Miss Iceland
Annað hvert ár pakkar elskulegur eiginmaður minn nokkrum sokkapörum í tösku og drífur sig til útlanda og tekur mig með. Tilgangurinn er einvörðungu sá að fá að sofa í friði frá barnafullu rúmi og þurfa hvorki að vaska upp né elda í nokkra daga.
Áfangastaðirnir skipa okkur litlu máli svo framarlega sem ofangreind skilyrði eru uppfyllt. Núna í vor drifum við okkur til Krítar. Þegar hann tilkynnti mér hvert hann ætlaði að æða með mig spurði ég hann hvort hann væri bilaður að ana með rauðhærða næpuhvíta mig í steikjandi miðjarðarhafssólina, hvort hann hlakkaði til að sænga hjá brunnu beikoni.
Mér var sagt að hætta að væla og pakka sundfötunum og sólarvörn, sem og ég gerði næstum því steinþegjandi og hljóðalaust. Elskuleg yngsta systir mín, vopnuð róandi og geðprýðinni, flutti inn á heimili okkar til þess að sjá um fjöruga piltana.
Krít reyndist hin ágætasta og lét ég gamlan draum rætast og skellti mér í köfun. Var ég ekki lengi að sannfæra nokkra bráðskemmtilega ferðafélaga mína um að þetta væri eitt af því sem alls ekki mætti missa af og áður en köfunarfyrirtækið vissi af var ég búin að fylla bátinn af óðum Íslendingum.
Þegar við mættum á staðinn var búið að selja síðasta plássið um borð. Kaupandinn var stressaður Þjóðverji sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hópurinn mætti. Sultaður og niðursoðinn kafarakennari að nafni Artemis kom á staðinn og byrjaði að útdeila búningum fyrir ferðina.
„Hver er stærðin þín fröken,“ spurði hann. „XXXX og þrjár hauskúpur,“ svaraði ég „ég gleymdi nefnilega að fara í megrun sjáðu til.“
Vandræðalegur skokkaði hann inn í skúrinn og sótti stærsta búninginn sem hann átti og það tók töluvert á að troða sér í hann.
Þegar ég og allir vorum sveitt og sátt og allar beikonrúllupylsurnar á mér komnar á sinn stað í búningnum brunuðum við til hafs. Leiðbeinandinn stoppaði við strönd eyjunnar Agioi Theodoroi undan ströndum Platanias og í koppnum tók við ítarleg kennsla um hvað mátti og mátti ekki í köfun. Ekki reyna að anda án súrefnisslöngunnar og alls ekki stofna köfunarfyrirtæki eftir að heim er komið. Þar fór sá draumur.
Að lokum lagði hann til að hann myndi bara kafa með tveim í einu. Þá snéri Þjóðverjinn sér að mér og spurði mig hvort ég væri ekki til í að vera köfunarfélagi hans. Ég hélt það nú. Þegar búið var að húrra okkur útbyrðis skipaði leiðbeinandinn okkur að haldast í hendur og þarna stóðum við í flæðarmálinu með köfunargrímur og kúta og ríghéldum í hvort annað meðan eiginmaðurinn tók af okkur myndir.
Það er furðulegt að fara í rómantískt sumarfrí með eiginmanninum og enda svo bara í hálfgerðum faðmlögum við þýskan tölvunarfræðing frá Munchen sem kallaði mig ítrekað Miss Iceland þar sem hann mundi ekki nafnið mitt. Köfunin reyndist bráðskemmtileg og þar var einmitt þessi mynd tekin af mér sem var sú besta sem tekin var í þessu fríi.
En hvað með það. Það er ekki bara toppurinn að sóða út hótelherbergi (róleg ég tipsaði þernurnar vel), reykja sígarettur óáreittur á svölunum og flakka á milli 12 þýskra sjónvarpsstöðva með nokkrum tyrkneskum og pólskum í bland meðan maður liggur á betri brókinni í fjöldaþvegnu líni úr Krítversku þvottahúsi.
Að fara út að borða er hápunktur hvers kvölds hjá okkur hjónum. Að vera ekki tuðandi, skammandi og grípa í hálsmálið á piltum sem hlaupa iðulega frá borði til þess að gera til bölvunar á meðan bjúgun kólna er hreinn unaður og hreinlega stórlega vanmetið.
Á hverju kvöldi spilar maður rússneska rúllettu með meltingarfærin á sér og borðar allrahanda kjötmeti, kökur, ís og skolar þessu öllu niður með öli eða víni. Í góðra vina hópi var etið og drukkið og nánast undantekningalaust stóðst allt væntingar og meira til. Þó var ein undantekning á.
Á heitu mánudagskveldi þræddum við þrönga götu upp á hæð og stoppuðum við veitingastað sem leit svo sem ágætlega út. Vertinn, sveittur á efrivör og enni bauð okkur stimamjúkur sæti og tilkynnti okkur að allt hráefni væri komið af hans eigin bóndabýli og allt eins ferskt og fallegt og það gæti orðið.
Úr varð að flestir fengu sér kjötskanka en einhverjir fisk. Sveitti maðurinn bar skankana á boðið og það var eins og við manninn mælt. Vinkona mín á hægri hönd lyktaði af holdinu, fitjaði upp á nefið, ýtti við disknum og tilkynnti að þetta yrði ekki étið. Eitthvað kroppuðu piltarnir í þetta en niðurstaðan var sú að maturinn var óætur.
Ekki leist vertinum á lystarleysi konunnar og fór að spyrja hana um eitt og annað, hvað henni gæti hugnast en hún sagðist enga lyst hafa lengur. Að lokum sagði einhver við borðið að hún vildi bara Íslenskan fisk og hljóp vertinn við fót inn í eldhús meðan gestir reyndu að naga sig í gengum eftirréttinn. Eftir skamma stund kom hann með þetta:
Nú var minni nóg boðið og lét sig hverfa frá borði. Vertinn varð enn meira miður sín og núna fengum við alla sorgarsöguna um allar hans dætur, hvað þær væru þurftafrekar og dýrar í rekstri. Við vorum mætt í Grískan harmleik eins og hann gerist bestur meðan við reyndum að sippa í okkur bjórinn.
Allt í einu kemur kokkurinn fram með eitthvað djúpsteikt og slímugt handa vinkonu minni og sessunautur minn á vinstri hönd verður ansi stóreygur og segir: „látið þetta hverfa áður en hún sér til“.
En ekki var djúpsteikti rétturinn til að toppa hryllingsþríleikinn heldur var það kokkurinn sjálfur sem var einkennileg blanda af Super Mario og Ron Jeremy í ódýrum klossum. Svuntan eins og einhver hafi fengið frussuskitu á hana og skeggið skítugt.
Borðfélagarnir sátu slegnir um stund en svo var restin af matnum afþakkaður, Raki þegið (þjóðardrykkur á Krít, smakkast eins og vondur landi) og við létum okkur hverfa.
Nokkrum dögum seinna sátum við á kaffihúsi þegar við sáum Super Mario æða út úr banka hinu megin við götuna, snara sér inn í eldgamla og beyglaða Nissan King Cab, bakka á fullu á grindverk, reka í gír og vinka okkur kampakátur. Hressir þessir Krítverjar.
Í heildina var þetta stórskemmtilegt allt. Ég vil samt koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Sumt sem gerist á Krít á að verða eftir á Krít og þeir sem tóku myndband af mér syngja „Someone like you“ með Adele á karókíbarnum á horninu eftir smá Raki-neyslu eru vinsamlega beðin um að eyða þeim, eða í að minnsta ekki draga þau fram þegar ég sæki um seðlabankastjórastöðuna. Ókei?