FARÐU BURT: Málþing um málefni flóttamanna í Iðnó á sunnudaginn
Sunnudaginn 23. nóvember efna Menningar og friðarsamtök íslenskra kvenna til málþings um málefni flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þingið verður haldið í Vonarstræti, í stóra sal Iðnó. Málþingið verður milli 10 og 17 en gestum er frjálst að sækja einungis hluta málþings ef svo ber undir. Engin skráning er nauðsynleg og enginn aðgangseyrir er að ráðstefnunni.
Í fréttatilkynningu MFÍK segir:
„Á málþinginu verða málefni flóttamanna rædd á breiðum grundvelli með fjölda áhugaverðra erinda um stöðu flóttamanna á Íslandi. Meðal annars verður daglegt líf flóttamanna og viðhorf þeirra jafnt sem Íslendinga til veru þeirra hér á landi sett í nýtt samhengi. Mælendur munu einbeita sér að tillögum að bættri framkomu við flóttamenn en fremsta krafan þar á meðal er að sjálfsögðu að stjórnvöld hætti tafarlaust að brjóta á mannréttindum þeirra. Fyrst og fremst er málþinginu ætlað að upplýsa þátttakendur betur um heim flóttamanna á Íslandi og vinna sameiginlega að bættum réttindum þeirra hérlendis.
Oft var nauðsyn en nú er þörf að rýna rækilega í framkomu íslensku þjóðarinnar við þau sem sækja hér um alþjóðlega vernd gegn ofsóknum. Nú er tíminn til þess að ræða af fullri alvöru og einlægni hvernig betur megi standa að mannúðarhjálp Íslendinga. Framkoma stjórnvalda gegn flóttamönnum verður vitanlega í brennidepli: Stjórnvöld – sem fræða ættu Íslendinga um margþætta, fjölbreytilega og flókna stöðu flóttafólks á Íslandi og víðar – hafa þess í stað gerst sek um ítrekaðar lygar og dylgjur í þeirra garð.
Íslenska ríkið ber ábyrgð á fagmannlegri og mannúðlegri móttöku flóttamanna á Íslandi. Ríkinu ber skylda til þess að stuðla að almennri i fræðslu og opinni umræðu um málefni flóttafólks til þess að sporna gegn fordómum gegn þeim sem þarfnast alþjóðlegrar verndar. Því miður hafa stjórnvöld almennt kosið aðra leið. Ábyrgðin verður því okkar, íslensku þjóðarinnar, að taka afstöðu gegn mannréttindabrotum og fordómum yfirvalda sem starfa í okkar umboði.
Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í samtal um hvernig við tökum betur á móti gestum okkar hér á Fróni. Ekki láta ykkur vanta á sunnudaginn til þess að fræðast og ræða um líf og stöðu flóttamanna á Íslandi í dag í fordómasnauðu og uppbyggjandi umhverfi. Fjölmennum til þess að sýna flóttamönnum á Íslandi samstöðu gegn stjórnvöldum sem virðast harðákveðin í því að vísa þeim sem flestum úr landi með öllum ráðum.“
Fylgist með viðburðinum á Facebook.
—
Dagskrá málþingsins verður eftirfarandi:
10:00‐ 10:15 Húsið opnað, afhending ráðstefnurits
10:15‐10:35 Setningarræða. Ábyrgð þjóðar: tvískinnungur mannúðaraðstoðar Íslendinga – Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, mannréttindalögfræðingur, formaður MFÍK.
Yfirvöld og flóttafólk
10:35‐10:55 Í þágu hvers er réttindagæsla hælisumsækjenda? – Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur.
10:55‐11:15 Lok, lok og læs. Stefna stjórnvalda í málefnum flóttamanna og annarra útlendinga sem æskja dvalar á Íslandi – Eiríkur Bergmann, prófessor.
11:15‐11:30 Kaffihlé
Flóttafólk og daglegt líf
11:30‐11:50 Hví ofsækir þú mig? – Toshiki Toma, prestur innflytjenda.
11:50‐12:10 Foreldri án landamæra – Chris Bas, faðir ríkisfangslausrar stúlku.
12:10‐12:30 Áshildur Linnet, verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum.
12:30-13:30 Hádegishlé
Flóttafólk og fjölmiðlar
13:30-13:50 Að vera ‘hinir’ í fjölmiðlum – Paul Fontaine, blaðamaður.
13:50-14:10 Flóttafólk sem afleiðing stríðsreksturs – Fatima Hossaini.
14:10-14:30 „Ólöglegir innflytjendur“ – að aftengja hugmyndafræðilegan orðaforða – Haukur Már Helgason, blaðamaður.
14:30‐14:40 Kaffihlé
Framtíðarsýn
14:40-15:00 Handan landamæranna. Vangaveltur um baráttu gegn landamærum – Haukur Hilmarsson, No Borders-Iceland.
15:00-15:20 Mannúðarfátækt Evrópu – Benjamin Julian, Ekki fleiri brottvísanir.
15:20-15:40 Þú braust lögin – Navid Nouri, ríkisfangslaus flóttamaður.
15:40‐16:00 Kaffihlé
16:00‐17:00 Pallborð.
17:00 Ráðstefnuslit – Kaffihúsið er opið frá kl. 10:00 til 18:00
Mynd: Ari Hlynur Guðmundsson