Hagræðingin og kostnaðurinn
Engum er það meira hugleikið en Pírötum að hagsæld þjóðarinnar sé lokamarkmið farsæls stjórnarfars í landinu. Staksteinar Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag vilja hins vegar meina að svo sé ekki.
Popúlismi er tíðrætt hugtak þegar kemur að því að lýsa stjórnmálum sem maður er ósammála. Til að útskýra hugtakið er auðvelt að tína til dæmi. Popúlismi er að lofa því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB í kosningabaráttu en skipta svo skyndilega um skoðun þegar ráðherrastólar verma bak og mjaðmir. Að segja það sem fólk vill heyra án nokkurrar ábyrgðar.
Víkur þá sögunni aftur að Staksteinum:
“Og er þetta ekki eina tilraun stjórnmálaflokks til að grafa undan því stjórnkerfi fiskveiða sem hefur ríkt lengi”. Þegar aflamarkskerfinu var komið á var upphafsstefið í þeirri lagasetningu eftirfarandi:
“Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.”
Viljum við árétta að vissulega hefur verið staðið vel að haghvæmri nýtingu en það er seinni liður setningarinnar sem virðist hafa gleymst.
Skammt er að minnast Djúpavogs, en þar var bæjarfélag lamað í nafni hagræðingar. Fólk flutt milli landshluta og komið fyrir á Suðurnesjum.
Þar á eftir má nefna Grímsey, en við brottflutning útgerðarmanns úr bæjarfélaginu stendur eyjan eftir með sárt ennið og verðlausar eignir. Langt úti í hafsauga norðan við landið, með litla von um nýja starfsemi til að taka við af þeirri sem fór.
Það sem Staksteinar hafa að segja um kvótann hljómar svona:
“Og á sennilega mestan þátt í hagsæld þjóðarinnar í seinni tíð” en í þessa setningu vantar orð og hljómar hún betur svona “og á sennilega mestan þátt í hagsæld hluta þjóðarinnar í seinni tíð.”
“Lagður er sérstakur ofurskattur á atvinnugreinina” er upphafstef næstu setningar eftir greinaskil. Skatturinn sem um ræðir eru veiðigjöld. Þess má geta að með gengisfellingu krónunar hefur hagsæld verið gríðarleg í sjávarútvegi, en sú hagsæld skilar sér ekki til þjóðarinnar. Ítrekað gengisfall veldur því að útflytjendur koma út í gróða, en laun lækka að raunvirði. Það er í raun ekkert annað en eignatilfærsla. Verð á innfluttum vörum hækkar, gróði af útflutningi hækkar, en laun standa í stað.
“Ítrekað koma upp hugmyndir um að ríkið taki árlega hluta af aflaheimildum af sjávarútvegsfyrirtækjum”. Segja steinarnir. Þetta er miskilningur.
Þvert á móti er gjarnan talað um uppboð og væri núverandi aðilum í greininni ekki meinuð þátttaka í því.
Vissulega er markmiðið að skapa kerfi þar sem þjóðin fær eðlilegar rentur af eign sinni. Og hvaða fyrirkomulag er betur til þess fallið að komast að því hvert raunvirði aflaheimilda er en uppboð á markaði?
Hjá frændum okkar í Færeyjum hefur nú verið brugðið á það ráð að bjóða upp makríl á um þrjár danskar krónur kílóið. Ekki virðist þetta fyrirkomulag standa íslenskum fyrirtækjum fyrir þrifum, enda að taka þau þátt í uppboðinu.
Næst segir steinahöfundur: ”Þessar hugmyndir grafa mjög undan haghvæmni i greininni og þar með undan velsæld þjóðarinnar”.
Hagræðing greinarinnar grefur verulega undan byggð í landinu, og er þetta háttarfar í beinu broti við upphafstef laga um stjórn fiskveiða. Fyrirkomulagið er þannig að stærstu fyrirtækin greiða hluthöfum sínum milljarða í arð, fyrir vinnslu á auðlind sem er sameign þjóðarinnar. Það sér það hver sem vill að rekstur sem skilar svo miklum afgangi er ekki í neinni raunverulegri samkeppni. Og hann er ekki að greiða eðlilegt verð fyrir heimildir sínar heldur, séu svona margir milljarðar eftir þegar allir kostnaðarliðir hafa verið afgreiddir.
Það er erfitt verk að setja nákvæmt verð í lög, enda getur eðlilegt verð sveiflast eftir stöðu markaða, verði á aðföngum, kjarasamningum og ýmsu fleiru.
Þess vegna er einmitt tilvalið að láta markaðinn sjálfan ákvarða eðlilegt verð á og væri óskandi að flokkar sem gefa sig út fyrir trú á markaðsöflin gætu áttað sig á þeirri einföldu staðreynd.
Áfram heldur lesturinn: ”Og það er sérstakt að slíkar hugmyndir heyrast aldrei um aðrar greinar”. Skemmst er að minnast hugmynda um gistináttargjald sá tekjustofn er tekin beint af erlendum ferðamönnum okkur til hagsældar.
”Þessi undarlegi fjandskapur einskorðast af einhverjum ástæðum við undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar”. Lengi mætti tala um undirstöðugreinar þjóðarinnar. En atvinnugrein sem ekki er tilbúin að semja um laun við starfsfólkið sitt í fimm ár samfellt, samhliða því að haga rekstri sínum þannig að heilu bæjarfélögin standa eftir auð og snauð er kannski ekki að skapa sér svo mikla velvild. Kannski væri hún til staðar ef það væru fleiri sem stæðu sáttir að borðinu. En kerfið í dag virðist einblína á hagsmuni útgerðarmannanna sjálfra og fárra annarra.
Vil ég því ítreka að frjálsar handfæraveiðar eru á stefnuskrá Pírata og þær eru ekki þar vegna fjandskaps. Þær eru þarna vegna þess að þar er hugsað um fleiri þætti í framkvæmd stjórn fiskveiða heldur en arðgreiðslur rekstraraðila eingöngu.