Vegabréf Alí frá Írak segir hann fæddan í febrúar árið 2000
„Hælisleitandinn Ali Nasir sem dreginn var út úr Laugarneskirkju með valdi þann 28.júní síðastliðinn og sendur til Noregs, er 16 ára gamall samkvæmt vegabréfi hans sem varð eftir í Írak.“ Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar en prentútgáfa blaðsins kom út í morgun. „Samkvæmt þessum skjölum er Ali fæddur þann 9. febrúar árið 2000 og því 16 ára gamall eins og hann tjáði Stundinni nóttina sem hann var sendur úr landi. Útlendingastofnun hefur hins vegar fullyrt í fréttatilkynningu að hann sé eldri en 18 ára.“
Sjá einnig: Áróðurstríð Kristínar Völundardóttur
Stundin hefur áður greint frá því að Ali hafi orðið sér úti um falsað vegabréf, sem gefur til kynna að hann sé 19 ára gamall, þegar hann flúði frá Írak vegna þess að auðveldara er að ferðast úr landinu sem fullorðinn einstaklingur heldur en sem barn.
„Skildi hann því hið ósvikna vegabréf eftir á heimili sínu. Á leiðinni til Íslands segist Ali hafa frétt að að Íslendingar hefðu um árabil dæmt flóttafólk í fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Auk þess væri hérlendis oftast dregið í efa að hælisleitendur væru undir lögaldri þegar þeir héldu því fram. Þegar Ali kom hingað til lands og sótti um hæli framvísaði hann því falsaða vegabréfinu en þorði ekki að segja íslenskum yfirvöldum að pappírarnir væru falsaðir.“
Sjá einnig: Mannúð bönnuð á Íslandi, Atli Þór Fanndal skrifar um atburðina í Laugarneskirkju og kallar eftir bandalagi trúfélaga, aðgerðarsinna, íþróttamanna, forsetaembættisins og allra þeirra sem vettlingi geta valdið í þágu mannúðar.
Í fréttinni er rætt við Salman Tamimi sem kallaður var til sem túlkur fyrir Ali. „Hann laug til um aldur, elsku strákurinn, hann var svo hræddur um að ef hann segði frá því að vegabréfið væri falsað myndi hann lenda í vandræðum,“ segir Salmann í samtali við Stundina.
Mál þeirra Ali Nasir og Majed vakti athygli eftir að lögregla dróg þá út úr Laugarneskirkju með valdi, handjárnaði Ali og sló mann í andlitið sem gerði tilraun til að benda lögregluþjónum á að drengurinn sem þeir væru að handjárna væri sextán ára. Í kjölfarið voru þeir nú sendir til Noregs. Þrátt fyrir alþjóðlegt samkomulag um að senda flóttafólk ekki til baka til heimalands síns, sendir Noregur flóttafólk frá suðurhluta Íraks til baka, með þeim rökstuðningi að þeim sé ekki hætta búin þar. Sú stefna er vel kunn Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.
Kvennablaðið sagði frá því 27. júní að Toshiki Toma, prestur innflytjenda, og Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur Laugarneskirkju ætluðu að veita þeim Ali Nasir og Majed grið frá brottvísun. Aðgerðin var gerð með samþykkt biskupsembættisins og gripið til úrræðisins í von um að lögregla myndi virða fornar venjur um kirkjugrið. Þannig er vísað til þess að á öldum áður giltu reglur um kirkjur og helga staði sem tryggðu þeim friðhelgi sem þar leituðu skjóls gegn framgöngu valdhafa.
Eftir að fram kom í fréttum fjölmiðla þann 28. júní að Ali Nasir væri 16 ára fullyrti Mbl.is að Ali væri „ekki sextán ára, líkt og haldið hefur verið fram í fréttum Stundarinnar og Ríkisútvarpsins í dag, heldur yfir lögaldri“. Þetta „staðfesti“ starfsmaður Útlendingastofnunar í samtali við Morgunblaðið sem vísaði jafnframt í málsgögn úr hælismáli Alis. Síðar sama dag sendi Útlendingastofnun út fréttatilkynningu og staðhæfði: „Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að annar umsækjendanna sé 16 ára gamall og því barn að aldri. Þetta er ekki rétt. Mennirnir eru báðir eldri en átján ára.“ Samkvæmt gögnunum sem Stundin hefur birt er sú fullyrðing Útlendingastofnunar röng.
Þess ber að geta að Útlendingastofnun tók mál Ali ekki efnislega fyrir og hafði því takmarkaðar upplýsingar um mál hans.