Sumar í glasi og perlað fyrir Nepal
Það hefur farið mjög lítið fyrir bakstri hjá mér síðustu tvær vikur. Hvað hefur kona verið að gera? Jú hún er búin að vera perla slaufur. Lítið verkefni sem 5 ára dóttir mín Emma Sigrún startaði til að láta gott af sér leiða og reyna safna nokkrum 1000 köllum fyrir UNICEF í Nepal er orðið að stóru fyrirtæki þar sem hún hefur náð að safna meira en 80.000kr og slaufurnar sem hún er búin að selja komnar yfir 110stk.
Um 17.000 perlur hafa farið í þetta verkefni og ófáir tímar. En það sakar ekki. Við mæðgur eigum yndislega stund saman á hverjum degi þar sem við sitjum saman og perlum. Annað hvort hlustum við á íslenska tónlist og syngjum hátt með eða við spjöllum bara um allt milli himins og jarðar. Einnig hefur hún verið að virkja bræður sína í þessu verkefni og Alexander Gauti spurði í gær hvort systir hans vildi ráða hann í vinnu. 🙂
En þegar maður er upptekin að perla allan daginn og sólin farin að skína hátt þá er hér einn af uppáhalds drykkjum barna minna. Sumar í glasi. Ég mæli algjörlega með þessum drykk
Sumar í glasi:
1 dós kókosmjólk, 400ml
10 frosin jarðarber
10 dropar jaðrarberja stevía eða bragðlaus stevía
2 msk Sukrin Melis
Setjið allt í blandara og maukið þar til silkimjúkt. Gott er að setja nokkur frosin jarðarber ofan í og nota sem klaka. Börnunum mínum finnst gott að borða hálf frosin jarðarber. Skiptið út jarðarberjum fyrir bláber eða hindber eða jafnvel blandið öllu saman 🙂