Aðgerðaáætlun í leik- og grunnskólum
Fréttatilkynning frá Reykjavíkurborg:
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag aðgerðaáætlun í leik- og grunnskólum. Í henni felst aukning á framlögum til sérkennslu, efniskostnaðar og faglegs starfs. Þá mun fjármagn til hráefniskaupa aukast með hækkun fæðisgjalda
Strax á þessu ári mun Reykjavíkurborg hækka framlög til sérkennslu í leik- og grunnskólum. Framlög til kaupa á námsgögnum í leikskólum verða hækkuð og inntaka barna sem fædd eru í mars og apríl 2015 hefst frá og með næstu áramótum.
Ráðist verður í sameiginlegt átak með fagfélögum leikskólastarfsfólks og félagi foreldra leikskólabarna um nýliðun og fjölgun leikskólakennara með það fyrir augum að gera starf á leikskólum eftirsóknarverðara.
Gjöld vegna mataráskriftar í skólum sem foreldrar greiða munu hækka til að bæta matinn í skólunum og renna tekjurnar alfarið til skólamötuneyta í kaup á hráefni. Reykjavík verður þá með mjög sambærilega gjaldskrá vegna mataráskriftar við þau sveitarfélög sem leggja mest í hráefnisframlög til skólamötuneyta. Leikskólagjöld og önnur gjöld vegna skólagöngu barna verða engu að síður áfram þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu. (sjá töflu)
Aðgerðaáætlunin sem er í tíu liðum var samþykkt í borgarráði í morgun. Undanfarna daga hefur borgarstjóri, ásamt formanni skóla- og frístundaráðs, og embættismönnum skóla- og frístundasviðs, fundað með samráðshópum leikskólastjóra og grunnskólastjóra. Boðað var til fundanna í tengslum við umræðu um fjármál leik- og grunnskóla í Reykjavík. Í kjölfar þessara funda var lögð lokahönd á gerð aðgerðaáætlunar í tíu liðum sem á að bæta skólastarf í borginni. Aðgerðaáætlunin var borin undir sömu samráðshópa og athugasemdir teknar til greina.
„Þetta voru mjög gagnlegir fundir. Í sex mánaða uppgjöri borgarinnar sáum við fram á betri tíma í fjármálum borgarinnar. Þetta er ávöxtur aðhalds á öllum sviðum, en líka aukinna tekna. Í aðgerðunum endurspeglast sú áhersla að skólamál og velferð eru forgangsmál þegar hagur vænkast,,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Segja má að við nýtum nú tækifærið til að hraða þessari uppbyggingu í skólunum. Með því erum við að leggja nýjan grunn fyrir áframhaldandi skólaþróun og uppbyggingarstarf og stuðla að því að skólar borgarinnar verði áfram leiðandi í fagstarfi, gæðum og árangri.,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Adgerdir-i-skolamalum-borgarrad Glærur
Aðgerðaáætlun
- Sérkennsla, langtímaveikindi starfsmanna og skólaakstur
Leikskólar og grunnskólar fái aukið fjármagn vegna langtímaveikinda starfsmanna, sérkennslu og skólaaksturs. Alls er um að ræða um 679 mkr. vegna haustsins 2016.
- Meira fé til hráefniskaupa vegna skólamáltíða
Fæðisgjald verður hækkað í leik- og grunnskólum um 100 kr/dag frá 1. október nk. Þeir fjármunir munu fara óskiptir í hráefnisinnkaup til að bæta gæði máltíða. Skólar í Reykjavík munu eftir breytinguna búa við sambærileg framlög til hráefniskaupa og þau sveitarfélög sem leggja mest í matarinnkaup fyrir skólana.
- Framlög til kaupa á námsgögnum í leikskólum hækka umtalsvert
Framlög til kaupa á námsgögnum til skapandi starfs í leikskólum hækka úr 1.800 kr. á barn í 3.000 kr.
- Efling faglegs starfs í leikskólum
Meira fjármagni, alls 24,8 mkr. á þessu hausti verður veitt til faglegs starfs í leikskólum með viðbótarframlögum til undirbúningsstarfa fagfólks sem og ófaglærðra starfsmanna. Efling faglegs starfs í leikskólum verði jafnframt skoðuð við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2017.
- Efling faglegs starfs í grunnskólum
Auknu fjármagni eða 60 mkr. verður veitt til faglegrar stjórnunar í grunnskólum haustið 2016. Efling faglegs starfs í grunnskólum verði jafnframt skoðuð við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2017.
- Inntaka barna fæddra í mars og apríl 2015
Opnað verður fyrir inntöku barna sem fædd eru í mars og apríl 2015 á leikskóla borgarinnar frá og með áramótum 2017. Nákvæm dagsetning inntöku í hverju tilviki verður þó háð rými og stöðu starfsmannamála á viðkomandi leikskóla. Jafnframt verður ráðist í sameiginlegt átak með fagfélögum leikskólastarfsfólks um nýliðun og fjölgun leikskólakennara með það fyrir augum að gera starf á leikskólum eftirsóknarverðara.
- Endurskoðun úthlutunarlíkana leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðvar
Unnin verði ný úthlutunarlíkön fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar sem byggð eru á fyrirliggjandi gögnum og frekari fjárhagslegri greiningu á rekstrinum. Úthlutunarlíkönin taki gildi fyrir skólaárið 2017-18.
- Meðferð á halla frá 2015
Leik- og grunnskólar þurfi ekki að mæta halla vegna 2015 á árinu 2016. Staða einstakra starfstaða verður metin í ljósi ábendinga stjórnenda um óviðráðanleg ytri skilyrði.
- Hækkun framlaga vegna kjarasamningbundinna launahækkana
Við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að fjárveitingar til skóla- og frístundasviðs hækki vegna kjarasamningsbundinna hækkana launa sem gerðir voru í lok árs 2015. Hækkunin milli áranna 2015 og 2017 eru 3,3 milljarðar kr, þar af 1 milljarður króna á árinu 2016. Þegar náðst hafa samningar um kjör grunnskólakennara við félag grunnskólakennara mun þessi upphæð hækka enn frekar.
- Bætt upplýsingagjöf og aukinn stuðningur við starfsstöðvar
Lögð verði áhersla á bætta upplýsingagjöf, aukna ráðgjöf og stuðning við stjórnendur sem þess óska varðandi fjárhag og rekstur sinna starfsstöðva.
Hækkun mötuneytisgjaldskrár
Mötuneytisgjaldskrá hækkar um 100 krónur í leik- og grunnskólum. Það á að tryggja góðan og næringarríkan mat handa öllum en fjármagn til hráefniskaupa verður mjög sambærilegt við það sem gerist hjá þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sem mest leggja í matarinnkaup fyrir skólamötuneyti.
Eftir sem áður verður Reykjavík með ein lægstu leikskólagjöld á landinu miðað við fulla verðskrá og átta tíma vistun á dag.
Grunnskólar | Grunnskólar | SveitarFélag | Leikskólar | Leikskólar | Leikskólar 1 barn | Leikskólar 2 börn | Leikskólar |
FULLT FÆÐI | Verð pr. máltíð í grunnskólum | Dvalargjald | Fullt fæði | Samtals | Samtals | Fæði pr. dag | |
9.100 | 455 | Reykjavík | 16.960 | 10.487 | 27.447 | 42.174 | 484 |
8.780 | 439 | Kópavogur | 21.888 | 8.112 | 30.000 | 53.434 | 374 |
8.920 | 446 | Hafnarfjörður | 24.720 | 7.863 | 32.583 | 52.806 | 379 |
9.480 | 474 | Garðabær | 30.240 | 7.330 | 37.570 | 60.020 | 338 |
7.400 | 370 | Mosfellsbær | 25.296 | 8.450 | 33.746 | 54.844 | 390 |
8.840 | 442 | Seltj.nes | 17.960 | 7.800 | 25.760 | 42.540 | 360 |