Þegar ég rauf þögnina
Það versta sem kom fyrir mig var ekki að vera misnotuð þótt það væri nógu slæmt, heldur það sem gerðist þegar ég sagði frá. Eftir á að hyggja hefði ég átt að tala við ömmu, barnaverndarnefnd eða sálfræðing og biðja um ráð því ég hefði mátt vita að mamma réði ekki við þessar upplýsingar. Á þessum tíma var ekkert farið að tala um að skila skömminni. Ég sagði bara frá af því mér fannst ég verða að stoppa hann. Það hafði margt vont í för með sér en ekkert gott fyrir mig. Ég fann ekki fyrir neinni valdeflingu en hinsvegar mikilli sorg. Ég hugga mig við það að kannski hefur það bjargað einhverju öðru barni frá honum.
Mamma trompaðist. Fyrstu viðbrögðin voru þau að biðja mig að fara til geðlæknis. Þegar ég féllst ekki á að ég gæti verið að ímynda mér þetta yfirheyrði hún mig um öll smáatriðin. Því miður sagði ég henni allt sem hún vildi heyra og það varð til þess að hún tapaði sér gjörsamlega. Hún kallaði mig lygara, gæs og mellu, ég var orðin gerandinn í málinu en um leið sagðist hún ekki trúa að neitt hefði gerst. Hún klippti á samband mitt við yngri systkinin í mörg ár, samt hafði hún margsinnis lýst yfir ógeði á barnaníðingum og fullyrt að hún myndi alltaf trúa barni sem segði frá. Kannski átti hún bara við lítið, grátandi barn, ég var orðin fullorðin þegar þetta var.
Það trúðu mér allir í raun þótt þau slitu ekki sambandi við hann, allavega nógu vel til þess að hann hefur ekki verið beðinn um að passa fleiri börn.
Ég var svo heppin að eldri systir mín og amma tóku ekki þátt í að einangra mig, það varð þegjandi samkomulag á milli okkar að ræða þetta aldrei. Pabba hitti ég aðeins heima hjá systur minni. Þau halda líka sambandi við gerandann en hann hringir samt í mig á nokkurra ára fresti og skammar mig fyrir að eyðileggja líf sitt. Það trúðu mér nefnilega allir í raun þótt þau slitu ekki sambandi við hann, allavega nógu vel til þess að hann hefur ekki verið beðinn um að passa fleiri börn. Ég skammast mín ekki fyrir að eyðileggja líf hans, hann sá um það sjálfur, en sjálfrar mín vegna og margra annarra vildi ég að ég hefði fundið betri leið til að stoppa hann.
Ég hataði mömmu lengi vegna þess hvernig hún kom fram við mig og ég er ekki viss um að ég geti nokkurntíma fyrirgefið henni að fullu. Samt skil ég að ástæðan fyrir því að hún brást svona við var sú þetta var of ljótt til þess að hún höndlaði það og hún fór í rosalega afneitun enda var hún meðvirk fyrir.
Yngri systkini mín höfðu samband við mig þegar þau urðu nógu gömul til að standa gegn mömmu en þau tala heldur ekki um þetta. Ég hef engan áhuga á að rjúfa þá þögn því hvað ættu þau eiginlega að gera við meiri upplýsingar? Þeim þykir vænt um frænda sinn og ég sé ekki ástæðu til að særa þau frekar. Mér þótti líka vænt um hann þar til hann neitaði þessu og horfði upp á mig missa fjölskylduna.

Í skáldsögunni Lolitu eftir Vladimir Nabokov reynir sögumaður að réttlæta kynferðislegan áhuga sinn á 13 ára stelpu með því að hún hafi sýnt tælandi framkomu
Það fer frekar illa með dómgreind unglings að búa við alkóhólisma, ofbeldi og kynferðislega misnotkun. Hann meiddi mig aldrei og ég hugsaði um þetta sem leynilegt ástarsamband en þegar ég komin út úr því sjúka samskiptamunstri sem var í gangi á heimilinu áttaði ég mig á því að maður sem stofnar til „ástarsambands“ við ókynþroska frænku sína, sem hann átti að vera að passa, er alveg eins líklegur til að verða „ástfanginn“ af fleiri börnum.
Ég kenndi sjálfri mér um. Misnotuð börn sýna stundum kynferðislega hegðun og ég kannast alveg við að hafa leitað á hann að fyrra bragði þegar ég var 14-15 ára og stóð í þeirri trú að væri í ástarsambandi við fullorðinn frænda minn enda var hann alveg duglegur að minna mig á að ég hefði beðið um þetta sjálf. En þegar mér tókst að brjótast út úr þessu fór ég að hugsa þetta öðruvísi. Það ekki ég sem byrjaði, þegar ég var 10 ára og hann strauk brjóstin á mér og þrýsti mér að sér svo ég fann eitthvað hart við lærið, og þótt ég hafi einhverntíma átt frumkvæðið var það fullorðni maðurinn sem átti að stöðva þetta en ekki barnið sem hann káfaði á þegar hann átti að vera að passa.
Mér finnst bara öðrum ekki koma þetta við og mig langar ekkert að særa fólk sem mér þykir vænt um.
Ég upplifi umræðuna núna eins og hálfgerða múgsefjun. Mikið er rætt um nauðsyn þess að rjúfa þögnina og þær sem gera það fá hrós fyrir hugrekkið. Ég vil ekki gefa upp nafn en það er ekki af því að mig skorti hugrekki eða að ég lifi í skömminni. Ég þarf ekkert að auglýsa það að ég hafi lent í misnotkun til að komast yfir skömmina, ég komst yfir hana um leið og ég fékk smá fjarlægð á þetta. Mér finnst bara öðrum ekki koma þetta við og mig langar ekkert að særa fólk sem mér þykir vænt um með því koma fram undir nafni. Ég segi frá þessu nafnlaust, ekki til að skila skömminni, því ég er ekki með neina skömm á herðum, heldur af því að þegar þolendur segja frá brotnar fjölskyldan en ég samt sé enga umræðu um það hvort geti verið dýrmætara að halda tengslum við fjölskylduna en að allir viti hvað hefur komið fyrir mann.
Þótt þú eigir fjölskyldu og vini sem fullyrða að þau myndu alltaf standa með þolandanum getur samt verið að einhver snúist gegn þér.
Allir eiga rétt til að segja frá því sem þeir lenda í en það eiga líka allir rétt til einkalífs og það er ekki hægt að treysta því að þolendur grói skyndilega sára sinna við það að blasta sögu sinni á internetinu. Þessvegna vil ég segja eftirfarandi við þolendur sem finna fyrir þrýstingi:
- Segðu frá ef þig langar en ekki taka skyndiákvörðun bara af því að þessi bylgja er í gangi.
- Ef þú krefst þess að þínir nánustu taki afstöðu er ekkert víst að þeir taki afstöðu með þér.
- Ef þú vilt stöðva gerandann, íhugaðu þá hvort þú getir gert það öðruvísi en að segja frá.
- Áður en þú segir frá, spurðu þá sjálfa þig hvað þú viljir að komi út úr því og hversu líklegt er að niðurstaðan verði sú sem þú vilt.
- Þú þarft ekki að segja frá til að skila skömminni, það eru til betri leiðir til þess að losna við skömm.
- Ef þú segir frá og þínir nánustu afneita þér, merkir það ekki að þau samþykki kynferðisofbeldi heldur að þau afneita þessu eða kunna ekki að bregðast við. Þau eru líka þolendur á vissan hátt.
Hafðu í huga að þótt allir í þínu nærumhverfi fullyrði að þau myndu alltaf standa með þolandanum getur samt verið að afhjúpunin bitni á sjálfri þér. Manneskjur eru bara ekki svo fullkomnar að það sé hægt að krefjast þess að þær taki afdráttarlausa afstöðu með þolandanum, ekki einu sinni mæður.