AÐ RÚSTA PLEISINU EÐA TRÚA Á LEIFTRIÐ
Elísabet Kristín Jökulsdóttir skrifar:
(Ég var uppí mötuneyti með vinkonu minni þegar þetta samtal fór í gang)
Mig langar bara að rústa pleisinu.
–Rústa pleisinu.
Já mig langar að garga.
–Þetta er bara barnið í þér, það er vanrækt.
Barnið í mér?
–Já. Þú ert búin að leggja líf þitt undir forsetaframboð í marga mánuði og ekkert að sinna barninu í þér, fyrir utan það að barnið í þér er dauðhrætt við höfnun og alltaf þegar þú stígur ný skref í lífinu gleymir barnið að þú ert búin að kenna því að takast á við höfnun, þá er einsog það hafi aldrei lært neitt um höfnun og það verður skíthrætt við ástleysið.
Ástleysið? Ertu að segja ég elski ekki barnið í mér.
–Þú ert ekki að tala við börn í framboðinu. Þetta er fyrir fullorðna.
Já… og…
–Hvað hefur þú gert við barnið í þér nýlega?
Hm…
–Einmitt, þú þarft að hugsa þig um.
Ég hef verið glöð.
–Já en barnið þarf kannski að fá að gefa öndunum.
Forseti að gefa öndunum!!
–Þú þarft ekki nema fara niðrað tjörn og þá verður barnið ánægt, eða fara úr skónum niðrí fjöru og leyfa þér að labba um berfætt í sandinum.
Ég hef bara ekki tíma.
–Það hefur enginn tíma.
Nei akkúrat.
–Tíminn hefur sig sjálfur, til að hafa tíma verður þú að vera tíminn.
Tíminn á sokkaleistunum?
En afhverju er barnið hrætt.
–Hvað ætlar þú að gera ef þú tapar, ef þú færð höfnun. Barnið veit, og barnið getur verið viskan innra með þér, barnið veit að þú hefur fengið geðveikikast við höfnun, pabbi þinn dó, höfnun og þú fórst inná geðdeild, það var líka eftir að kærastinn þinn hafnaði þér, það var enginn farvegur fyrir sorg… það var bara snappið, SNAPP!! Þú orðin geðveik, manstu þegar þú varst ástfangin af manni í tíu ár án þess að segja honum það og svo sagðir þú honum það, fékkst höfnun frá honum og búmst, veiktist á geði í 2 mánuði, þú varst næstum dáin, keyrðir Hvalfjörðinn í sextán tíma, kastaðir þér útí Brynjudalsá… þú fékkst ekki að sjá börnin þín, þú varst svo veik.
Afhverju ertu að minna lesendur á þetta?
–Þú býrð til höfnun á færibandi.
Mér er alveg sama þótt ég verði ekki forseti.
–En það er ekki víst að líkamanum sé sama.
Líkmanum.
–Já, líkaminn er búinn að þræla sér út fyrir þig, þinn eldheita anda í marga mánuði, fingurnir að skrifa þessa grein, rassinn að sitja á stólnum, fæturnir, þú ert að drepast í kálfunum.
Já afhverju er ég að drepast í kálfunum.
–Ég held þig vanti kálfsskinn.
Líkaminn já. Ég gleymi honum…
–Líkaminn gleymir engu.
Svo líkaminn gæti orðið óhress ef ég verð ekki kosin forseti.
–Þú þarft allavega að finna aðferð tilað bakka út úr þessu, elska þig út úr þessu.
En svo verð ég kannski kosin forseti.
–Þetta er draumaheimurinn.
Draumaheimurinn?
–Þarna var barnið að tala. Svo kemur raunveruleikinn og rekst á draumaheiminn.
Hvað á ég þá að segja barninu.
–Bara gefa öndunum.
Er það nóg.
–Þá veit barnið það, að sama hvað gerist, hvort sem þú verður kosin forseti eða ekki, þá má treysta þér, þú ferð með því að gefa öndunum.
Og þá þar í tóminu þá leysast málin.
–Já það verður til pláss…
Nú langar mig ekkert til að garga.
–Nei, nú veistu að það er barnið í þér sem hefur fengið pláss, og athygli.
En hvað ef ég garga í kappræðunum á Rúv í kvöld.
–Það væri nú næs.
Næs!! Einmitt.
–Segðu barninu hvenær þið ætlið að gefa öndunum.
Sko! Það eru kosningar á morgun… kannski verð ég orðin forseti annað kvöld.
–En þú ætlar að gefa öndunum brauð.
Já.
–Hvenær?
Á mánudaginn klukkan þrjú.
–Fínt.
En ef það koma engir blaðamenn?
Þá ferðu að gráta.
ÞÖGN
Mér fannst þetta skrítið sem þú sagðir með farveginn.
–Hvað sagði ég?
Að það hefði ekki verið neinn FARVEGUR fyrir sorgina, þegar pabbi dó og þeir yfirgáfu mig kærastarnir hahahaha… og ég hefði snappað einsog í myndatöku fyrir Forsetaframboðið, þetta svo skrítið…
Draumkennt.
–Já. Þú verður að láta raunveruleikann vita af draumunum þínum svo það sé ekki sífelldur árekstur.
Já en farvegur, ég var að kveikja á því, þá er svo stuttur kveikjuþráður og ég bara snappa og held að alltíeinu muni ég öskra. Ég fór nefnilega útúr bænum í vikunni og sá farveg, það var rennandi á í sumarnóttinni. Sífelldur niður og lyng á bakkanum og vatnasóleyjar.
–Næs. Fallegt.
Já en það var svo skrítið að ég fann skerandi sársauka þegar ég sá ána renna… það var einsog hausinn á mér væri eitt skrifstofuveldi og alltíeinu ruddist áin inn, djúp, blá og streymandi.
–Ruddist inní hausinn á þér?
Já. Og ég fór að gráta.
–Hvenær ætlar þú að byrja að gráta?
Ég er með hellu fyrir brjóstinu.
–Hellu.
Ég fór með vini mínum og svo varð ég skotin í honum. Ég er ekkert vön að vera skotin í honum en þarna út af ánni og árbakkanum og himninum sem hvolfdist yfir okkur þá varð allt svo mjúkt og heitt inní mér og mig langaði að faðma hann og kyssa.
–Og gerðirðu það?
Nei, ég var svo hrædd um að hann yrði pirraður.
PIRRAÐUR.
Pabbi minn varð alltaf pirraður þegar ég tjáði honum ást mína.
–Pabbi þinn, sem dó fyrir 40 árum eða hvað?
Já, hún var þarna ennþá.
Hún verður þarna alltaf.
Ég sé stundum leiftur af henni.
–Leiftur?
Já.Hvernig ætti ég að fara með hana í heimsóknir til stríðsherra heimsins.
–Skilur hana eftir heima.
Hvar.
–Hjá konunni sem sendi þig í forsetaframboð.
Hvaða kona er það?
ÞÖGN
–Það er leiftur af konu.
Einsog stjörnuhrap?
–Leiftur… af konu sem lifði hér einu sinni… ? Leiftur af konu frá liðinni tíð…