Hafði lögreglustjóri afskipti af framburði vitnis?
Undanfarið hefur Kvennablaðið haft mál þeirra Annþórs Kristjáns Karslssonar og Barkar Birgissonar til umfjöllunar. Fram hefur komið að mannréttindi þeirra virðast ítrekað hafa verið hunsuð af yfirvöldum við rannsókn á andláti samfanga þeirra, Sigurðar Hólm Sigurðssonar. Sigurður lést á Litla-Hrauni í maí 2012. Af rannsóknargögnum málsins má sjá að beinar sannanir fyrir því að Annþór og Börkur hafi átt þátt í dauða Sigurðar Hólm eru ekki til staðar. Ekki hefur tekist að sýna fram á að Sigurður hafi verið myrtur eða beittur ofbeldi af nokkru tagi fyrir andlátið. Aðalmálsmeðferð hefst 15. október næstkomandi, rúmum þremur árum eftir að Annþór og Börkur fengu réttarstöðu grunaðra vegna málsins.

Annþór og Börkur
Fyrstu skýrslutökur af þeim föngum sem deildu gangi með Annþóri, Sigurði og Berki daginn sem Sigurður lést gáfu ekki til kynna að Sigurður hafi átt í útistöðum við þá tvo. Ekkert vitnanna gaf heldur til kynna að nokkuð saknæmt hefði átt sér stað inni í klefa Sigurðar fyrir andlátið heldur töldu þau öll að það mætti rekja til þess að hann hafi verið illa á sig kominn vegna mikillar neyslu fyrir komuna í fangelsið.
Nokkrum vikum eftir fyrstu skýrslutökur breyttu þrír samfanganna framburði sínum verulega frá fyrstu skýrslutöku og sögðu meðal annars Sigurð Hólm hafa óttast þá Annþór og Börk. Vitnin breyttu framburði sínum undir nafnleynd og fengu því Annþór og Börkur og verjendur þeirra ekki að vera viðstaddir vitnisburð þeirra. Í vitnisburði eins þeirra fyrir dómi truflaði sýslumaður vitnið við framburð sinn og slökkti tímabundið á hljóðupptöku. Vitnið breytti framburði sínum að því loknu.
Nafnleyndar óskað
Ólafur Helgi Kjartansson, þáverandi lögreglustjóri á Selfossi, sótti um að fá að leggja fram skýrslur úr yfirheyrslum yfir þremur samföngum þeirra Annþórs, Barkar og Sigurðar undir nafnleynd. Í dómskröfu Ólafs Helga kemur fram að „Aðilarnir hafa allir lýst miklum ótta sínum á því að framburður þeirra um málið kunni að skapa þeim lífshættu í ljósi þess hverjir hinir grunuðu eru.“ Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms vegna kröfunnar að Ólafur Helgi hafi greint frá því að „vitnin hefðu skýrt frá því að skyldmennum þeirra hefðu borist hótanir eftir krókaleiðum en ekkert vitnanna hefði haft kjark til að skýra berum orðum frá því í hverju nákvæmlega það hefði falist, enda gæti lögreglustjóri illa skýrt frá því í dómsal án þess að gefa með því upp hver vitnin væru.“
Dómarinn í málinu var Sigurður G. Gíslason. Hann féllst á málflutning Ólafs Helga og samþykkti að vitnin fengju að breyta vitnisburði sínum og staðfesta hann undir nafnleynd án viðveru Annþórs, Barkar og verjenda þeirra. Í úrskurði sínum víkur Sigurður engum orðum að hagsmunum sakborninga er hann ræddi skilyrði þau sem uppfylla þarf lögum samkvæmt til þess að leyfa megi nafnleynd vitna. Þau skilyrði eru að brýn nauðsyn krefjist þess að vitnin fái að vera nafnlaus ef það ógnar öryggi vitnisins eða náinna vandamanna þess sé nafn þess gert opinbert. Þá má nafnlaus vitnisburður ekki geta spillt fyrir vörn ákærða svo að máli skipti. Samkvæmt verjendum Annþórs og Barkar má sjá af dómafordæmum að auk þessa verður sakborningur að vera fær um að fylgja hótunum sínum eftir.
Á þessum tíma voru Annþór og Börkur vistaðir á öryggisdeild (einnig nefndur öryggisgangur) fangelsisins á Litla-Hrauni. Þar höfðu þeir ekkert samneyti við aðra fanga, öll símtöl þeirra voru hljóðrituð og einungis nánasta fjölskylda þeirra fékk að heimsækja þá. Leiða má að því líkur að hið mikla eftirlit sem Annþór og Börkur sættu vegna gruns um þátt þeirra í andláti Sigurðar Hólm hafi gert þeim mjög erfitt fyrir að hóta vitnum, hvað þá að fylgja þeim hótunum eftir.
Kvennablaðið hefur skýrslur nafnlausu vitnanna undir höndum, ásamt upprunalegum skýrslutökum yfir þeim. Stórir hlutar þeirra hafa verið svertir út til þess að varðveita nafnleynd vitnanna, en hvergi kemur fram í sýnilegum texta að vitnin óttist Annþór og Börk. Þá er einungis eitt vitni sem biður um vitnaleynd í umræddum skýrslum.
Nafnleyndin staðfest af Hæstarétti
Í áfrýjunarkröfu verjenda Annþórs og Barkar til Hæstaréttar kom fram að það gengi gegn dómafordæmum Hæstaréttar að heimila vitnaleynd þegar vitni hefðu áður gefið skýrslu undir nafni. Öll persónueinkenni vitnanna lægju fyrir og vegna aðstæðna í þessu máli væri því auðvelt að sannreyna hvaða vitni hefðu breytt vitnisburði sínum undir nafnleynd. Að Annþóri og Berki undanskildum voru aðeins sex vistaðir með Sigurði Hólm á gangi kvöldið sem hann lést. Verjendur hefðu aðgang að fyrstu vitnaskýrslum, sem og þeim seinni ásamt öðrum málsgögum sem gerði það að hægðarleik að sannreyna hver öll nafnlausu vitnin væru. Nafnleyndin virtist því í raun einungis þjóna þeim tilgangi að gera verjendum Annþórs og Barkar mun erfiðara um vik að kanna trúverðugleika vitnisburðar þeirra.
Hæstiréttur hafnaði þessari röksemdafærslu verjendanna með þeim rökum að þeir hafi ekki sýnt fram á hvernig verjendurnir gætu auðkennt hvern einstakling fyrir sig. Vitnaleyndin var því staðfest af Hæstarétti en aftur án þess að víkja sérstaklega að hagsmunum ákærðu í úrskurðinum. Meginröksemdafærsla dómstólanna beggja fyrir því að heimila vitnunum að breyta vitnisburði sínum undir nafnleynd var byggð á dómsögu Annþórs og Barkar, en báðir eru þeir með fjóra ofbeldisdóma á bakinu. Alvarleiki glæpsins sem þeir voru ásakaðir um vó einnig þungt.
Vitnisburður nafnlausu vitnanna
Á meðan skýrslutaka nafnlausu vitnanna fór fram fyrir dómi viku verjendur úr sal og fylgdust með þinghaldi í gegnum hljóðbúnað í öðru herbergi. Þeir gátu einungis sent inn skriflegar spurningar til vitnanna í gegnum dómara. Teldu vitnin að svör þeirra gætu leitt til auðkenningar var þeim heimilt að svara þeim skriflega þannig að einungis dómarinn fengi að sjá þau.
Í seinni skýrslutökunum, er fangarnir vitnuðu undir nafnleynd, breyttist vitnisburður fanganna verulega. Öfugt fyrri framburð báru þeir nú að Sigurður hefði sagst vera mjög hræddur við þá Annþór og Börk vegna ofbeldis sem Sigurður átti að hafa orðið fyrir af hendi þeirra utan fangelsisins. Sú atburðarrás var hins vegar ekki útskýrð nánar. Þá breytti einn fanganna vitnisburði sínum þannig að hann hafi heyrt Sigurð gefa frá sér hljóð líkt og verið væri að berja hann daginn sem hann lést. Aðspurður um hvers vegna enginn annar hefði heyrt slík hljóð svaraði vitnið því til að allir hefðu heyrt eitthvað. Þó tók vitnið sérstaklega fram að það gæti ekki gert upp hug sinn um dánarorsökina, hvort það væri vegna barsmíða eða fráhvarfseinkenna vegna vímuefnaneyslu Sigurðar fyrir komuna í fangelsið (ítarlega umfjöllun um þennan þátt málsins má finna hér).
Ekkert vitnanna kannaðist við hótanir
Verjendur Annþórs og Barkar óskuðu eftir endurupptöku á ákvörðun Hæstarréttar að leyfa framburð umræddra vitna undir nafnleynd. Í endurupptökubeiðni þeirra kom fram að við skýrslutöku vitnanna fyrir dómi sagðist ekkert þeirra hafa sætt hótunum af hálfu Annþórs og Barkar. Ekkert þeirra bar heldur að fjölskyldu þess hefðu borist hótanir. Þá segir að einnig hafi komið í ljós að aðeins eitt vitnanna hafi við skýrslutöku óskað eftir nafnleynd. Aðspurt um hvers vegna vitnið óttaðist Annþór og Börk sagði það það vera vegna sögu þeirra; þeir höfðu hins vegar hvorki hótað vitninu né fjölskyldu þess.
Nafnlausu vitnin þrjú voru spurð af verjendum Annþórs og Barkar hvort þau hefðu óskað eftir að fá að bera vitni undir nafnleynd við lögreglu líkt og Ólafur Helgi hefði greint frá í dómkröfu sinni til héraðsdóms. Eitt vitnanna jánkaði því á meðan hin tvö sögðust ekki hafa óskað eftir nafnleynd við lögreglu. Annað þeirra vitna breytti þó framburði sínum hvað þetta snerti í miðri skýrslutöku fyrir dómi.
Í endurupptökubeiðni verjenda Annþórs og Barkar segir:
„[…] segir vitnið aðspurt að það hafi aldrei átt í útistöðum við sakborningana, og fullyrðir reyndar að það hafi ekki vitað að skýrslutakan fyrir dómi myndi fara fram undir nafnleynd enda hefði það aldrei óskað eftir slíkri leynd. Var gert hlé á þinghaldi, og eftir að hafa ráðskast einslega við sýslumann breytti vitnið framburði sínum. Var sakborningum og málflytjendum ekki gefinn kostur á að hlýða á það sem fram fór á milli vitnisins og ákæruvalds, þar eð slökkt hafði verið á fjarfundarbúnaðinum. Algjörlega ómögulegt er að komast að annarri niðurstöðu en að ákæruvaldið hafi ráðskast með framburð vitnisins og lagt því orð í munn, því ella hefði framburður þess ekki breyst.“
Að sögn verjenda Annþórs og Barkar breytti vitnið framburði sínum á þá leið að það hafi beðið lögreglu um að fá að njóta vitnaleyndar eftir skýrslutökuna.

Sviðsett mynd.
Ólafur Helgi hafnaði ásökunum um afskipti af vitnisburði
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, svaraði því til að verjendur Annþórs og Barkar hefðu sjálfir óskað eftir því að hann yrði í sama herbergi og nafnlausu vitnin. Þess hafi verið óskað þar sem verjendur sögðu nærveru Ólafs Helga geta truflað samskipti verjenda við skjólstæðinga sína. Ólafur Helgi hafnaði því alfarið að hafa ráðskast með framburð umrædds vitnis.
Í greinargerð Ólafs Helga til Hæstaréttar segir:
„Fullyrðing um að lögreglustjóri „hafi ráðskast með framburð vitnis“ í því hléi sem dómari gerði á skýrslutöku á sér ekki stoð enda vék vitnið aldrei úr umsjá dómara við skýrslutökuna.“
Ólafur Helgi vék þó engum orðum að því hvers vegna umrætt vitni breytti vitnisburði sínum í mótsögn við fyrri framburð eftir að hlé var gert á skýrslutökunni. Þá hafnaði Ólafur Helgi því alfarið að hann hafi gert umræddum vitnum upp ótta við Annþór og Börk og áréttaði aftur að fjölskyldum vitnanna hefðu borist hótanir eftir krókaleiðum. Engin frekari rök voru færð fyrir þeirri staðhæfingu og ekki var útskýrt hvers vegna vitnin gengust ekki við þeim fullyrðingum fyrir dómi.
Verjendur Annþórs og Barkar töldu að ljóst væri að skilyrði þau fyrir nafnleysi vitna, sem fram koma í 8. mgr. 122. gr. laga um meðferð sakamála, hefðu ekki verið uppfyllt eftir skýru orðalagi greinarinnar. Engu vitnanna hafi verið hótað og aðeins eitt þeirra hafi í raun óskað eftir nafnleynd, og það ekki vegna hótana heldur vegna sögu Annþórs og Barkar. Hæstiréttur vísaði þó kröfu þeirra um endurupptöku á úrskurði um vitnaleynd frá, á þeim grunni að vitnaleiðslurnar hefðu nú þegar farið fram og því væri ekki hægt að krefjast endurupptöku fyrr en eiginlegur dómur hefði fallið í málinu.
Hvers vegna skiptir þetta máli?
Rétturinn til sanngjarnar málsmeðferðar er tryggður í stjórnarskrá sem og sjöttu grein mannréttindasáttmála Evrópu. Í sjöttu grein sáttmálans (6.3.d) er sérstaklega tekinn fram réttur sakborninga til þess að vera viðstaddir vitnaleiðslur vitna í máli sínu. Dómstólar mega aðeins í undantekningartilfellum víkja frá þessum rétti sakborninga og verða þá að rökstyðja slíkar ákvarðanir ítarlega á grundvelli laga.
Mannréttindadómstóllinn hefur áréttað að 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu feli í sér að alla jafna eigi öll sönnunargögn gegn sakborningi að vera lögð fram fyrir dómi í návist hans í opnum réttarhöldum þar sem jafnræði sakbornings og ákæruvalds er tryggt. 6. gr. 3. mgr. d liður tryggir síðan sérstaklega að sakborningar eigi rétt á að „spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum.“ Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum.“
Dómstóllinn hefur áréttað að það er ekki endilega andstætt umræddu ákvæði að notast við vitnisburði nafnlausra vitna á rannsóknarstigum málsins (það er að segja áður en aðalmálsmeðferð fer fram) svo lengi sem réttindi sakborninga hafi verið virt. Umrædd réttindi fela í sér að sakborningur (eða verjendur hans) hafi nægilegan tíma og raunverulegt tækifæri til þess að yfirheyra vitni gegn sér (sjá Kostovski gegn Hollandi). Þannig verður vörnin að hafa möguleika á að kanna áreiðanleika vitnis og sannsögli þess á sanngjarnan hátt.
Dómstóllinn hefur sérstaklega tekið fram að verulega vafasamt verði að teljast að leyfa verjendum einungis að spyrja vitni á formi skriflegra spurninga sem dómari leggur fyrir það. Slíkt geri vörninni óeðlilega erfitt fyrir að kanna sannsögli vitna og fylgja spurningum eftir. Sé þeim aðferðum beitt verður dómari að gæta fyllstu varúðar og tryggja að virkilega reyni á trúverðugleika vitnisins sem um ræðir (sjá Doorson gegn Hollandi). Leyfi dómarar nafnlausan vitnisburð verði að tryggja mótvægisaðgerðir til þess að tryggja sanngirni réttarhaldanna. Í dómum sínum skoðar dómstóllinn ávalt hvort farið hafi verið í slíkar aðgerðir og hversu vel þeim tókst til að jafna leikinn ef svo má að orði komast. Dómarar verða sjálfir ætið að fullvissa sig um trúverðugleika vitna við vitnisburð þeirra.
Þá verða dómarar að meta það í hverju tilfelli fyrir sig hvort umrætt vitni hafi raunverulega og brýna þörf fyrir nafnleysi sínu gagnvart hverjum sakboringi fyrir sig. Ekki er nóg að vísa til þeirra saka sem sakborningur er að svara fyrir heldur verður matið að byggjast út frá einstaklingsbundnum forsendum (sjá Krasniki gegn Tékklandi).
Nokkrir dagar í aðalmálsmeðferð
Aðalmálsmeðferð hefst þann 15. október, rúmum þremur árum eftir að rannsókn málsins hófst. Þar gefst héraðsdómi tækifæri að endurskoða ákvarðanir teknar á rannsóknarstigum málsins. Líklegt er að verjendur Annþórs og Barkar óski eftir því að fá að taka skýrslu af öllum föngum sem voru á ganginum þegar Sigurður Hólm lést. Einnig er líklegt að þeir leggi fram gögn sem sýna fram á að verjendur viti hverjir þessara sex fanga hafi gefið vitnisburð sinn undir nafnleynd.
Héraðsdómur gæti því þurft að endurskoða nafnleynd vitnanna þriggja vegna úrskurðar Hæstaréttar. Þar neitaði Hæstiréttur að taka til greina að nafnleyndin væri tilgangslaus vegna þess að auðvelt væri að auðkenna vitnin þar sem verjendur hefðu ekki sýnt fram á hvernig þeir gætu framkvæmt slíka auðkenningu. Þannig gaf Hæstiréttur skýrt til kynna að takist verjendum að sýna fram á að þeir viti deili á nafnlausu vitnunum væri rétt að endurskoða úrskurðinn um nafnleynd.
Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafa ítrekað staðfest að rétturi sakborninga til sanngjarnrar málsmeðferðar feli alla jafna í sér að sakfelling megi ekki byggjast einungis eða að verulegu leyti á framburði nafnlausra vitna (sjá Doorson gegn Hollandi). Fram að þessu hefur ákæruvaldið ekki lagt fram neinar beinar sannanir fyrir því að Annþór og Börkur hafi valdið því að Sigurður Hólm lést árið 2012. Komi engin ný sönnunargögn fram sem bendla þá við dauða Sigurðar og neiti Héraðsdómur að aflétta vitnaleyndinni væri það augljóst brot á rétti Annþórs og Barkar til sanngjarnar málsmeðferðar að sakfella þá.