Slefandi ofurhetjur
Ég hef eftir mikla sjálfsskoðun og sálgreiningu komist að því hvað það er sem hrjáir mig og margar aðrar kynsystur mínar. Nei, ekki hrjáir, heldur heltekur eins og smitandi vírus sem sýkir bæði heila og blóð. Þessi sýking brýst fram í formi sykurmassabakstursáráttu og stórskaðar íslensku kvenþjóðina!
Ein og ein falla þær fjallkonurnar fyrir sykurmassanum og hann heltekur líf þeirra. Útskurðarverkfæri, glimmer og perlur sem má snæða. Þannig byrjar þetta. Og fjölskyldan fer að líða fyrir „nýja áhugamálið“.
Klukkustundum saman situr húsmóðirin dáleidd fyrir framan youtube, algjörlega sinnulaus um umhverfi sitt og sársvöng börnin. Hún heillast af litunum og óendanlegum möguleikum sykurdrullunnar.
Að fá sykurmassa á heilann er í sjálfu sér í góðu lagi ef það væri ekki samfélagsleg krafa að vera með grjótharða magavöðva líka, lífrænan heimatilbúinn kvöldmat og nesti fyrir börnin, skínandi hreint heimili, fara út að ganga með börnin og í tómstundir, stunda jóga og önnur smartheit, bólstra gamla stóla um helgar og gera upp allskonar drasl frá ömmu. Já þið vitið, bara eins og allir eru að gera á Facebook.
Sykurmassinn toppar þetta. Kannski er það vegna hás innihalds sykurs og litarefna sem íslenska kvenþjóðin festist í sykurmassanum og youtube. Litarefnið lætur hana halda að þetta sé ekkert mál. Og þar sér íslenska kvenþjóðin, ja og Bjarni Ben, tækifæri.

Bjarni Benediktsson birti mynd af þessari köku á Facebook fyrir stuttu. Kökuna skreytti hann fyrir dóttur sína.
Henni finnst hún nefnilega ekki „BEST“ í neinu. Bara ágæt í mörgu. Verkefnin eru svo mörg að hún fær sjaldnast tækifæri til að nostra við nokkurn hlut. Lífrænu kjötbollurnar með heimagerðu arribatasósunni líta út eins og fylling í sómasamloku. Það fer ekki á Facebook.
Hún sofnaði í jógatíma í síðustu viku og missti smá hrotu út þannig að nú þarf hún að finna nýja jógastöð. Náttborðið sem hún ætlaði að lakka stendur enn hálfpússað úti í bílskúr. Guð, og hún ætlaði að vera löngu búin að taka þessa detox viku sem hún las um á netinu.
En kannski. Bara kannski, er þetta sykurmassadæmi eitthvað sem hún gæti orðið ógeðslega góð í og fyllt internetið með myndum af nýjustu afrekum sínum í viku hverri. Krakkarnir myndu góla af gleði þegar hún bæri á borð hverja ofurhetjuna á fætur annarri. Eignmaðurinn lægi ástsjúkur í sykurmóki eftir eina sneið.
Já þetta yrði sko hennar „thing“. En fyrst þyrfti hún að horfa á þessi myndbönd á netinu og prufa sig áfram. „Krakkar fáið ykkur bara skyr.“ Það er allt í lagi að þau fái ekki heitan mat í kvöld. Minningin um flottustu afmælistertu í veröldinni mun ylja þeim öllum um ókomna tíð.

Kaka eftir einhverja ofurkökuskreytingarhetju…
Allt í einu rankar íslenska kvenþjóðin við sér þar sem hún liggur í eigin munnvatni fram á lyklaborðið steinrotuð rétt fyrir miðnætt. Hún lyftir þungu höfðinu upp og starir rauðeygð á skjáinn þar sem einhver pastellituð Betty Lou er að skreyta spidermantertu. Um stund verður allt kristalskýrt. Hin eina sanna ofurhetja er hún sjálf. Þó að mörg hennar afrek séu ekki hæf til myndbirtinga þá er það drifkrafturinn og viljinn sem gera hana að því sem hún er. Það er enginn sem dregur hana niður nema hún sjálf með óraunhæf markmið.
Glöð mamma er góð mamma. Íslenska fjallkonan slekkur á tölvunni og fer upp í rúm með svuntuna og án þess að taka af sér maskarann.
Hún ætlar að panta afmælistertu í bakaríi á morgun – og takast á við eigin tilfinningar og nagandi samviskubitið sem mun plaga hana við að ákveða að á morgun ætlar hún bara að gera það sem þarf að gera. Nauðsynlegar þarfir en ekki gerviþarfir.
Hún ætlar að sleppa því að búa sjálf til pestóið á kjúklinginn og keyra upp í Garðabæ eftir einu ilmkerti. Á morgun ætlar hún að gera ekki neitt.
Sko eftir fjögur. Eða þú veist þegar börnin eru sofnuð.