Loire-dalurinn í Frakklandi er engum líkur
Loire-dalurinn er þriðja stærsta vínræktarsvæðið í Frakklandi og hluti þess er á heimsminjaskrá UNESCO. Dalurinn þykir afar hentugur til vínræktar og jarðvegurinn er mjög fjölbreyttur. Svæðið samanstendur af 74 vínræktarsvæðum frá Nantes to Sancerre og þessi svæði eru að mestu leiti meðfram Loire ánni. Aðalþrúgurnar eru annars vegar Sauvignon blanc til hvítvíns gerðar og Pinot noir til rauðvínsgerðar. Um 75% af vínframleiðslunni eru hvítvín úr Sauvignon blanc og er svæðið mun þekktara fyrir hvítvín, frekar en rauðvín. Ansi mörg frábær vín koma frá þessu svæði enda eftirsótt úti um allan heim.
Nýverið komu ný vín í Vínbúðunum frá frábærum vínframleiðanda í Loire-dalnum, Joseph Mellot heitir hann.
Joseph Mellot
Saga Mellot fjölskyldunnar teygir sig aftur til 1513 þegar Cesar Mellot gerðist sérlegur vínráðgjafi Lúðvíks XIV og ól þannig af sér nokkrar kynslóðir af víngerðarmönnum með ástríðu fyrir góðum vínum. 1920 kynnti Alphonse Mellot vínin sín á hinni víðfrægu sýningu, Foire de Paris og hlaut þar fjölda verðlauna og þá var ekki aftur snúið.
Synir hans Edmond og Joseph tóku við keflinu um miðja síðustu öld en árið 1969 fékk Joseph sinn hlut af fyrirtækinu og breytti nafninu í Joseph Mellot eins og það heitir í dag. Árið 1984 tók svo sonur Joseph´s, Alexander, við fyrirtækinu og með mikilli framsýni og ástríðu gerði það að einu virtasta víngerðarfyrirtæki Loire-dalsins. Hann keypti nokkrar vínjarðir af mismunandi vínsvæðum og nú býður Joseph Mellot upp á vín frá 6 mismunandi svæðum í Loire. Árið 2009 fékk hann ISO 14001 umhverfisstöðlun og í dag fást vín frá þeim út um allan heim og þykja eftirsótt á bestu veitingastöðum. Um síðustu mánaðamót komu til sölu tvenns konar hvítvínstegundir frá þessum framleiðanda í Vínbúðunum og hér fjöllum við aðeins um þau.
Joseph Mellot Sancerre La Chatellenie kr. 3.650
Þetta hvítvín er unnið 100% úr Sauvignon blanc-þrúgunni og til að ná hágæða vínsafa úr þrúgunum er notast við nýjustu pressur. Gerjun fer fram við lágt hitastig í hitastýrðum stáltönkum. Vínið er látið eldast dálítið í þessum tönkum með botnfallinu til að viðhalda ferskleika þess áður en það fer svo í flöskur (eins og oft með kampavín). Í nefi má finna ákafa sítrus tóna og á tungu er það afar fínlegt með smá peru, smjör og lime. Brakandi ferskt og hentar vel með öllu vel gerðum fiskréttum, grilluðum humri og kræklingi. Geitaostur smellpassar líka.
Joseph Mellot Pouilly Fume le Chant des Vignes kr. 3.490
Hér er einnig 100% Sauvignon blanc og vinnsluaðferðin er nokkuð sú sama. Flókið í nefi með blómailm, greipaldin og steinefni. Í bragði má finna suðræna ávexti og eftirbragðið er afar langt. Hentar vel með alls kyns sjávarréttum, grilluðum fiski, fiski í mismunandi sósum og létt krydduðum austurlenskum mat. Einnig bara eitt sér er það algert sælgæti.
Í þessu myndbandi má fræðast frekar um þennan merka vínframleiðanda: