Hið eilífa ljós – Tónleikar kórs Breiðholtskirkju
Hið eilífa ljós er yfirskrift tónleika kórs Breiðholtskirkju og vísar til texta úr hinni klassísku sálumessu. Tónleikarnir fara fram laugardaginn 5. mars, 2016 í Tjaldkirkjunni i Mjódd, kl. 16:00.
Flutt verður Requiem opus 9 eftir franska tónskáldið Maruice Duruflé og tónverkið Rennur upp um nótt eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson.
Sálumessa Duruflé þykir eitt af fegurstu kirkjutónverkum tuttugustu aldar. Sálumessan var frumflutt árið 1947 og er samin við hefðbundinn texta á latínu. Verkið er í 9 köflum:
1. Introit 2. Kyrie 3. Domine Jesu Christe 4. Sanctus 5. Pie Jesu 6. Agnus Dei 7. Lux aeterna 8. Libera me 9. In Paradisum.
Einnig verður á tónleikunum flutt tónverkið Rennur upp um nótt eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson. Það var samið við sjö ljóð Ísaks Harðarsonar og tvo af sálmum Biblíunnar, fyrir Kór Breiðholtskirkju árið 2012 og frumflutt árið eftir.
Kaflarnir eru: 1. Sálmur 138 2. Vinur 3. Morgnar og eilífð 4. Náðin, 21 öld síðar 5. Ég hlakka til 6. Vinir tveir 7. Vordreymi 8. Vinir 9. sálmur 150.
Ljóð Ísaks eru úr ljóðabókinni Rennur upp um nótt, sem tilnefnd var til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Bæði tónverkin eru samin fyrir kór orgel, hörpu, selló og tvo einsöngvara. Með kórnum leika þau Guðný Einarsdóttir og Steingrímur Þórhallsson á orgel, Sigurður Halldórsson á selló og Elísabet Waage á hörpu. Stúlknakór undir stjórn Margrétar Pálmadóttur syngur með í Sálumessu Duruflé. Einsöngvarar á tónleikunum verða þau Marta Guðrún Halldórsdóttir og Hafsteinn Þórólfsson. Stjórnandi er Örn Magnússon.
Miðaverð er kr. 2.500 til sölu á tix.is og við innganginn.