Píratar, samkennd og stjórnmál – skiptir samkennd máli?

Finnur Þ. Gunnþórsson
Finnur Þ. Gunnþórsson og Hrannar Jónsson skrifa:
Ítalski menntafræðingurinn María Montessori var þrisvar sinnum tilnefnd til Nóbelsverðlauna þar sem hún þótti hafa náð fádæma árangri í menntun barna þar sem aðferð hennar meðal annars stuðlaði að því að verulega dró úr ofbeldi og skemmdarverkum. Lykilatriði þar var áhersla á að hægt væri að þroska samkennd; hæfnina til þess að setja sig í spor annarra og sýna þeim sannan skilning.
Þeir sem skilja ekki nægilega djúpt að þeir tilheyra hópi geta orðið einmana en í verri tilfellum geta þeir hreinlega skaðað aðra hvort sem er beint eða óbeint.

Hrannar Jónsson
Með samkenndinni er hægt að átta sig á tilfinningum annarra og ástandi þeirra gagnvart heildinni og manni sjálfum. Samkenndin krefst sjálfsskilnings og vegur á móti líkamlegu og andlegu ofbeldi. Ættbálkar fyrri tíma áttu sér oft athafnir til þess gerðar að þroska samkennd og tilfinningu fyrir heildinni eins og birtist til dæmis í ubuntu speki Suður-Afríku. Þar er gefið til kynna að manneskja sé einmitt manneskja af því hún geti verið öðrum góð. Hver og einn er þá mannvera, tilheyrir mönnum af því að hann getur verið og starfað í samkennd. Einstaklingurinn skilgreinir sig út frá tengslum sínum við aðra.
Samkenndin er með öðrum orðum grunnþáttur í færni í mannlegum samskiptum og meginstoð í því að hægt sé að byggja upp samfélag. Þar sem að hana skortir á einhvern hátt þó ekki sé nema gagnvart ákveðnum einstaklingum kemst ójafnvægi á samfélagið sem hindrar velferð heildarinnar.
Það krefst þess að vera töluvert berskjaldaður að tjá samkennd þar sem menn geta átt á hættu að ráðist sé að hugmyndum þeirra og persónu. Það getur mögulega verið vegna lífsbaráttu fortíðarinnar, en atferlisfræðingar hafa haldið því fram að hún hafi á tíðum krafist það mikillar hörku að það sé eins og menn verði að komast inn fyrir nokkur lög til þess að tengjast samkenndinni gagnvart sjálfum sér og öðrum. En tilfinningarnar og samkenndin eru tromp gagnvart rökhugsuninni blákaldri þegar kemur að vellíðan þinni og vellíðan heildarinnar.
Pólitík sem tekur ekki mið af þessu missir marks. Hún talar eingöngu í milljörðum en valtar yfir manneskjur, sérlega þær sem eiga sér ekki málsvara. Það er ekki hægt að ná fram einu einasta réttlætismáli án samkenndar. Adam Smith stofnunin bendir á að það sé einmitt samvinna sem geri það mögulegt að markaðir virki, velvildin en ekki eiginhagsmunasemin skilar árangri.
Píratar vita þetta, þeir gera sér grein fyrir því að þeir geta ef til vill hegðað sér út frá vanaviðbrögðum fortíðar en vilja þá frekar biðjast afsökunar til þess að geta unnið út frá betri vitund að bættri framtíð. Þess vegna bjóða þeir upp á þjálfun í samkennd fyrir sína félagsmenn með aðferðum eins og “talhringjum” og “Bohm Dialogue” tækni (byggir á hugmyndum eðlisfræðings um hóp hugsun). Píratarnir vilja byggja á þeim grunni sem skapar samfélag sem virkar.
Við þurfum að rækta samkenndina og læra betur um hana. Til þess að geta sýnt samkennd með öðrum er líka þörf á að geta sýnt sjálfum sér hana. Hún er heldur ekki bara fyrir okkur hér og nú. Því það er samkennd að vilja skila af sér betri heimi en okkur fannst hann vera þegar við komum inn í hann.
Finnur Þ. Gunnþórsson er með meistaragráðu í stjórnun og markaðsfræði og er fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata. Hrannar Jónsson starfar við hugbúnaðarþróun og er formaður landssamtakanna Geðhjálpar.