Aðgerðir lögreglu gegn svörtum mörkuðum á Facebook
Höfundur vill ekki láta nafns síns getið.
Lögreglan ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í heilögu stríði sínu gegn vímuefnanotkun og sölu. Í einni af fréttum Vísis var viðtal við yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, varðandi aðgerðir lögreglu gegn heldur vanþróuðum svarta markaði með vímuefni á Facebook. Í aðgerðum sem beinast gegn 70 slíkum hópum sem telja fleiri þúsund meðlimi, segist lögregla vera búin að telja 500 notandanöfn sem bjóða vímuefni til sölu. Það er tekið fram að á bak við marga af þessum söluprófílum séu fleiri en einn einstaklingur í samstarfi. Rannsóknarvinna hefur staðið yfir í mánuð.
Hvorki meira né minna en 11 einstaklingar hafa verið handteknir, en engu að síður segir viðmælandinn að þeim hafi tekist að bera kennsl á 160 notendur, það er ekki alveg skýrt í fréttinni hvort það séu bæði áhangendur þessara hópa sem og sölumenn eða bara annað hvort. Það virðist vera að fréttamanninum sé annt um að gera mörkuðunum upp annarleik og notar orð eins og alsæla þegar hann á við e-töflur og læknadóp þegar hann talar um lyfseðilsskyld lyf, það síðarnefnda er beinlínis móðgun við þá sem þurfa að nota þau. Þá eru hóparnir sagðir skipulagðir eins og það segi sig ekki sjálft að það sé skipulagt þegar einstaklingar opni útibú fyrir vímuefnasölu á netinu eða annars staðar.
Öllum þessum 11 einstaklingum hefur verið sleppt og teljast málin upplýst. Varla er starfsemin svo vel skipulögð að ekki var hægt að koma meira höggi á þessa einstaklinga en svo? Aftur er óskýrt, eða öllu heldur ekki sagt frá, hve lengi þessum einstaklingum var haldið. Það skiptir miklu máli hvort einhverjum er haldið í tvær klukkustundir, sólarhring eða viku, þegar talað er um fjöldahandtökur á síðastliðnum vikum, þetta er annmarki á fréttinni. Það er ekki einu sinni sagt hvort gefnar verði út ákærur á þetta fólk og fyrir hvað.
Mestar áhyggjur hefur lögreglan af börnum og unglingum, þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort að þetta séu barnaverndarmál? Ef þetta er ein forsendan fyrir að ráðist sé í þessar aðgerðir er rétt að athuga hvort barnavernd sé aðili að þessum aðgerðum og hve mörg brot beinist gegn börnum.
Til stendur að halda aðgerðum gegn svörtum mörkuðum á Facebook áfram. Þrátt fyrir að það sé nokkuð augljóst að þetta hafi ekkert upp á sig, og ef þetta gengi upp, hvað á að gera við nokkur þúsund manns sem eru þarna? Hvað hefði það upp á sig ef við gefum okkur að lögreglan gæti farið í einni ferð og handtekið allt þetta fólk?
Hve margir myndu til dæmis eiga nógu stór brot til að hljóta dóm? Hve margir færu aftur heim til sín í mesta lagi nokkrum klukkutímum síðar, eða færu yfir höfuð niður á stöð, og yrðu komnir aftur á netið viku eða mánuð síðar á 70 nýjar vefsíður, endurbættar, líklega mun öruggari eftir fyrri mistök. Flestir er mín ágiskun, og þá eru stærri spurningar, á að fara að handtaka nokkur hundruð/þúsund manns daglega? Er yfir höfuð til mannskapur í það? Tími? Pláss? Tilgangur? Fjármagn? Stæðist kerfið álagið?
Svarið er nei, lögreglan er með málflutning sinn í sjálfheldu núna, þar sem það er augljóst að það gengur ekki einu sinni upp að uppræta þessa starfsemi þótt vilji sé fyrir hendi og allir teknir í einu. Brotin í þættinum sem snúa að vímuefnum og lyfjum eru í flestum tilvikum einfaldlega ekki nógu alvarleg og lögregla of fámenn til að hægt sé að koma í veg fyrir þau með ofsóknum og handtökum.
Ástæðan fyrir að það er ráðist í þessar aðgerðir er sennilega sú að það þurfti að gera eitthvað „róttækt“ til að viðhalda blekkingarleiknum sem stríð gegn vímuefnum er vegna fjölda ábendinga í sambandi við þessa hópa, tilgangurinn er ekki að uppræta þá heldur að sýna vald.
Þeir sem halda að stríðið gegn vímuefnum sé að skila einhverju í gegn um valdbeitingu ættu að fylgjast vel með því hvort hægt sé að láta svona þvælu eins og að reyna að uppræta vímuefnasölu á netinu ganga upp. Völvan í mér segir að það muni ekki sjá högg á vatni. Lögreglan fékk í hendurnar öskju Pandóru og opnuðu hana gjörsamlega upp á gátt, þar sem þau geta ekki einu sinni sýnt árangur þegar kemur að afmörkuðum hlutum stríðsins, í þessu tilfelli sölu á netinu og föttuðu eflaust ekki að það er í beinni útsendingu fyrir alla sem sjá vilja.
Markaðurinn mun þróast, salan aukast og fleiri koma til með að nota þjónustuna þar sem lögregla er gjörsamlega vanmáttug gagnvart sölu á netinu nema hún fengi auknar heimildir á kostnað samfélagsins, jafnvel þá er enn nokkuð öruggt að kaupa þótt salan þarfnist meiri skipulagningar. Það eru ansi margir til í leggja á sig fyrir margra milljóna króna markað og gera lítilræði eins og nota einfalda „plug and play“ dulkóðunartækni líkt og erlendir kollegar þeirra gera. Árangurs og tilgangsleysi fíknó á þessum afmarkaða kafla stríðsins kemur brátt með skelli svo undir tekur í fjöllunum.