarleikhúsið, þar sem ég starfaði í 10 ár, sem hefur notið stuðnings og verndar borgarinnar með auknum fjárveitingum á meðan skorið hefur verið niður gagnvart Þjóðleikhúsinu. Ég er alls ekki að segja að Borgarleikhúsið sé ofsælt af sínum stuðningi borgarinnar, ég er aðeins að benda á ákveðinn aðstöðumun þar sem annað leikhúsið er með gamlan búnað en hitt hefur stuðning til endurnýjunar í húsi sem er tvöfalt stærra með allan búnað nýjan.
Hvernig er sýn þín á hlutverk Þjóðleikhúss burtséð frá lögunum og hvaða áherslur muntu setja í starfi þínu sem þjóðleikhússtjóri?
Ég mun fylgja eftir góðum áherslum núverandi þjóðleikhússtjóra sem byggjast á lögum og reglum um starfsemina og árangursstjórnunarsamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þar á ég við áherslu á íslenska leikritun, að gæta jafnt að hlut karla og kvenna og setja upp vandaðar leiksýningar fyrir börn á hverju ári. Mig langar einnig til þess að færa leikhúsið nær landsbyggðinni og reyna að sinna henni betur. Mig langar til þess að fastráða einn til tvo leikstjóra að Þjóðleikhúsinu og einnig leikmynda- og búningahöfund. Með þessu munum við skapa stöðugleika og geta treyst böndin við leikarana með því að hugsa til lengri tíma. Þar á ég við að þegar leikara er ætlað að takast á við eitthvert meiri háttar hlutverk hafi hann tíma til undirbúnings og takist jafnvel á við tiltekin önnur hlutverk á leiðinni. Ég vil einnig auka samstarf við leikhús á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu og minni í því sambandi á að Íslendingar eiga þegar leikstjóra sem eru orðnir nógu stórir til að setja upp í stærstu leikhúsum. Þar liggja enn frekari tækifæri til þess að tengja íslenskt leikhús við það besta.
Hvernig getur leikhús eins og Þjóðleikhúsið best tryggt framtíð íslenskrar leikritunar? Verður haldið áfram á þeirri braut að sviðsetja leikgerðir eða á að leggja áherslu á ný leikrit?
Sú umræða sem snýr að því að skilja algerlega á milli leikgerða annars vegar og hins vegar nýrra leikrita er ekki heppileg. Að áhersla á annað útiloki hitt. Þessi umræða er t.d. ekki jafn fyrirferðarmikil þegar rætt er um kvikmyndir eða skáldsögur. Hefði þá átt að spyrja Halldór Laxness hvort hann ætlaði að leggja áherslu á að semja skáldsögur eða vera í heimildarsöguritun eins og í Heimsljósi eða Paradísarheimt? Var sýningin Englar alheimsins ómerkilegri af því að til grundvallar lá skáldsagan? Stutta svarið er auðvitað að mitt markmið er uppsetning frábærra leikverka byggðra á íslenskum veruleika og í samtali við íslenska áhorfendur, hvort sem þau verk teljist frumsamin að fullu leyti eða byggð á áðurútgefnum verkum.
Ég held að íslensk leikhús séu dugleg við að setja upp þau íslensk verk sem einhver von er að geti orðið að góðum sýningum. Jafnvel fleiri.
Hyggstu gera einhverjar gagngerar breytingar er varða starfsmannahald hvort sem er meðal sviðslistamanna eða þeirra sem vinna bak við tjöldin?
Það eru sífelldar breytingar í starfsmannahaldi Þjóðleikhússins sem ráðast fyrst og fremst af þeim verkefnum sem verið er að vinna. Ég held að fáar ef nokkur önnur ríkisstofnun geri hlutfallslega jafn marga ráðningarsamninga á hverju ári eins og Þjóðleikhúsið. Þjóðleikhúsið hefur hins vegar þurft að laga sig að skertum fjárheimildum með uppsögnum á undanförnum árum. Það hefur verið sársaukafullt fyrir það samfélag sem Þjóðleikhúsið er.
Á að halda áfram að skera niður, fækka fastráðnum leikurum?
Halda áfram, frá hvaða punkti þá? Það er talsverð hreyfing á leikurum milli húsa og færa þeir sig gjarnan til með tilliti til þeirra verkefna sem bjóðast á hverjum tíma. Þannig eru sumir leikarar ekki jafn bundnir ákveðnu leikhúsi og áður. Það er þeirra val um aukið listrænt frelsi á móti föstum tekjum. Hitt er svo annað að þegar 70% af rekstrarkostnaði eru laun og framlag er skorið niður þá er ekki fjármagn til þess að vera með jafn marga á launum og áður. Það liggur í hlutarins eðli. Ég kannast hins vegar ekki við að skornir hafi verið niður fastráðnir leikarar þótt það hafi orðið breyting á samsetningi hópsins. Ég held að fjöldi fastráðinna leikara geti tæplega verið minni en nú er ef tryggja á stöðugleika. Því er stutta svarið að ekki verði fækkað fastráðnum leikurum í Þjóðleikhúsinu.
Mun áfram verða öflugt samstarf við leikhópa og minni leikhús?
Þjóðleikhúsið hefur verið duglegt að styðja við leikhópa og minni leikhús á undanförnum árum og verið með samstarfsverkefni og hýst leik- og danslistarhátíðir og mun gera svo áfram. Þannig munum við hlusta á grasrótina án þess að fá orma í eyrun.
Hversu mikilvægt er í þínum huga að flytja inn erlenda listamenn svo sem eins og hönnuði, leikstjóra og danshöfunda?
Það er mjög mikilvægt fyrir Þjóðleikhús Íslendinga að flytja inn erlenda listræna stjórnendur. Þetta hefur verið gert á undanförnum árum með frábærum árangri og þessir listamenn hafa breytt íslensku leikhúsi til frambúðar, hver á sinn hátt. Ég nefni Rimas Tuminas, Benedict Andrews, Kaisu Korhonen og Stefan Metz. Með þeim kemur annar skóli og önnur sýn og aðferð og okkar listamenn tileinka sér það besta frá þeim og henda hinu. Þannig þróast listin áfram.
Ætlarðu að efla lýðræðið innanhúss með auknum áhrifum annarra listamanna á stefnu hússins?
Ég mun reyna í störfum mínum að hlusta sem mest á listamenn leikhússins og gera þá þannig meðeigendur að listrænni stefnu. Það mun auka sátt um starfsemina og tryggð listamanna við húsið.
Þarf að virkja áhorfendur að sama skapi?
Ef meta á hvar sóknarfæri Þjóðleikhússins til framtíðar geta legið gagnvart áhorfendum er nauðsynlegt að líta til markaðskannana til þess að skilja væntingar núverandi gesta og sjá hvort sóknarfæri liggi í óuppfylltum þörfum.
Almennt má segja að tryggustu gestir leikhúsa sé betur menntað fólk eldra en 50 ára og meðal þeirra sem fara oftast í leikhús eru konur í meirihluta. Þetta teljast því tryggustu gestir Þjóðleikhússins. Sóknarfærin liggja meðal yngri, meðal karla og þeirra sem hafa minni menntun og búa utan höfuðborgarinnar.
Muntu klæðast jakkafötum í starfi þínu sem þjóðleikhússtjóri?
Ég þekki mikilvægi þess að vera í réttum búningi sem hæfir hlutverkinu. Ég mun alla vega ekki vera í kjól.
Ætlarðu að taka að þér hlutverk eða leikstýra meðan þú gegnir stöðu leikhússtjóra?
Starf þjóðleikhússtjóra er mikið starf og það mun ekki gefast tími til þess að leika eða leikstýra enda efast ég um að mikil eftirspurn sé eftir mér. Þar eru miklu betri listamenn á undan mér í röðinni.
Ertu ekki byltingarsinni, Ari? Muntu ekki velta við steinum og gera eitthvað alveg nýtt og vogað í starfi þínu? Þarf ekki Þjóðleikhúsið á því að halda?
Ég vona að einhver spor sjáist eftir mig. Það verður hins vegar engin bylting. Þjóðleikhúsið er miklu stærra en ég og er niðurstaða allra listamannanna sem þar starfa og hafa starfað. Ég mun hins vegar veita öllum góðum hugmyndum framgang og við verðum að þora að taka áhættu og prófa eitthvað nýtt. Hluti af því er að þora að mistakast og geta lært af því. Ég vona að ég mig skorti ekki áræði og þor til að gera eitthvað nýtt. Mikilvægt er samt að muna að hagur Þjóðleikhússins er fyrir öllu.
Hverjir eru þín eftirlætisleikskáld?
Ég hef alltaf verið óskaplega hrifinn af Pinter og Tjekov. Laxness er líka minn maður og hann taldi skáldsögur sínar vel fallnar til þess að vera leiknar. Ég er líka hrifinn af Jökli Jakobssyni og lék einu sinni í verki eftir hann og skrifaði um annað í bókmenntafræðinni. Og það eru auðvitað margir fleiri. En Pinter og Tjekov eru búnir að vera í uppáhaldi lengi.
Hvaða erlenda leikhúsi ertu hrifnastur af?
Ég hef séð leikhús í mörgum löndum og á mörgum tungumálum. Einu sinni var það finnskt og nú kannski þýskt. Ég er fyrst og fremst hrifinn þegar ég sé frábæra leikara leika í frábærum leikritum.