Hér er lýðveldi um lýðræði frá fullveldi til fallveltu
Fyrir nútíma Íslendinginn hafa þessi orð litla sem enga merkingu, leyfi ég mér að fullyrða. Fæstir hafa djúpan skilning á mismunandi þýðingu þessara hugtaka. Þeim er hrært saman í sömu helgislepjuna á dögum eins og þessum. !! 17. júní !! Er það hamingjudagur í lífi þjóðarinnar?
Þjóðrembingslegar ræður á Austurvelli fluttar af hátíðlegum sparifötum sem sjálfhverfan hefur í flestum tilvikum yfirtekið að fullu. Síðan taka SS pulsurnar candíflossið og helíumblöðrurnar völdin. Þá verður allt ögn skárra.
Þegar upp er staðið þá er það mikilvægasta við 17. júní hvort sólin skín eða rigningin hvín. Það er svo leiðinlegt að þramma með börnin blaut um bæinn. Þetta er jú fyrst og fremst dagurinn þeirra.
Ég er ekki viss um að lýðveldið hafi verið svo mikið hamingjuspor fyrir Íslendinga flesta. Að vera „fullvalda þjóð“, hvað þýðir það? Ég hef aldrei skilið þetta hugtak.
Gæti kannski þýtt að þjóðin hefði fullt vald yfir sjálfri sér. Alveg eins og „lýðræði“ gæti kannski þýtt að lýðurinn réði. Hin innantómu jakkaföt halda því alltént fram. Að við verðum að verja fullveldið og virða lýðræðið.
Fyrirgefið! Heldur einhver heilvita maður hálfa mínútu í senn að Íslandi sé stjórnað af lýðnum?
Af öllum þeim vestrænu löndum sem eru stödd í órafjarlægð frá raunverulegu lýðræði er Ísland alveg lengst úti í jaðrinum. Við sem ættum smæðar okkar vegna einmitt að vera fremst í flokki. Í litlu samfélagi ætti nefnilega að vera svo auðvelt að hafa allt uppi á borðinu. Það vita nefnilega allir allt um alla, ekki satt? En Nýju fötin keisarans er bara svo skemmtilegur leikur. Við erum svo þaulæfð í að þykjast ekki sjá neitt. Svo þaulæfð að við hreinlega sjáum ekki neitt.
Ef lýðurinn stjórnaði, valdið væri jafnt hjá öllum … Hvernig væri það? Eigum við að fara á smá flug?
Kæmist lýðurinn að því undarlega samkomulagi að sumir væru merkilegri en aðrir? Þyrftu hærri laun meiri fríðindi minna vinnuálag gildari eftirlaun og yfirleitt burð á silfurfati. Kæmist á það almenna samkomulag með breiðri sátt að sumir gætu skapað sínum börnum betri möguleika?
Sum börn fengju að fara í fína skóla og önnur í tossabekki? Sum börn færu til útlanda í nám meðan önnur gætu valið milli álvers eða áburðarverksmiðju? Sum börn mættu éta sig spikfeit meðan önnur kæmu ekki með nesti í skólann?
Kæmi alþýðan sér saman um það að einhver ein handvalin fjölskylda fengi með afslætti að eignast sameiginleg fyrirtæki og auðlindir? Væri það hin vitræna niðurstaða þjóðarinnar allrar? Væri forvitnilegt að sjá hverjir að fyrra bragði myndu bjóðast til að bera alla baggana fyrir sjálfhverfurnar og jakkafötin? Yrði það sameiginleg niðurstaða að hinn mannlegi viðgerðariðnaður væri eingöngu ætlaður sumum?
Kæmumst við að þeirri niðurstöðu að best væri að einhver kona úr Garðabæ fengi að græða smá og gott betur á bágindum annarra? Ætli almenningur væri almennt að gera lítið úr störfum hjúkrunarfólks og ætlast til að það ynni frítt?
Það væri líka gaman sjá hvort lýðurinn allur hefði náð að öðlast raunverulegan skilning á því af hverju það var svona nauðsynlegt að bjarga bönkunum. Af hverju þeir máttu ekki bara lalla sig í sína gjaldþrotameðferð strax rétt eins og önnur illa rekin fyritæki.
Nei nei nei, í mínu lýðræðisríki væru allir með sömu 24 tímana í sólarhringnum. Enginn þyrfti að sætta sig við það að hans klukkutími væri minna virði.
Kökunni væri skipt jafnt og þeim sem væru yfirbugaðir af græðgi fengju hjálp á sameiginlegu hátæknisjúkrahúsi sem auðvitað væri löng búið að byggja fyrir Landsímapeninginn. Því ef þeir væru þar inni að þiggja hjálp þyrftum við ekki að geyma þá á alþingi eða í bönkunum. Að ég tali nú ekki um þá sem éta allan fiskinn okkar.
Nei, ég harðneita að fara í einhverja helgistemningu í dag. Engin ástæða til. Ég mun samt njóta þess að horfa á dóttur mína sem verður í fylkingarbrjósti við fánaburð í skrúðgöngunni í Mosó.
Segi svo bara „Guð blessi Ísland og megi hann einn daginn kenna okkur allt um raunverulegt lýðræði!“
Lifið heil.