„Það er til hinsegin fólk sem er í Þjóðfylkingunni“
Frambjóðandi til stjórnar Samtakanna ’78 gagnrýnir núverandi stjórn fyrir að stunda pólitík með því að lýsa samstöðu með flóttafólki. Hann segir hinsegin fólk vera að finna í Þjóðfylkingunni og að óviðeigandi sé að Samtökin ’78 hafi valið vettvang samstöðu með hælisæleitendum gegn stefnu Þjóðfylkingarinnar í útlendingamálum. Félagið verði að vera griðarstaður fyrir fólk úr öllum flokkum.
„Mér finnst Samtökin hafa aðeins afvegaleiðst og orðin svolítið pólitísk,“ segir Gunnar Karl Ólafsson, frambjóðandi til stjórnar Samtakanna ’78, í kynningarmyndbandi sem hann hefur deilt á Facebook fyrir framboð sitt. „Sérstaklega, ef við tökum sem dæmi, þegar þau fóru og voru með samstöðufund við flóttamenn á sama tíma og Þjóðfylkingin var að mótmæla útlendingalögunum, eða útlendingalöggjöfinni, fyrir utan Alþingi. Mér þykir það ekki vera réttur vettvangur fyrir Samtökin ’78. Það er til hinsegin fólk sem er í Þjóðfylkingunni. Það er til hinsegin fólk sem vill þrengja útlendingalöggjöfina. Það er líka til hinsegin fólk sem vill rýmka hana og fólk sem vill halda henni óbreyttri,“ segir Gunnar í myndbandinu. Hann tekur fram að hann sé ekki meðlimur í Þjóðfylkingunni.
Gunnar segir Samtökin ’78 eiga að vera samtök alls hinsegin fólks „Óháð stjórnmála-, trúarskoðunum og lífsgildum.“
Samtökin fara meðal annars með þjónustuhlutverk við hinsegin flóttafólk. Í gegnum árin hafa Samtökin ’78 komið að slíku starfi. Árið 213 héldu samtökin fund sem bara yfirskriftina Samtakamátturinn þar sem félagsfólk gat rætt stefnumótun félagsins. Samtökin hafa síðan unnið við úrvinnslu fundarins.
Við stefnumótun í alþjóðasamskipum félagsins kom fram sú krafa að félagið stundi virkan stuðning við hælisleitendur. Í lýsingu á verkefninu segir: „Stofna virka nefnd sem styður hinsegin hælisleitendur á Íslandi og er gagnrýnin á málsmeðferð allra hælisleitenda (ekki bara LGBTI). Verkefnið snýst líka um að ná utan um og kortleggja stöðu LGBTI hælisleitenda á Íslandi.“ Þá kemur fram að starfshópurinn geti unnið með öðrum félögum og hópum sem vinna að hag hælisleitenda.
Harðar deilur hafa verið innan Samtakanna ’78 vegna hagsmunaaðildar BDSM á Íslandi. Hópur sem kallar sig Velunnara Samtakanna ’78 hefur deilt á stjórn fyrir að hafa lagt fram umsókn BDSM á íslandi og efast um lögmæti aðalfundar. Í kjölfarið var boðað til felagsfundar sem staðfesti lögmæti aðalfundar og kaus um hagsmunaaðild BDSM sem var samþykkt öðru sinni. Deilt var um þá ákvörðun og í kjölfarið hófst sáttarferli milli stjórnar og Velunnara. Nú hefur verið boðað til aðalfundar 11. september þar sem kosið verður í þriðja sinn um aðild BDSM ásamt því að endurtaka stjórnarkjör.