Litasumarið mikla
Það er spurning hvort árið 2015 verði þekkt sem litaárið mikla. Það verður allavega ekki talað um hversu frábært veðrið var allt sumarið. Svo virðist sem fjöldinn allur af konum og eitthvað af körlum hafi fengi æði fyrir því að lita í litabók og námskeið um litatækni hér á landi yfirfull. Ég er því miður engin undantekning á því. Þegar ég sá umræðu um litabækur fyrir fullorðna og átti leið í bókabúð var ég ekki lengi að næla mér í eitt stykki af bók til að lita í. Síðan þá hef ég verið dolfallin.
Ég er í nokkrum teiknigrúbbum á Fésbókinni, íslenskri, norskri og enskri, og elska að sjá hvernig aðrir lita myndirnar sínar og fá hugmyndir af útfærslum. Svo virðist sem það er ekki bara hér á landi sem litaæðið sé að ná útbreiðslu heldur um allan heim. Ég get ekki sagt af hverju þetta æði heltekur svo marga en ég get talað út frá sjálfri mér.
Mér finnst skipta máli að eiga áhugamál sem ég get stundað á heimilinu mínu, verandi grasekkja og vil helst nota pössun á börnum sem minnst. Bakstur hefur komið sterkt inn og núna að lita. Bæði eitthvað sem ég get boðið börnunum að njóta með mér. Ég tek litabókina með mér út um allt. Hvort sem ég er að fara á ströndina, útilegu eða í heimsókn til mömmu og pabba þar sem ég get litað með systur minni. Stundum er gott að sitja við borðstofuborðið með kertaljós og góða tónlist og stundum sit ég í sjónvarpsholinu og lita á meðan ég hlusta á sjónvarpið. Ég tek mér góðan tíma með hverja mynd sem ég lita og er það skrítin að áður en ég fer að sofa á kvöldin fletti ég í gegnum bókina. Bæði til að skoða myndirnar sem ég er búin að gera og sjá hvað mig langar til að lita næst. Það fer því ekki á milli mála að þetta róar taugarnar hjá mér. Yfirleitt þegar ég fæ nýtt æði þá tek ég það alla leið og verð svo slæm að mig dreymir það á nóttinni. Sem betur fer hefur litaæðið mitt ekki tekið yfir næturdrauma mína.
Börnin eru farin að sitja með mér og lita, prófa sig áfram með skyggingar og að blanda litum saman eins og mamman. Það er ekkert eins yndislegt eins og að eiga góða stund með þeim.
Það besta við þetta er að þú þarft ekki mikið til að byrja. Nokkra liti og litabók. Þú þarft heldur ekkert að hafa neinn grunn í litafræði eða teikningu til að lita og hafa gaman. Ég hef reyndar séð að margir eru hræddir við að sýna verk sín eða fá minnimáttarkennd því það getur ekki gert eins flott og aðrir. Þetta snýst ekki um að geta gert listaverk heldur að hafa gaman og taka því rólega og líða vel á meðan maður litar. Því má ekki gleyma. Svo eins og með önnur áhugamál þá er hægt að bæta sig með tímanum og fjárfesta jafnvel í fylgihlutum sem nýtast vel. Ég mæli með að allir taki upp litina sína og byrji að lita. Ekki er þörf á að kaupa litabók. Hægt er að prenta út fjöldann allan af fallegum myndum af netinu og best að skrá inn í leitina adult coloring pictures.