Lærðu að gera vegan hátíðarmat á Gló!
Jólamaturinn þarf ekki endilega að samanstanda af offramboði af kjötvörum með smá grænmeti á kantinum. Hátíðarmatinn má einnig framleiða úr grænmetisfæði á vegan vísu en áhugasömum um slíka matseld er bent á vinnustofu Gló kokksins Linneu Hellström sem mun miðla þekkingu sinni á Seitan vegan hátíðarmat á morgun milli 6 og 9 í Gló, Fákafeni.
Áhugasamir um vegan fæði fá þarna frábært tækifæri til þess að fræðast um og gæða sér á vegan hátíðarmat. Áhugi Linneu á vegan mat kviknaði í heimalandi hennar Svíþjóð fyrir áratug síðan en hún hefur komið víða við á ferlinum og meðal annars unnið með fjölda hæfileikaríkra vegan kokka í Svíþjóð, á Spáni, í Bandaríkjunum og í Mexíkó og nú síðast með Sollu í Gló.
Pönkari og vegankokkur
Vegan eldamennska er þó ekki eina ástríða Linneu en hún og kærastinn hennar, Krummi Björgvinsson, mynda rafpönktvíeykið Döpur, sem treður upp á Gauknum næstkomandi laugardag. Það er því í nógu að snúast fyrir Linneu fyrir hátíðirnar en tónleikahald mun ekki standa í vegi fyrir undirbúningi á veglegum vegan kræsingum fyrir vinnustofuna ásamt ýmsum óvæntum glaðningum.
Á vinnustofunni mun Linnea miðla uppskrift og leiðbeiningum að fylltri Seitan steik með sósu og meðlæti. Þáttakendur fá síðan að gæða sér á steikinni ásamt vegan eggjapúns og alls kyns snarli. Linnea segir megintilgang vinnustofunnar að leiða saman áhugafólk um vegan matarræði og að deila með þeim víðtækri þekkingu sinni á slíkri eldamennsku. Einnig sér hún fyrir sér að þáttakendur vinni saman að hugmyndum fyrir fleiri viðburði sem þessa sem hún myndi í framhaldinu skipuleggja á vegum Gló.
Matur ásamt vinnustofu kostar 2000 krónur og þeir sem vilja taka þátt eru beiðnir um að senda einkaskilaboð á Linneu Hellström á Facebook. Aðeins verður matur fyrir allt að 25 þáttakendur en þó eru allir velkomnir til þess að mæta og taka þátt í umræðum, fræðast um uppskriftina og bragða á vegan (ekki)eggjapúnsi sér að kostnaðarlausu.
Viðburðin má skoða nánar hér.