Internetið með stóru i?
Nói Kristinsson skrifar:
Internetið, hvort sem fólk kýs að skrifa það með stórum staf eða litlum, er orðinn órjúfanlegur hluti af lífi okkar. Það er einhvern veginn alls staðar, þegar við vöknum, þegar við sofnum. Við erum jafnvel upptekin á því á meðan við erum á salerninu. Það hefur bókstaflega smogið inn í alla þætti lífs okkar.
Svona er lífið og ég hef bara tekið því svoleiðis, foreldrar mínir eru tæknihamlaðri en ég og ég eyði löngum tíma í að hjálpa þeim. Fólk er mismunandi og það er í lagi. Rannsóknir mínar á tölvuskilningi og tölvunotkun barna sýndu mér að strax á unga aldri eru áhugi og nálgun mismunandi.
Það var svo þegar Jakob Frímann sagði að það væri enginn munur á efni sem væri í kjötheimum og á netinu að það rann upp fyrir mér að þótt einstaklingar séu með mismunandi þekkingu á því hvernig Internetið eða ný tækni virkar þá verður að vera grundvallarskilningur á þeim áhrifum sem þessi nýja tækni er að hafa.
Þegar ég vann að masters ritgerð minni í Uppeldis- og menntunarfræði tók ég fjöldann allan af viðtölum við börn á aldrinum 5-9 ára. Öll höfðu einhverja þekkingu á spjaldtölvum, öll höfðu leikið í spjaldtölvu eða snertisíma hjá foreldri. Strax við sjö ára aldur voru sum þeirra farin að notast við Google translate til að aðstoða sig við að vafra um netheimana. Einn hafði þekkingu á efnisveitu á borð við Steam og flest öll, sérstaklega þegar komið var í grunnskóla, voru dugleg við að leita sér að efni á Youtube.
Frá blautu barnsbeini hafa þau lært að efnið er til, að það er þarna og hvernig má ná því.
Kæri Jakob Frímann, gæti verið að þú hafir gleymt að fylgja tæknibreytingum á eftir?
Heimurinn breytist hratt og það eru að alast upp kynslóðir sem sjá heiminn svo allt öðruvísi en eldri kynslóðir munu nokkurn tíman gera og nokkurn tíman geta gert.
„Ertu að læra á tölvur í skólanum“ spurði ég eina sjö ára hnátu sem brosti og hristi hausinn.
„Nei… en ég er að læra á klukkuna.“
Í huga barnsins er tölvan og Internetið ekkert annað en hver annar hlutur inn á heimilunum. Fyrir henni var tölvan ekkert merkilegri en klukkan. Tölvan er ekkert merkilegri en þvottavélin eða sjónvarpið. Hún er þarna og hefur alltaf verið. Það er gátt að upplýsingum sem er og hefur alltaf verið.
Ég sat á spjallinu við prófessor frá Englandi fyrir nokkrum árum og hann var að lýsa því að þegar hann væri að fara yfir ritgerðir þá væri ítrekað verið að vitna í kafla sem væru opnir á Google books, aldrei lokuðu hlutana.
Þetta ýtti stoðum undir þann raunveruleika sem ég vissi að væri að aukast á meðal námsmanna. Skanna og vista, skanna og vista. Til hvers að lesa heila bók þegar þú getur leitað að lykil-orðum (keywords) í bókinni og lesið bara þær setningar.
Til hvers að leita eftir gömlum skruddum á bókasafni þegar hægt er að nálgast það í stafrænu formi á netinu.
Það hriktir í grunnstoðum heimsins, hvernig hann virkar og hvernig hann er samsettur vegna þeirra stafrænu breytinga sem nú eru orðnar og eru að verða.
Þekking heimins er að losna úr viðjum hafta og flýtur í æ ríkari mæli um opnar staðleysur Internetsins.
Það er þó ekki svo að bara þekking og þekkingaröflun er að breytast. Allt er að breytast.
Það eru rúmlega 10 ár síðan meira var vistað af upplýsingum í stafrænu formi en á hliðrænu (pappír).
Það er framleitt svo mikið af hörðum diskum að það við náum ekki að fylla þá nógu hratt til að klára þá alla.
Það eru rúmlega 2.6 milljarðar af vefpósts notendum í heiminum í dag.
Árlega er sent meira en 1 zetabyte af gögnum (ef 1 gígabæt er kaffibolli, þá væri þetta Kínamúrinn)
99,7% heimila á Íslandi með börn yngri en 16 ára eru með háhraðanettengingu.
Á hverri mínútu er 300 klukkustundum af videói hlaðið upp á youtube.
Tíu launahæstu tölvuleikjaspilararnir hafa þénað frá 155 milljónunum upp í 255 milljónir fyrir að spila á mótum.
Internetið er að draga saman fjarlægðirnar þannig að einstaklingur í Ástralíu getur verið þér nær en nágranni þinn.
Internetið sameinar ólíka hópa þar sem menning er ekki lengur einangruð við ákveðin lönd heldur fær tækifæri til að dreifast.
Internetið er vettvangur þar sem framsetning sjálfsins getur verið falin eða birt, þar sem raddir geta hljómað á grundvelli jafnréttis og hugmyndir fæðst í hópi fjöldans.
Svo er staðreyndin að þetta er hinn nýji raunveruleiki og það hefur sýnt sig að lítið gagnast að vera með boð og bönn. „Ég hata netsíuna sem mamma keypti„ sá ég unga stúlku rita á spjallsíðu fyrir mörgum árum, „hún blokkar fullt af listasíðum því þar eru málverk sem innihalda nekt“. Þessari athugasemd var svarað með löngum þræði með aðferðum til að komast framhjá síunni.
Í L.A. fengur nemendur spjaldtölvur. Spjaldtölvurnar voru læstir á net skólans svo ekki var hægt að komast á netið heima hjá nemendum. Það tók ekki nema viku fyrir nemendur að komast fram hjá takmörkunum. Lausnin er aldrei boð og bönn eða takmörkun á aðgengi að upplýsingum. Ef það er hægt að komast í framjá því, þá verður komist framhjá því. Upplýsingar í einu formi eða öðru verða aldrei tjóðraðar, þær verða aldrei tamdar. Upplýsingar leitast ávallt við að vera opnar og fjálsar.
Það er stór hluti samfélagsins sem þarf að átta sig á því að með netinu hefur komið nýr heimur, nýr raunveruleiki, nýjar reglur. Að halda annað er að vera fastur í íhaldinu sem bíður upp á ekkert nema stöðnun.
Internetið er langt frá því að vera bóla. Það er ráðandi afl í samfélaginu okkar og fyrirtæki og stofnanir verða að fylgja þessum breytingum eftir eða hljóta skaða af líkt og Kodak og Blockbuster. Á meðan aðrir stukku út í djúpulaugina og nýttu sér tæknina líkt og Netflix sem lagði áherslu á streymið frekar en DVD diska, eða Amazon sem ákvað í árdaga Internetsins að selja bækur einvörðungu á Internetinu.
Eða eins og Winston Churchill sagði: að bæta sig er að breytast, að vera fullkominn er að breytast oft.
Nú er tími breytinga, nú er tíminn til að taka af skarið og fylgja þeim straumum sem móta æsku landsins, hugmyndir barna okkar og munu setja svip sinn á þá framtíð sem bíður handan hornsins.
Eftir að hafa hugsað um það þá er Internetið er stórt og áhrifamikið, svo við ættum kannski að skrifa það með stórum staf.
Höfundur er mannfræðingur, menntunarfræðingur og pírati