Í Herrans nafni og fjörutíu…
Lífið er ekki einfalt, svarthvítt, klippt og skorið.
Margir þeirra sem nú gala hæst um stuðning sinn við ótakmarkað tjáningarfrelsi og ótakmarkað trúfrelsi ásamt með leyfi til að gera grín að öllum hlutum í Frakklandi vilja takmarkað frelsi í sínum eigin heimahögum.
Þeir vilja að innflytjendur aðlagi sig fljótt og vel að siðum og menningu heimaþjóðarinnar og stundi sitt hrossaketsát fyrir luktum dyrum og séu þakklátir fyrir að hafa það heldur skárra í nýja landinu en í því ástandi sem þeir eru að flýja.
Þeir vilja líka að innflytjendur séu eldsnöggir að læra tungumál heimaþjóðarinnar og eðlilegt sé að takmarka réttindi þeirra í nýja landinu í samræmi við hvernig þeim sækist tungumálanámið. Börn innflytjenda eiga að vera þakklát fyrir nýtt líf og ný tækifæri í nýju landi og hafa skilning á því að innflytjendur skuli búa hópum saman í fátækrahverfum og félagslegu húsnæði og gera sér að góðu tilfallandi störf við ræstingar, eldamennsku, þjónustustörf eða svarta vinnu við bílaviðgerðir eða byggingavinnu.
Þeir vilja að aðlögun innflytjenda að fjölmenningarsamfélagi felist í því að leggja menningu og siði heimalandsins til hliðar og taka upp nýja menningu.
Allt þetta á ég bágt með að skilja ekki síst eftir að hafa heimsótt Íslendingabyggðir í Kanada þar sem ég hitti glæsilegt fólk, sumt af fimmtu kynslóð innflytjenda, sem talaði fallega íslensku, kunni vísur eftir Káin og fékk sér þjóðmenningarlega randalín eftir uppskrift frá Gamla landinu með kaffinu.
Munurinn á þeim afkomendum innflytjenda sem ég sá í Kanada og þeim innflytjendum sem ég hef stundum séð í erlendum borgum var að í nýja landinu höfðu innflytjendurnir fengið þau tækifæri sem þeir þurftu til þess að geta brotist úr þeirri fátækt sem þeir voru að flýja til bjargálna og sumir gott betur en það.
Skortur á tækifærum í nýja landinu, öðru nafni fátækt og mismunun– að vera ekki velkominn til annars en að þrífa klósett eða keyra út pizzur, að vera „annars flokks borgarar“ – er það sem veldur óánægju, beiskju og hatri.
Og þar sem fátækt, óánægja, beiskja og hatur er til staðar ríkir eldfimt ástand þarf ekki nema tylliástæðu til að uppreisn eða bylting brjótist út með tilheyrandi ofbeldisverkum af hálfu þeirra sem telja að ekki sé á þá hlustað.
Að þessu sögðu bið ég góðfúsa lesendur að rangtúlka ekki samúð mína með þeim sem telja sig bera skarðan hlut frá borði. Ég hef enga skoðun á því hvort ein trúarbrögð séu öðrum betri eða hvort öll trú sé bara hindurvitni og hjátrú. Ég hef bara þá skoðun að fátækt stafi af óréttlátri skiptingu þessa heims gæða og að fátækt annars vegar og takmarkalaus græðgi hins vegar séu nær undantekningarlaust undirrót ofbeldis í veröldinni.